Gert hefur verið samkomulag milli Rangárþings eystra og HS Veitna um umsjón Vestmannaeyjaveitu sem HS Veitur reka. Samkomulagið nær til Vestmannaeyjaveitu frá uppsprettulind í landi Syðstu-Merkur að tengingu neðansjávarleiðslu og er dælustöð á Landeyjarsandi meðtalin. Samkomulagið er tilkomið m.a. vegna þess að Gunnar Marmundsson, starfsmaður HS Veitna á Hvolsvelli, lætur nú af störfum sökum aldurs en hann hefur sinnt eftirliti með Vestmannaeyjaveitunni í tugi ára. Samkomulag milli Vestmannaeyjakaupstaðar og Austur-Landeyjahrepps um vatnstöku frá Syðstu-Mörk hefur verið í gildi frá 1967 og þess má geta að 2013 fóru um 1.134 þús. m3 af vatni til Vestmannaeyja og 194 þús. m3 af vatni til Landeyja.
Undir samkomulagið skrifuðu Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, og Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna en með þeim á myndinni eru f.v. Sigurjón Ingi Ingólfsson, svæðisstjóri HS Veitna í Vestmannaeyjum, Gunnlaugur Kárason, innkaupastjóri HS veitna, Böðvar Bjarnason, verkstjóri áhaldahúsins á Hvolsvelli og Ágúst Ingi Ólafsson, skrifstofustjóri Rangárþings eystra.