Leikskólinn Aldan er átta deilda leikskóli starfræktur á Hvolsvelli í nýju húsnæði sem tekið var í notkun í ágúst 2023.

Leikskólastjóri: Sólbjört Sigríður Gestsdóttir
Netfang: leikskoli@hvolsvollur.is / solbjort@hvolsvollur.is
Heimasíða: http://aldan.leikskolinn.is
Sími: 488 4270

Leikskólinn er opinn frá klukkan 7:45 til klukkan til 16:15. Boðið er upp á 4 – 8,5 tíma vistun. Mögulegt er að kaupa aukatíma. Sá tími er einungis notaður í einstaka tilfellum en ekki sem fastur liður í vistun.

Ef lögheimili barns er 10-20 km frá leikskóla er heimilt að skrá barnið í 3ja daga leikskóladvöl í viku og greiða í samræmi við það.

Foreldrar eru vinsamlega beðnir um að virða þann vistunartíma sem þeir hafa samið um í upphafi.

Starfsárið í Öldunni skiptist í þrennt þ.e. sumarönn 1. júní – 31. ágúst. Haustönn 1. september – 31. desember. Vorönn 1. janúar – 31. maí.

Myndband í tilefni af Degi leikskólans 2022

 Uppeldisstefna Öldunnar

Uppeldisstefna Öldunnar er byggð á hugmyndafræði hugsmíðahyggju. Til þess að ná fram þeim þáttum sem við viljum, leggjum við áherslu á leik, könnunaraðferð og könnunarleik, auk þess sem allt starf okkar miðast við þessa hugmyndafræði.
Hugsmíðahyggja
Hugsmíðahyggja er samsafn kenninga um nám. Þar má meðal annars nefna kenningar Jean Piaget og Lev Vygotsky um uppbyggingu þekkingar og einnig kenningu John Dewey um nám á forsendum nemandans og þeirrar reynslu sem hann verður fyrir. Hugsmíðahyggja snýst um að nemendur séu virkir og læri með því að nota fyrri hugmyndir sínar og byggja þannig upp reynslu, þekkingu, færni og viðhorf. Þeir nýta reynslu sína og mynda úr henni heildstæðan skilning. Raunverulegur skilningur felur í sér að nemandinn tengir nýtt nám við fyrri reynslu og þekkingu. Þannig verður til ný þekking þar sem þetta tvennt tengist saman í órjúfanlega heild. Hugmyndafræðin felur í sér að skólastarf eigi ekki að snúast um að mata nemandann á upplýsingum og staðreyndum heldur að hann tileinki sér þekkingu og skilning og verði virkur aðili að eigin uppbyggingu félagslegrar færni, siðgæðis- og vitsmunaþroska.
Í skólastarfinu er lögð áhersla á ígrundun, lausnaleit, rökhugsun, skilning og beitingu þess sem lært hefur verið. Með því verða nemendur leitandi og gagnrýnir, kunna að leita lausna og upplýsinga, taka ígrundaðar ákvarðanir sem byggðar eru á gildismati og breyta síðan í nýja þekkingu.

Námssviðin skarast og þau eru samofin undirstöðuþáttum leikskólastarfsins: leik, daglegri umönnun og almennri lífsleikni.
Leikskólinn Aldan hefur sett sér sín eigin markmið sem eru unnin á grunni laga og meginmarkmiða Aðalnámskrár, einnig er þar tekið tillit til aðstæðna þ.e. starfsfólks, húsnæðis, umhverfis og þess samfélags sem við búum í.
Markmið leikskólans eru:
• að veita nemendum hlýju, umhyggju, öryggi og aga.
• að efla sjálfstæði, samkennd og lífsleikni.
• að efla alhliða þroska nemendanna.
• að stuðla að góðri samvinnu við foreldra.
• að viðhalda starfsgleði í leikskólanum.

Námssvið leikskólans
Námssvið leikskólans skulu vera samofin öllu starfi og vera byggð á grunnþáttunum sex. Þau eru:
• Læsi og samskipti
• Heilbrigði og vellíðan
• Sjálfbærni og vísindi
• Sköpun og menning
Læsi og samskipti
Börn eru félagsverur og til þess að eiga samskipti við aðra nota þau ýmsar aðferðir. Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni nemenda til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt. Læsi í víðum skilningi er mikilvægur þáttur samskipta og felur í sér að nemandinn búi yfir þekkingu, hafi færni til að skynja og skilja og geti sett orð á það sem hann upplifir og sér. Lögð er áhersla á að gera nemendur færa í að lesa úr öllum þeim skilaboðum, samskiptum og táknum sem þeir taka við í daglegu lífi og hvernig þeir geta nýtt reynslu sína og þekkingu til að vinna úr þeim.
Heilbrigði og vellíðan
Hugtakið heilbrigði skilgreinist sem andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan. Heilbrigði og velferð ráðast af samspili einstaklings og umhverfis. Í leikskóla læra nemendur um og tileinka sér heilbrigða lífshætti, gildi hreyfingar, hollt mataræði, hvíld og mikilvægi hreinlætis. Einnig læra þeir gildi góðra samskipta auk þess sem kennarar leitast við, í samstarfi við foreldra, að byggja upp jákvæða og sterka sjálfsmynd. Kennarar eru vakandi fyrir einkennum hverskonar misnotkunar, vanlíðunar eða öðru sem betur mætti fara í umönnun nemenda og vinna úr því eins og reglur gera ráð fyrir, sé þörf á inngripum.
Sjálfbærni og vísindi
Markmið sjálfbærni er að nemendur og starfsfólk átti sig á að þau vistspor, sem sérhver einstaklingur skilur eftir sig skipta miklu máli – í nútíð og framtíð. Réttast er að leitast við að uppfylla þarfir sínar á hverjum tíma án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að gera slíkt hið sama. Vekja skal áhuga nemenda fyrir fegurð náttúrunnar og efla virðingu fyrir henni og ábyrgðarkennd. Til að læra að lesa náttúru og samfélag þarf fólk að upplifa, skoða og skilja umhverfi sitt en forsenda þess að fólk vilji vernda náttúruna er að kynnast henni.
Sköpun og menning
Sköpun er veigamikill þáttur í námi og þroska nemenda. Þegar nemendur eru að kanna og læra nota þau öll skilningarvit og þá hreyfifærni sem þau búa yfir. Hlutverk kennara er að skapa aðstæður og jákvætt andrúmsloft sem gera þeim kleift að vinna úr og fá útrás fyrir upplifanir og reynslu. Með því að vinna með fjölbreytta sköpun geta nemendur tjáð sig á eigin forsendum starfað af eigin hvötum, fengið útrás fyrir meðfædda forvitni sína og nálgast viðfangsefnin frá mörgum hliðum. Þannig ýtum við undir skapandi hugsun og sjálfstæði í vinnubrögðum.

Skóladagatal

Leikskóladagatal 2023 - 2024

Símanúmer leikskólans

Leikskólinn Aldan: 488 4270

Leikskólastjóri: 488 4271

Aðstoðarskólastjóri: 488 4272

Sérkennsla: 488 4273

Dalur: 488 4274

Laut: 488 4275

Þúfa 488 4276

Hóll 488 4277

Holt 488 4278

Ás 488 4279

Hamrar 488 4420

Hæð 488 4421

Undirbúningsherbergi 488 4423