Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 12. október 2023.

Haustið er annasamur tími í stjórnsýslu sveitarfélaga. Verið er að leggja drög að áætlunum fyrir næsta ár og næstu ára. Nefndir á vegum sveitarfélagsins byrja starf sitt af miklum krafti eftir sumarfrí og eru sveitarstjórn ómetanlegar í sínum störfum. Í Rangárþingi eystra búum við, við þau forréttindi að mannauður okkar er gríðarlegur. Það er ekki sjálfgefið fólk gefi sér tíma og leggi sitt af mörkum við uppbygingu síns sveitarfélags með þátttöku í nefndum og ráðum. Fyrir það ber að þakka.

Fjármálaráðstefna

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga var haldin dagana 21. – 22. september í Reykjavík. Fulltrúar sveitarstjórnar Rangárþings eystra sóttu þá ráðstefnu og höfðu mikið gagn að. Um er að ræða árlegan viðburð sem er einn sá stærsti á sveitarstjórnarstiginu. Eins og nafnið ber með sér er aðal umræðuefni fjármálaráðstefnu, fjármál sveitarfélaga á breiðum grunni. Sveitarfélögin sinna ýmsum verkefnum við þjónustu sinna íbúa og hafa til þess takmarkaða tekjustofna. Því er nauðsynlegt fyrir sveitarstjórn að vanda til verka og spila sem best úr því fjármagni sem hún hefur aðgang að til þjónustu við sína íbúa. Viðburður eins og fjármálaráðstefnan hjálpar okkur kjörnum fulltrúum við að spegla okkur við önnur sveitarfélög og sveitarstjórnarfulltrúa, læra af þeim og átta okkur á því hvar við getum gert betur.

Byggðasamlög

Rangárþing eystra er þátttakandi í talsverðum fjöld byggðasamlaga. Byggðasamlög eru samstarfsvettvangur sveitarfélaga um hin ýmsu mál sem oft á tíðum eru stærðar sinnar og þjónustu vegna, erfið fyrir minni sveitarfélög að sinna eitt og sér. Helst ber þar að nefna Sorpstöð Rangárvallasýslu, Félags- og skólaþjónustu, Bergrisan, Brunavarnir Rangárvallasýslu ásamt fleiri samlögum. Mikið er um fundahöld í þessum byggðasamlögum á haustin, þar sem unnið er að áætlanagerð fyrir aðildarsveitarfélög til samþykktar. Þetta haust er engin undantekning hvað það varðar og hefur talsverður tími kjörinna fulltrúa og svetarstjóra farið í þá vinnu á liðnum vikum.

Fundur með þingmönnum

Vikuna 1. – 7. október var svo kölluð kjördæmavika alþingis. Kjördæmavikur fara fram að vori og að hausti. Þá leggja þingmenn hvers kjördæmis land undir fót og heimsækja sín kjördæmi til skrafs og ráðagerða með íbúum, fyrirtækjum og sveitarstjórnarfulltrúum. Þann 4. október var haldinn sameiginlegur fundur sveitarstjórnarfulltrúa í Rangárvallasýslu með þingmönnum suður kjördæmis. Fundurinn var haldinn í Hvoli, Hvolsvelli og var vel sóttur. Þau málefni sem Rangárþing eystra lagði meðal annar áherslu á voru samgöngumál, öldrunamál, atvinnumál, landbúnaðarmál ofl. Sköpuðust líflegar og gagnlegar umræður sem vonandi eiga eftir að leiða til góðs. F.h. sveitarstjórnar vil ég færa þingmönnum suður kjördæmis kærar þakkir fyrir góðan fund.

Fjárhagsáætlunarvinna/Fundir með fostöðumönnum

Eins og áður hefur komið fram stendur yfir vinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024. Sveitarstjórn heldu reglulega vinnufundi þar sem línurnar eru lagðar um helstu verkefni komandi árs. Einnig hafa undirritaður ásamt fjármálastjóra fundað með öllum forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins. Þeir fundir hafa gengið vel og vil ég sérstaklega þakka öllum forstöðumönnum fyrir þeirra góðu vinnu við undirbúning áætlunarinnar. Þar er mikill metnaður og áhugi sýndur til uppbyggingar sveitarfélagsins með sjálfbærum hætti og bættri þjónustu fyrir íbúa. Sveitarfélagiði fer ört stækkandi og því að mörgu að hyggja. Til gamans má nefna að íbúar sveitarfélagsins hafa aldrei verið fleiri og eru nú 2.117 manns. Skipting milli þéttbýlis og dreibýlis er sú að 1262 eru með skráða búsetu á Hvolsvelli og 855 í sveitum sveitarfélagsins.

Samtökin 78 – Samningur um fræðslu

Fyrr á árinu lagði fjölskyldunefnd Rangárþings eystra til að fundað yrði með Samtökunum 78 vegna mögulegas samstarfs um fræðslu, ráðgjöf og stuðning fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk sem starfar með börnum og ungmennum í skóla- og frístundastarfi. Fjölskyldunefnd, Oddi bs. og sveitarstjórar í Rangárvallasaýslu funduðu þann 28. september með formanni samtakanna. Fundurinn var einkar góður og skilaði því að unnið er nú að samningi milli samtakana 78 og sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu. Að mínu mati er þetta mikið gæfuspor í ljósi mjög svo villandi umræða sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu okkar undanfarnar vikur og mánuði. Með fræðslu útrýmum við fordómum, sveitarfélagið Rangárþing eystra er fyrir alla.

Starfshópur um fýsileika jarðgangna milli lands og Eyja

Undirritaður var skipaður í starfshóp á vegum innviðaráðuneytis sem hefur það hlutverk að kanna fýsileika þess að leggja 20 km jarðgöng milli Landeyjasands og Vestmannaeyja. Fyrsti fundur starfshópsins var haldinn þann 6. október og er áætlað að hópurinn fundi að jafnaði tvisvar í mánuði. Áætlað er að hópurinn skili áliti sínu til innviðaráðuneytis eigi síðar en 31. júlí 2024.

Uppbygging í sveitarfélaginu

Ekkert lát virðist ver á uppbyggingu í sveitarfélaginu. Nú eru skráðar í byggingu 97 íbúðir í öllu sveitarfélaginu. Íbúðirnar eru á mismunandi byggingarstigi og skila sér því á markað á löngu tímabili. Af þessum 97 íbúðum eru 23 íbúðir í byggingu í dreyfbýli. Eftirspurn eftir lóðum er talsverð og í næstu viku mun verða opnað á lóðarumsóknir í 3. áfanga Hallgerðartúns, en um er að ræða par-, rað- og fjölbýlishúsalóðir. Mikil uppbyggingaráform í tenglsum við ferðaþjónustu í dreifbýli eru á lokametrum í skipulagsvinnu. Ljóst er að ef þau áform ganga eftir verður mikið um að vera á næsta ári.

Að lokum

Nú er veturinn strax byrjaður að minna á sig með lægðagangi, dimmu, bleytu, hálku og jafnvel snjókomu. En að sjálfsögðu tökum við fagnandi á móti honum eins og öðrum árstíðum. Það er komin tími til að huga að því að koma sumardótinu í geymslu og koma farartækjum á vetrardekk. Tökum virkan þátt í öllu því sem samfélagið okkar hefur upp á að bjóða og njótum þess að vera til.

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra