Hér eru nefndar nokkrar gönguleiðir í Rangárþingi eystra

Hvolsfjall                                 

Vegalengd: 2 km              Hækkun: 127 m              Göngutími: 1. Klst                    

 Gönguleið: Hvolsfjall er 127 metra hátt fjall við Hvolsvöll og er auðvelt uppgöngu og hentar

því vel fjölskyldufólki.

Leiðarlýsing: Gengið er upp á Hvolsfjall frá Bjallanum hjá Stórólfshvolskirkju og þaðan inn eftir fjallinu eftir göngustíg sem þar hefur verið lagður. Af toppnum heldur síðan stígurinn áfram niður í miðja hlíðina og þar er farið yfir tröppur og genginn stígurinn í gegnum skóginn sem þar er að vaxa upp. Sá stígur nær inn að girðingunni við sumarhúsin í Miðhúsalandi og er þar gengið niður á göngustíg meðfram Nýbýlaveg.

Heilsustígur Hvolsvelli

Vegalengd: 4,2 km          Hækkun: lítil hækkun          Göngutími: 1-2 klst.        

Ein vinsælasta gönguleið Hvolsvellinga er leiðin upp með Nýbýlavegi að Akri.

Þaðan er hægt að ganga meðfram limgerðinu vestan við nýja kirkjugarðinn niður

í þorp aftur eða halda áfram að Lynghaga og niður völlinn niður að Sólheimum

til baka, framhjá reiðvellinum og upp eftir slóðanum í Miðöldunni sem búið er

að planta í. Hægt er að velja um mislangar og erfiðar gönguleiðir.

Tumastaðir

Vegalengd: mismunandi eftir leiðum      Hækkun: lítil          Göngutími:   eins og hver vill      

 Gönguleið: Tunguskógur og Tumastaðir eru í Fljótshlíð, um 9 km frá Hvolsvelli. Þetta er vinsæll útivistarstaður í Rangárþingi eystra. Hér hafa heimamenn ræktað upp allmikið skóglendi, lagt þar göngustíga og komið fyrir borðum og bekkjum. Þarna er fallegt umhverfi, skjólsamt og mikið fuglalíf. Hægt er að velja um mislangar gönguferðir. Skógrækt ríkisins hóf rekstur gróðrarstöðvar á Tumastöðum árið 1944 og sveitungar hófu skógrækt í brekkunum í Tungulandi, sem er samliggjandi

Tumastöðum árið 1951. Upp úr 1980 hóf hreppurinn stígalagningu í Tunguskógi og fékk meðal annars jarðýtu til að leggja aðalstíginn í brekkunni. Síðan hefur smám saman bæst við stígana og unnið hefur þar verið við grisjun á skóginum.

Þríhyrningur

Vegalengd: 7 km              Hækkun: 500 metrar          Göngutími:   3 klst      

Gönguleiðin: Þríhyrningur er í um 18 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Fljótshlíðarvegurinn (261) er ekinn að Tumastöðum en þar er keyrt upp þangað til komið er að Fiská. Hjá Fiská er svo beygt til hægri upp á grasbala og hefst gangan þaðan, upp á fjallið að suðvestan. Í nágrenni við veginn að fjallinu er Vatnsdalshellir sem vert er að skoða.

Leiðarlýsing: Þríhyrningur er 678 metrar á hæð og útsýni mjög gott til allra átta þaðan. Fjallið dregur nafn sitt af þremur hornum og á milli þeirra er dalur sem heitir Flosadalur. Segir í Njáls sögu að þar hafi Flosi á Svínafelli og brennumenn falið sig eftir Njálsbrennuna. Í fjallinu framanverðu eru tvö hamragil, Katrínargil og Tómagil.

Þórólfsfell

Vegalengd: 6,5 km          Hækkun: 500         Göngutími:   4-5  klst      

Gönguleið: Þórólfsfell er 574 metra hár móbergsstapi. Útsýnið af toppi Þórólfsfells er stórfenglegt með jöklana þrjá, Tindjallajökul, Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul, hringinn í kring.

Leiðarlýsing: Best er að leggja í göngu frá húsinu í Felli. Vinsælast er að ganga meðfram ánni inn Þórólfsgljúfrið eftir kindagötum og stefnan tekin rakleiðis á toppinn. Valin er leið upp á grjóthrygg og þaðan eftir grasbala upp fyrir brún. Fjallið er nokkuð flatt að ofan og þarf að ganga aðeins inn á fjallið áður en raunverulegum toppi þess er náð. Þar er varða með fastmerki frá Landmælingum Íslands frá árinu 1958. Gangan tekur 4+ klukkustundir. Ef tíminn er nægur er tilvalið að ganga að Mögugili sunnan við Þórólfsfell. Þar eru miklar móbergsmyndarnir, gengið er undir stórgrýti og í gegnum hella. Neðarlega í gilinu er að finna dropahellinn Mögugilshelli sem er mikið náttúrufyrirbrigði. Hellirinn er í blágrýtisæð, um 15 metra langur og hefur myndast vegna gasbólu eða loftþrýstings. Hann er þakinn blágrýtistaumum, innarlega í honum eru svo einhverskonar gúlar, allt kolsvart og gljáandi.  Við Þórólfsfell er gangnamannakofi í eigu fjallskilasjóðs Fljótshlíðar.

Stóra – Dímon

Vegalengd: 1 km              Hækkun: 178        Göngutími:    1 klst      

Leiðarlýsing:

Á þjóðvegi 1, leiðinni til Víkur frá Hvolsvelli, áður en að farið er yfir Markarfljótsbrúna, er beygt til vinstri inn Dímonarveg (250). Þaðan eru nokkrir kílómetrar að Stóru-Dímon. Á Fljótshlíðarveginum (261) er afleggjarinn rétt áður en komið er að Múlakoti, nokkurn veginn til móts við Gluggafoss.

Í Stóru-Dímon koma saman mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla. Stóra-Dímon á sér systur sem er Litla-Dímon. Nafnið er talið koma úr latínu og merkja tvífjöll, eða tveir eins. Þá er einnig sagt að orðið merki heysáta og vissulega minnir Dímon á heysátu. Við rætur fjallsins er skilti frá Sögusetrinu sem segir frá húskarlavígum Hallgerðar og Bergþóru í Njáls sögu. Þar segir frá vígi Kols, verkstjóra hjá Gunnari á Hlíðarenda, en hann vó Svart sem var húskarl Njáls á Bergþórshvoli. Fjallið er 178 metra hátt og er það verðugt verkefni, bæði hjá börnum sem og fullorðnum, að klifra upp á Dímon.

Seljalandsfoss

Vegalengd: 1 km              Hækkun: lítil        Göngutími:     1 klst      

Leiðarlýsing:

Seljalandsfoss er fremsti foss Seljalandsár sem á upptök sín uppi á Hamragarða- og Seljalandsheiði. Fossinn er 60 m á hæð, fellur fram af fornum sjávarhömrum. Þegar loftslag fór að hlýna undir lok síðustu ísaldar bráðnaði ísinn hratt, samhliða því hækkaði sjávarstaða. Þegar ísfarginu létti lyftist landið í leit að nýju jafnvægi, sjórinn fylgdi ísbrúninni inn í landið og kaffærði meðal annars allt Suðurlandsundirlendið. Hægt er að ganga í kringum Seljalandsfoss og virða hann fyrir sér frá öllum sjónarhornum. Leiðin getur orðið ansi blaut en þó er alltaf þurrt þegar á bakvið fossinn er komið. Beljandi vatnsniðurinn og regnboginn sem ljómar í vatnsflókunum þegar sólin skín á fossinn skapa

ógleymanlega upplifun. Umhverfið í kringum fossinn er mjög fagurt með sínum gróðurvöxnu brekkum, hömrum, fossum og hellum, á aurunum að baki rennur svo Markarfljótið. Sunnan fossins er skógarlundurinn Seljalandskverk. Þar er um 20 metra langur hellir sem kallast Kverkarhellir og er gamall þingstaður Vestur-Eyfellinga. 

Hamragarðar – Ásólfsskáli – Moldnúpur (ofan hamra)

Vegalengd: 4 klst             Hækkun: 480 m        Göngutími:  9 km      

Gönguleið: Á Þórsmerkurveginum (249), um 0,5 km frá þjóðvegi 1, norðan við Seljalandsfoss, eru Hamragarðar. Þar er tjaldstæði og fossinn Gljúfrabúi sem vert er að skoða.

Leiðarlýsing:

Töluvert sunnan við Gljúfrabúa er lítið gil í hamraveggnum þar sem hægt er að fara upp á Hamragarðaheiðina fyrir ofan. Talað var um að fara upp Stíginn og lækurinn í gilinu nefndur Stígslækur. Stígurinn er enn nokkuð skýr, hálfgerðar tröppur eru upp þar sem er brattast. Rétt fyrir ofan brúnina eru leifar gamalla fjárhúsa frá Hamragörðum. Gengið er svo áfram fram á fjallsbrún fyrir ofan Seljaland. Þaðan er gengið eftir brúnunum og komið niður í Skálahverfið. Hægt er að létta sér leiðina með því að aka áleiðis upp brekkurnar, eftir slóðanum sem liggur upp á Eyjafjallajökul.

Fimmvörðuháls

Vegalengd: 24 km           Hækkun: 1100 m        Göngutími: 8-12 klst    

Gönguleið: Fimmvörðuháls er ein vinsælasta gönguleið á Íslandi. Hún liggur frá Skógum undir Eyjafjöllum, milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls yfir á Goðaland og Þórsmörk. Um er að ræða um 21 km langa vegalengd sem er  krefjandi og krefst góðs undirbúnings og útbúnaðar. Nafnið er dregið af fimm  vörðum er stóðu þar nokkuð þétt til að vísa leiðina í dimmviðri. Þegar innar er komið er þar einnig Þrívörðusker.

Leiðarlýsing: Ef gengin er öll leiðin þá er hún um 24 kílómetrar og hægt er að gista í skála á leiðinni og fara hana á tveimur dögum. Skálinn er í um 1100 metra hæð þannig að þetta er brött leið og allra veðra von og hafa menn orðið úti á þessari leið. Gengið er eins og fyrr segir á milli  Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls og niður er farið eftir Heljarstíg um Heljarkamb og er hann það brattur að settar hafa verið keðjur þar til stuðnings.

Skógar

Vegalengd: mismunandi eftir leiðum   Hækkun: allnokkur, mismunandi eftir leiðum        Göngutími:  Eins og hver vill      

Gönguleið:

Leiðarlýsing:

Á Skógum eru ágætir göngustígar upp í skóginn sem er fyrir ofan Héraðsskólann. Það eru tröppur fyrir norðan skólann og þegar upp er komið er fyrst stytta af Þorsteini Erlingssyni skáldi. Síðan kemur nokkuð brattur stígur upp að rústum gömlu beitarhúsanna en þar er gott að tilla sér niður. Síðan kemur annar brattur kafli og bekkur og er þá erfiðið búið, en útsýnið unnið. Stígurinn heldur síðan í boga yfir gilið og liðast síðan niður brekkurnar í mjög fallegum greniskógi hinum megin.

Skógafoss er í Skógá sem er vatnsmikil og fellur vatnið nokkuð jafnt fram af 62 metra háum hamrinum, á allbreiðum kafla, sem gerir fossinn mjög tignarlegan. Hægt er að ganga inn smá glúfur alveg að hylnum undir fossinum. Mikill vatnsúði er þegar svo nálægt er farið og vissara að hafa með regnkápu. Upp með Skógafossi er svo stígur og í Skógánni fyrir ofan eru fallegir fossar sem gaman er að skoða. Það er mjög aðgengilegt að komast að Skógafoss. Bílastæði eru fyrir neðan fossinn með salernum, tjaldstæðum og ágætri aðstöðu. Skógar eru einnig byrjunarstöð fyrir göngu yfir Fimmvörðuháls.