Sveitarfélagið Rangárþing eystra varð til þann 9. júní árið 2002. Þá sameinuðust sex hreppar í austanverðri Rangárvallarsýslu í eitt sveitarfélag; Hvolhreppur, Fljótshlíðarhreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur-Landeyjahreppur, Austur-Eyjafjallahreppur og Vestur-Eyjafjallahreppur.

Rangárþing eystra nær frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað en jafnframt er ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein og þar er að finna einstakar náttúruperlur og þekkta sögustaði.

Hvolsvöllur er þéttbýlis- og þjónustukjarni sveitarfélagsins og þar búa um 1000 manns. Helstu atvinnuvegir eru þjónusta fyrir landbúnað, almenn þjónusta fyrir íbúa, ferðaþjónusta og einnig má nefna að á Hvolsvelli rekur Sláturfélag Suðurlands eina stærstu kjötvinnslu landsins. Hvolsvöllur hefur það sérkenni að vera eitt af fáum þéttbýlum á Íslandi sem ekki hefur verið byggt upp við sjó eða árfarveg heldur er þéttbýlið algjörlega byggt upp sem miðstöð fyrir þjónustu.