Þorrablót dvalar- og hjúkrunarheimilisins Kirkjuhvols var haldið með pomp og prakt sl. föstudagskvöld og er ávallt verulegt tilhlökkunarefni. Ingibjörg Marmundsdóttir sá um veislustjórn og boðið var upp á skemmtiatriði af bestu gerð. Sváfnir Sveinbjarnarson var með erindi og tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Rangæinga en boðið var upp á píanóleik, sellóleik og fiðlusveit undir stjórn Halldórs Óskarssonar og Guðrúnar Markúsdóttur. Þorrablótshljómsveitin lét sitt ekki eftir liggja og lék fjörug lög af ýmsu tagi en þeir hafa komið saman af þessu tilefni mörg síðustu ár. Hljómsveitina skipa þeir Sveinn Kristján Rúnarsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Ágúst Ingi Ólafsson og aldursforsetarnir Dieter, 80 ára heimilismaður á Kirkjuhvoli sem spilaði á trommur og Jón Guðjónsson, 85 ára frá Hallgeirsey, sem blés í saxafóninn.

Ásta Halla Ólafsdóttir sá um hárgreiðslu í sjálfboðavinnu og þær Margrét og Linda Rut, starfsmenn Kirkjuhvols, sáu um förðun.

Þorrablót stendur svo ekki undir nafni nema á boðstólum sé þorramatur af bestu gerð og þannig var að sjálfsögðu á Kirkjuhvoli og var maturinn framreiddur af matráðskonum Kirkjuhvols með dyggri aðstoð félaga úr Aðstandendafélagi heimilisins. 

Glæsilegt kvöld og góð skemmtun í alla staði.