Í dag klukkan 16:30 hefst lágstemmd dagskrá á Miðbæjartúninu þar sem kveikt verður á ljósunum á miðbæjartrénu. Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri, flytur stutt ávarp og Barnakór Hvolsskóla flytur nokkur jólalög undir stjórn Ingibjargar Erlingsdóttur. Barnakórinn heldur einmitt upp á 25 ára starfsafmæli sitt með tónleikum þann 3. desember næstkomandi.

Að þessu sinni verður ekki dansað sérstaklega í kringum jólatréð vegna aðstæðanna í samfélaginu en Jólasveinarnir mæta á staðinn og Landsbankinn býður börnunum upp á gotterý en Landsbankinn hefur verið í samstarfi við sveitarfélagið vegna jólagleði á miðbæjartúninu í fjölda ára og fá góðar þakkir fyrir það.

Ísbúðin Valdís verður með 15% afslátt af öllum ístegundum í dag og kynna til leiks fyrstu gerðina af jólaís. Sveitabúðin Una í samstarfi við Dís hársnyrtistofu bjóða upp á Kakó, jólaosta frá MS og dýrindis lagköku frá Brauð og co. Síðast en alls ekki síst verður kvenfélagið Eining með smákökusölu og tombólu. Í Unu verður einnig Hársnyrtistofan með Aveda vörur og Rósý er með glæsilega málverkasýningu. Það er því hægt að eiga góða stund á miðbæjarsvæðinu seinni partinn í dag.

Það skiptir öllu máli að þegar kemur að því að halda svona viðburð á þessum tímum að allir hugi að sínum persónulegu sóttvörnum, beri grímur innandyra og haldi ákjósanlegri fjarlægð milli sín. 

Eigum góða og lágstemmda stund saman á miðbæjartúninu í dag.