Rangárþing eystra er aðili að Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. sem er byggðasamlag sem nær yfir Rangárvallasýslu.

 

Sorpstöðin, sem starfað hefur frá árinu 1993, annast alla meðhöndlun og förgun úrgangs í umboði sveitarfélaganna þriggja sem nú eiga aðild að stöðinni.

Í sorphirðudagatali Sorpstöðvarinnar má nálgast hvaða daga sorpið er tekið á hverjum stað fyrir sig. 

Hér má nálgast Sorphirðubæklingin - þar eru allar upplýsingar um sorphirðu í Rangárvallasýslu.
          Bæklingurinn á ensku
          Bæklingurinn á pólsku

Sorpstöð Rangárvallasýslu setur reglulega tilkynningar og fróðleik á facebook síðu sína. Endilega fylgist með þar!

1. desember 2017 breyttist fyrirkomulag á meðferð heimilissorps og endurnýtanlegs úrgangs í Rangárvallasýslu. Sorpstöð Rangárvallasýslu heldur utanum verkefnið fyrir sveitarfélögin í sýslunni. Í maí 2019 breyttist svo sorphirða aftur þegar farið var að flokka lífrænt.

Nú eru þrjár sorptunnur við hvert heimili sem og ílát fyrir lífrænt sorp ofan í tunnunni fyrir almennt sorp.

sorptunnur

SVARTA tunnan er fyrir almennt heimilissorp - ofan í henni er brúnt ílát fyrir lífrænt.
BLÁA tunnan er fyrir pappír og pappa.
GRÆNTA tunnan er fyrir plast.
BRÚNA ÍLÁTIÐ er fyrir lífrænt

Eigendur frístundahúsa sem eiga hús við fastar sorphirðuleiðir geta samið beint við þjónustuaðila um sorphirðu og tunnulosun. 

Allan annan úrgang en heimilisúrgang, s.s. timbur, málma, grófan úrgang o.fl., skal fara með á gámavöll á Strönd. Einnig er tekið á móti heimilisúrgangi á grenndarstöð. Húsráðanda er heimilt að afsetja á sjö daga fresti heimilisúrgang allt að 2 m³ án gjaldtöku. Gjald er að öðru leyti tekið fyrir úrgang skv. vigt og gjaldskrá. Aðal Gámavöllur sveitarfélagsins er á Strönd á Rangárvöllum. 

Fyrirtæki, á sama hátt og frístundahúsaeigendur, annast sjálf um sín sorpmál. Fyrirtæki geta valið að fara með flokkaðan úrgang á gámavöllinn á Strönd eða kaupa þjónustu hjá verktökum sem slíka þjónustu bjóða. Fyrirtæki greiða fyrir allan gjaldskyldan úrgang, skv. vigt og gjaldskrá, sem komið er með á Strönd.  Athugið að lokað er á fimmtudögum og sunnudögum á Strönd og eins er lokað alla helgidaga.

Gjald fyrir meðhöndlun úrgangs frá fasteignum í sýslunni er innheimt með fasteignagjöldum.

Sveitarfélögin útvega eingöngu heimilum þrjú 240 ltr. ílát undir heimilisúrgang og er losun þeirra og stofngjald innifalið í gjaldskránni. Óski eigendur íbúðarhúsnæðis eftir fleiri eða stærri ílátum fyrir heimilisúrgang er viðkomandi bent á að hafa beint samband við þjónustuaðila.

 

Rangárþing eystra tekur þátt í Umhverfis Suðurland, áhersluverkefni og sameiginlegu átak sveitarfélaganna fimmtán á Suðurlandi með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Það gengur út á öflugt árvekni- og hreinsunarátak þar sem íbúar, fyrirtæki og sveitarfélög í landshlutanum eru hvött til enn meiri flokkunar og endurvinnslu en nú er.
Fylgist með  á vef Umhverfis Suðurland.