Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 14. september 2023.

 

Sumarið í Rangáringi eystra

Í fyrstu vil ég bjóða sveitarstjórn velkomna aftur til starfa eftir sumarfrí. Í sumarfíi sveitarstjórnar hefur byggðarráð farið með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fundir haldnir aðra hverja viku. Það róast oft yfir stjórnsýslunni um sumartímann þegar stór hluti þjóðarinnar fær langþráð sumarfrí. Það þýðir þó ekki að starfsmenn sveitarfélagsins hafi lagt árar í bát, því mörgu er að sinna yfir sumartímann bæði innan stjórnsýslunnar og að sjálfsögðu í margskonar viðhalds- og uppbyggingarvinnu víðs vegar í sveitarfélaginu. Starfsmenn sveitarfélagsins, þá ekki hvað síst yngri kynslóð sumarstarfsmanna okkar eiga mikið hrós skilið fyrir vel unnin störf í sumar.

 

Hátíðarhöld

Alþjóðlega hjólreiðakeppnin The Rift var haldin með miklum glæsibrag í júlí. Aldrei hafa fleiri keppendur tekið þátt, voru þeir um 1200 talsins. Öllum þessum keppendum fylgir svo talsvert af fylgdarliði og því var ansi margt um manninn í kringum keppnina. Rangárþing eystra hefur á undanförnum árum tekið meiri virkan þátt í smíða dagskrá í kringum keppnina og voru að þessu sinni haldnir þó nokkrir viðburðir á vegum sveitarfélagsins sem voru flestir vel sóttir að íbúum. Keppnishaldarar hafa sýnt mikinn vilja til þess að fá íbúa og sveitarfélagið meira að borðinu í uppbyggingu og framtíð þessarar flottu keppni. Vinna er nú þegar hafin við undirbúning að næstu keppni sem mun fara fram í júlí 2024.

Að venju var Kjötsúpuhátíðin haldin síðustu helgina í ágúst. Það var virkilega ánægjulegt að sjá hversu mikil og góð þátttaka var í aðdraganda hátíðarinnar þar sem íbúar skreyttu hýbýli sín og götur og buðu gestum og gangandi upp á súpur. Ekki síður hversu góð þátttaka var í öllum viðburðum sem haldnir voru. Held ég geti fullyrt að það sé samdóma álit að hátíðin hafi tekis einkar vel. Vil koma að sérstöku þakklæti til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við að gera hátíðina eins glæsilega og raun bar vitni. Vissulega er alltaf eitthvað sem má gera betur og það tökum við með okkur við undirbúining þeirrar næstu, sem vonandi tekst eins vel upp.

 

Afrekshugur

Styttan Afrekshugur eftir Nínu Sæmundsson var vígð með pompi og prakt þann 22. ágúst á afmælisdegi Nínu. Það voru forréttindi að fá að taka þátt í því að gera þetta verkefni að veruleika. Það er einmitt ekki sjálfgefið að svona verkefni takist yfir höfuð og hvað þá með slíkum myndarbrarg eins og raun ber vitni. En í þessu tilfelli tókst það. Með mikilli fórnfýsni, dugnaði, samvinnu og brennandi áhuga allra þeirra sem að komu. Það væri óvinnandi vegur að þylja upp alla þá sem þakkir eiga skildar fyrir sinn hlut, en f.h. Rangárþings eystra vil ég þakka þeim af heilum hug. Í Rangárþingi eystra eru þó nokkrar af helstu náttúruperlum landsins. Núna í Rangárþingi eystra er einnig eitt fallegasta listaverk landsins. Ekki nóg með að listaverkið sé fallegt, þá hefur það einnig skýran boðskap í sögulegu ljósi, Afrekshugur, en saga og lífshlaup Nínu Sæmundsson er einmitt skýrt dæmi um Afrekshuga og að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það er von mín og trú að Afrekshugur muni veita okkur, íbúum í Rangárþingi eystra og öllum þeim sem sækja okkur heim, innblástur og hvatningu til að skara fram úr í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur.

 

 

 

Leikskólinn Aldann

Nýji leikskólinn Aldan hóf starfsemi sína þann 8. ágúst. Formleg vígsla var svo gerð þann 25. ágúst í blíðskapar veðri að viðstöddu fjölmenni. Við getum verið virkilega stolt af því verkefni og hvernig til tókst með bygginguna. Framkvæmdir gengu virkilega vel og voru að mestu innan tíma og fjár ramma. Eins og flestir vita hafa undanfarin tvö ár ekki verið auðveld fyrir börn, foreldra og starfsmenn leikskólans. En vegna myglu þá þurfti að bregðast við og skipta deildum upp á nokkur húsnæði í þorpinu. En engu að síður þá gekk þetta allt saman ótrúlega vel. Það er einvörðungu vegna þess að allir lögðust á eitt og nýr leikskóli var í sjónmáli. Fyrir hönd Rangárþings eystra vil ég þakka starfsfólki leikskólans frá dýpstu hjartarótum fyrir ótrúlegt starf á þessu róstursama tímabili. Foreldrum og börnum vil ég þakka sérstaklega fyrir umburðarlyndi, skilning, þolinmæði og góða hvatningu í þessu flókna viðfangsefni sem við höfum glímt við undanfarið. Nú hefu Aldan risið og hennar hlutverk verður að undirbúa okkar mikilvægasta fólk fyrir það sem framtíðin ber í skauti sér. Verktakafyrirtækið Grjótgás sem séð hefur um alla vinnu er snýr að lóð leikskólans er nú að leggja lokahönd á frágang glæsilegs útisvæði skólans. Stefnt er að því að verkinu verði að fullu lokið þann 20. september.

 

Hvolsskóli

Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í Hvolsskóla á liðnu sumri. Unnið var að úrbótum og viðgerðum út frá skýrslu Eflu um myglu í skólahúsnæðinu. Verkið hefur gengið einkar vel og er að mestu lokið, þó einhver frágangur sé eftir. Þegar átti að fara gera við leka sem valdið hafði myglu í kringum loftræstitúður nýjustu byggingar skólans, komu í ljós mun meiri rakaskemmdir heldur en áætlað var. Þá var brugðist skjótt við og ákveðið að skipta um klæðningu og undirbyggingu allrar þekjunnar. Það var því mikið lán að fá 1 og hálfan þurran mánuð til þess að ráðast í svo stórt verk. Vegna þessa varð þó áætlaður kostnaður vegna viðgerða nokkuð hærri heldur en stóð til í upphafi. Við munum halda áfram nauðsynlegum framkvæmdum við Hvolsskóla til að tryggja heilsusamlegt starfsumhverfi nemenda og starfsfólks. Í undirbúningi nú er að ráðast í lagfæringar varðandi hljóðvist á yngsta stigi skólans sem og í matsal. Vonast er til þess að þeim framkvæmdum verði lokið á næstu vikum.

 

Gatnagerð

Framkvæmdir við gatnagerð hafa verið í fullum gangi í sumar. Lokið var við gatnagerð við Æskuslóð sem leikskólinn Aldan stendur við og tengir saman Vallarbraut og Hvolsveg. Þar sem að uppbygging íbúðarhúsnæðis við 1. áfanga Hallgerðartúns fór vel af stað og talsvert af húsnæði nú þegar tekið í notkun, var ákveðið að flýta framkvæmdum við yfirborðsfrágang um eitt ár. Áfanginn verður svo að fullu kláraður með gangstéttum og tengingum næsta sumar. Uppbygging íbúðarhúsnæðis við 2. áfanga Hallgerðartúns er í fullum gangi, en þar rísa nú einbýlis, rað- og parhús. Eitt af þeim húsum sem þar er byrjað á er á vegum Bjargs íbúðafélags. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Rangárþing eystra samþykkti í byrjun árs 2022 sína aðkomu að verkefninu með stofnframlagi í formi láns, ásamt því að úthluta lóð fyrir verkefnið. Áætlað er að íbúðirnar fjórar verði tilbúnar til afhendingar leigjendum í apríl 2024. Framkvæmdum við gatnagerð 3. áfanga Hallgerðartúns miðar vel og stefnt er að auglýsingu um lóðaúthlutanir á næstu vikum. Um er að ræða lóðir fyrir fjölbýlis-, rað- og parhús ásamt einbýlishúsalóðum, samtals 32 íbúðir. Ekkert lát virðist vera á eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði, en til gamans má geta að íbúum Rangárþings eystra hefur fjölgað talsvert á undanförnum mánuðum og eru nú skráðir 2112 íbúar í sveitarfélaginu.

 

Að lokum

Eftir annars frábært sumar og einmuna veðurblíðu í júlí og ágúst fer senn að hausta. Hefðbundin rútína, sem oft er líka kærkomin fer í fastar skorður með öflugu skóla- og íþróttastarfi. Uppskera sumarsins er í óðaönn að komast í hús og sauðfé að skila sér af fjalli. Eitt af stærri verkefnum sveitarstjórnar og forstöðumanna sveitarfélagsins á hverju hausti er gerð fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár. Mikilvægt er að vandað sé vel til verka þannig að áætlun komi til með að standast og verða okkar leiðarljós að uppbygingu sveitarfélagsins í heild til komandi ára. Verkefnið er krefjandi, oft flókið, en engu að síður skemmtilegt. Njótum haustsins og horfum björtum augum fram á við.

 

 

 

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra