6. og 7. maí var lokahátíð BEST stærðfræðikeppni 9. bekkja haldin á Hvolsvelli. Við setningu keppninnar færði Anna Kristjánsdóttir þeim Ísólfi Gylfa, sveitarstjóra, og Sigurlín, skólastjóra,
bestu þakkir og viðurkenningaskjal fyrir að bjóða lokahátíðinni heim þetta árið. Anna áréttaði að án framlaga sveitarfélaga undanfarin ár hefði ekki verið hægt að taka þátt í þessari stærðfræðikeppni. Að þessu sinni var það einn bekkur úr Hagaskóla sem sigraði í keppninni og mun sá bekkur keppa fyrir hönd Íslands í lokakeppni milli Norðurlandanna sem haldin verður í Kaupmannahöfn. Hrafnagilsskóli frá Eyjafirði hlaut hins vegar peningaverðlaun fyrir besta bekkjarverkefnið en þau verðlaun hefur Hvolsskóli hlotið áður fyrir t.d. verkefni um Landeyjahöfn. Að lokum er rétt að geta þess að hópurinn, bæði kennarar og nemendur voru yfir sig hrifnir að móttökunum og sveitarfélaginu okkar og færa okkur bestu þakkir.
Hópurinn borðaði í mötuneyti Hvolsskóla, 2 hádegisverði og morgunmat og var það samdóma álit kennara að þetta væri framúrskarandi mötuneyti. Hópurinn fór um söguslóð undir leiðsögn Sigurðar Hróarssonar og heimsótti Sögusetrið og Kaupfélagssafnið. Hópurinn snæddi kvöldmat á Gallery Pizza  og gisti í sumarhúsunum í Ásgarði við Hvolsvöll og þótti það ,,hrikalega kósý". Að lokum gaf hópurinn sundlauginni okkar 9,5 í einkunn :-)