Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 11. janúar 2024.

Kæra samstarfsfólk og íbúar Rangárþings eystra, gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir fyrir það liðna. Að hefja nýtt ár í leik og starfi er alltaf gríðarlega spennandi. Það er margt fram undan hjá okkur í Rangárþingi eystra á nýju ári, fjöldinn allur af áskorunum og spennandi verkefnum. Ég horfi björtum augum til ársins 2024 og hef fulla trú á því að það verði okkur gæfuríkt.

Kostnaðarmatsverkefni v. meðhöndlunar úrgangs

Samband íslenskra sveitarfélaga auglýsti í lok nóvember eftir áhugasömum sveitarfélögum til þátttöku í verkefni um kostnað og tekjur sveitarfélaga í úrgangsstjórnun. Alls bárust 22 umsóknir sveitarfélaga en aðeins fimm sveitarfélögum var boðin þátttaka í verkefninu. Eftir yfirferð umsókna, með teknu tilliti til þeirra valforsenda sem lágu fyrir í upphafi var Rangárþingi eystra boðin þátttak í verkefninu ásamt Garðabæ, Ísafjarðarbæ, Skagafirði og Suðurnesjabæ. Markmið verkefnisins er að ná betri yfirsýn yfir kostnað og tekjur sveitarfélaga í málaflokknum og hvernig þróun útgjalda og tekna hefur verið síðastliðin ár. Verkefnið er í tveimur áföngum og hefur vinna nú þegar farið af stað. Áætlað er að niðurstöður úr fyrri hluta verkefnisins muni liggja fyrir í mars og niðurstöður seinni hluta í júní 2024. Við erum stolt af því að hafa verið valin úr stórum hópi sveitarfélaga til þátttöku og hlökkum til að vinna að verkefninu.

Fundur með lögreglustjóra

Milli jóla og nýárs átti undirritaður fund með lögreglustjóranum á Suðurlandi. Rætt var um málefni lögreglunnar á Suðurlandi á breiðum grunni. Ánægjulegt var að heyra að unnið er að eflingu lögregluembættisins og störfum í héraði fer fjölgandi. Rætt var um hvort lögreglan hefði hug á því að fá húsnæði Brunavarna Rangárvallasýslu keypt komi til þess að ráðist verði í byggingu nýrrar björgunarmiðstöðvar á Hvolsvelli. Um er að ræða húsnæði sem tengt er lögreglustöðinni á Hvolsvelli og gæti því nýst lögreglunni til frekari uppbyggingar á svæðinu. Einnig var ánægjulegt að heyra af breytingum á vaktafyrirkomulagi lögreglunnar sem gerir ráð fyrir sólarhringsvakt lögreglu í Rangárþingi.

Þjóðlendumál

Nú er á skipulagssviði sveitarfélagsin unnið hörðum höndum að stofnun lóða innan þjóðlenda í Rangárþingi eystra. Tekur það m.a. til lóða undir fjallaskála á hálendinu sem og lóða undir ferðaþjónustutengd mannvirki t.d. inn á Emstrum og í Þórsmörk. Umræddar lóðir eru allar innan þjóðlendu í því á forsjá Forsætisráðuneytis. Sveitarfélagið hefur þó umsjón með úthlutun þeirra og lóðaleigusamningum og mun hafa af þeim tekjur til framtíðar. Skv. reglum sem gilda um þjóðlendur ber sveitarfélaginu að auglýsa lóðirnar opinberlega til úthlutunar og verður það gert í framhaldinu.

Uppbygging og framkvæmdir

Fyrirhugað er að framkvæmdir við húsbyggingar á miðbæjarreit á Hvolsvelli hefjist á næstu misserum. Um er að ræða fyrsta áfanga sem tekur til tveggja fjölbýlishúsa við Vallarbraut og Bæjarbraut. Áætlaður íbúðafjöldi er ekki endanlega ákveðin en íbúðirnar verða fyrir fasta búsetu og einnig er möguleiki á útleigu í tengslum við ferðaþjónustu. Verið er að vinna í enandlegum hönnuargögnum vegna þeirra og verður spennandi að sjá miðbæinn fara að taka á sig mynd. Lögð hefur verið fram deiliskipulagsbreyting fyrir lóðina Austurvegur 14, lóð LAVA. Breytingin tekur til aukins nýtingarhlutfalls lóðarinnar þar sem gert verður ráð fyrir allt að 280 herbergja hóteli á þremur hæðum. Fyrirhugað er að byrjað verði á fyrsta áfanga hótelsins, um 100 herbergjum á næstu misserum.

Lóðaúthlutanir í Hallgerðartúni

Á fundi sínum þann 16. nóvember úthlutaði byggðarráð 13 lóðum í Hallgerðartúni og á Skógum. Mikil eftirspurn var eftir lóðunum og fengu færri en vildu. Allar fjölbýlis- par- og raðhúsalóðir gengu út og hafa úthlutanir verið staðfestar af umsækjendum. Einungis eru því eftir lausar til úthlutunar fimm einbýlishúsalóðir í Hallgerðartúni. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hverfið byggjast upp á þessum hraða og það hvetur okkur til að fara að undirbúa næstu skref í lóðaúthlutunum í Bergþórugerði. Þar er nú í gangi vinna við deiliskipulagsbreytingu til að mæta aukinni eftirspurn eftir minn íbúðum í þéttari byggð.

Fundur almannavarnarnefndar í Vík

Almannavarnarnefnd Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýlsu fundaði í Vík í Mýrdal þann 20. desember. Til fundarins var einnig boðið fulltrúum björgunarsveita, rauða krossins og slökkviliða innan svæðisins. Farið var yfir stöðu mála og þau verkefni sem unnið hefur verið að á árinu en þar ber helst að nefna endurskoðanir á hinum ýmsu viðbragðsáætlunum sem snerta okkar svæði. Almannavarnir á Suðurlandi eru nú leiðandi í því að einfalda viðbragðsáætlanir á landsvísu með það að markmiði að ná aukinni skilvirkni og skýrleika. Mikill samhljómur var meða viðbragðsaðila á fundinum að leggja ætti aukna áherslu á sameiginlegar æfingar viðbragðsaðila á svæðinu og var samþykkt að vinna strax að skipulagi næstu æfinga.

Fjölmenningarráð Rangárþings eystra

Fyrsti fundur ný stofnaðs fjölmenningarráðs Rangárþings eystra var haldinn í ráðhúsi sveitarfélagsins þann 10. janúar. Auglýst var eftir áhugasömum til þátttöku í ráðinu og ljóst að mikill áhugi ríkir fyrir að starfa í ráðinu og verkefnum þess. Fimm fulltrúar sitja í ráðinu ásamt starfsmanni þess og fara fundirnir fram á ensku. Það er mikið fagnaðarefni að þetta ráð sé komið á laggirnar og ég er viss um að það verði samfélaginu okkar til heilla. Hlutverk ráðsins er m.a. að vera sveitarstjórn og nefndum sveitarfélagsins til ráðgjafar um málefni og hagsmuni íbúa í Rangárþingi eystra sem snýr að innflytjendum og fólki með erlendan bakgrunn. Einnig er eitt af megin hlutverkum ráðsins að vera samráðsvettvangur íbúa sveitarfélagsins sem eru innflytjendur og stuðla að fjölmenningarlegu samfélagi. Hlutfall íbúa af erlendu bergi brotnu í Rangárþingi eystra er í dag um 30 % og kemur trúlega til með að hækka á næstu árum. Því er mikilvægt að við tökum vel á móti fólki, bjóðum það velkomið og hjálpum til við að greiða leið þeirra að okkar góða samfélagi þar sem þau geta verið virkir þátttakendur til framtíðar.

Að lokum

Þó svo að tíðin akkúrat þessa dagana sé góð og hálfgert vor í lofti, er enn vetur á Íslandi. Það er allra veðra von og eflaust taka við frosta og snjóakaflar áður en vorar fyrir alvöru. En það styttist og það er gott að hugsa til þess og fylgjast með því hvernig dagarnir lengjast í smáum skrefum hver á eftir örðum. Skemmtilegur tími fyrir okkur íbúa er líka rétt að hefjast, en það eru þorrablótin sem haldin eru víðsvegar í sveitarfélaginu. Þau eru frábært tækifæri fyrir okkur að hitta mann og annan og gera okkur glaðan dag í mesta skammdeginu. Einnig eru þau frábær vettvangur fyrir okkur að rifja upp það helsta sem átt hefur sér stað í samfélaginu okkar á liðnu ári með gamansömum tón. Njótið komandi tíma og gangið hægt um gleðinnar dyr.

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra