Það er mikið um að vera í Hvolsskóla þessa dagana þrátt fyrir sumarleyfi nemenda og starfsmanna. Nú standa yfir viðgerðir innandyra í skólaeldhúsi og utandyra er unnið í þaki skólans. Í vetur vann verkfræðistofan Efla skýrslu um raka og myglu í skólahúsnæðinu. Eru þessar framkvæmdir meðal annars viðbrögð við þeim ábendingum og niðurstöðum sem fram komu í þeirri úttekt. Í þeirri úttekt kom í ljós leki meðfram lofttúðum á þaki skólans. Þegar þær viðgerðir hófust komu í ljós frekari skemmdir og var því ákveðið að nýta góða veðrið til að skipta út þeim hluta þaksins. Um er að ræða töluverðar framkvæmdir en nauðsynlegar til að koma í veg fyrir frekari skemmdir og tryggja vistlegt og gott náms- og starfsumhverfi.