Verkefni sveitarstjóra geta verið fjölbreytt. Skemmtilegur dagur í ruslatýnslu með ungmennum í vinnu…
Verkefni sveitarstjóra geta verið fjölbreytt. Skemmtilegur dagur í ruslatýnslu með ungmennum í vinnuskóla Rangárþings eystra

Kæru íbúar 

Ég vil byrja á því að færa öllum mínar bestu óskir um gleðilegt sumar og þakkir fyrir veturinn sem var að renna sitt skeið. Það er einstaklega gaman nú að fylgjst með mannlífinu lifna hratt við og er það mín einlæg von að sumarið og komandi tímar geti verið með eðlilegum hætti, í kjölfar þeirra tveggja skrítnu ára þar sem nánast eingin tækifæri hafa verið til þess að koma saman. Ég vil hrósa öllum íbúum Rangárþings eystra fyrir samheldni og þrautseigju á undanförnum tveirmur árum. 

Eitt af vor- og sumarverkunum er að taka til í sínu nærumhverfi og m.a.laga garðinn til eftir veturinn. Sveitarfélagið hefur útbúið svæði fyrir losun á garðaúrgangi norðan við Hvolsvöll til að auðvelda íbúum að losa sig við það sem fellur til eftir garðvinnuna. Það er mjög mikilvægt að passa upp á að það fari aðeins garðaúrgangur á þetta svæði til að unnt verði að halda því opnu. Ég hef fulla trú á að við getum öll hjálpast að við að halda svæðinu til fyrirmyndar.  Nú er einnig góður tími til að huga að trjáklippingum og íbúar eru hvattir til að klippa sérstaklega þau tré og runna sem teygja sig yfir gangstéttar á Hvolsvelli eða yfir í garða eða á plön næstu nágranna. Í takt við þetta má svo einnig nefna að á morgun, laugardag, er Jarðvangsplokkdagurinn mikli í tilefni af Jarðvangsviku Kötlu Geopark. Hægt verður að nálgast ruslapoka í Áhaldahúsinu og gámur til að losa sig við pokana verður svo þar fyrir utan.

Því miður hefur nokkuð borið á því að hundar séu lausir á Hvolsvelli. Með hækkandi sól fara börnin að vera meira á ferðinni og lausir hundar geta skapað ótta hjá þeim sem og fullorðnu fólki. Lausaganga hunda er bönnuð í þéttbýlinu og hundaeigendur eru góðfúslega beðnir um að virða það eins og flestir svo sannarlega gera. Það má einnig nefna að nú þegar varptími fugla er að hefjast eru kattaeigendur vinsamlega beðnir um að passa vel upp á að kettir þeirra séu með bjöllu. Mikilvægt er að eigendur katta sæki um leyfi vegna kattahalds og láti skrá ketti sína á skrifstofu sveitarfélagsins eins og segir í samþykktum Rangárþings eystra um kattahald. 

Við innleiðingu á verkefnunum Heilsueflandi samfélag og Barnvænt samfélag í vetur hafa ítrekað komið fram óskir um að fá aparólu í þéttbýlið Hvolsvöll. Innan þess styrks sem fékkst til innleiðingar Heilsueflandi samfélags var fjárhagslegt svigrúm til framkvæmdarinnar og var íþrótta- og æskulýðsfulltrúa falið að finna hentuga staðsetningu fyrir róluna. Tveir staðir komu helst til greina, þ.e. við ærslabelginn á miðbæjartúninu eða á Gíslahól við Hvolsskóla. Óformleg könnun var sett af stað í nokkrum bekkjum Hvolsskóla og meðal íbúa sveitarfélagsins en þar kom sterklega í ljós að flestum hugnaðist að rólan yrði staðsett við ærslabelginn. Miðbæjartúnið mun því að öllum líkindum iða af lífi og leik í sumar.

Framundan er tími þar sem mikil vinna mæðir á starfsmönnum Áhaldahúss og garðyrkjustjóra Rangárþings eystra. Von er á götusóp innan skamms og nú þegar eru okkar starfsmenn byrjaðir á hreinsun á plönum og gangstéttum innan sveitarfélagsins. Þegar ljóst er hvenær götusópurinn mætir þá verður það auglýst á heimasíðunni okkar og íbúar þá hvattir til að sópa af bílaplönum sínum út á götu svo hreinsunin beri sem mestan árangur. Í kjölfar þess verður svo farið í að mála yfirborðmerkingar á götur. 

Á fundi sveitarstjórnar þann 7. apríl sl. voru samþykkt tvö merk plögg sem nýtast munu íbúum sveitarfélagsins vel þó ólík séu. Annars vegar var Umferðaröryggisáætlun samþykkt en þetta er í fyrsta sinn sem heildstæð áætlun sem þessi er gerð fyrir sveitarfélagið. Í kjölfarið verður m.a. hámarkshraði innan þéttbýlis lækkaður sem stuðlar að auknu öryggi fyrir alla vegfarendur, en ekki sýst ungviðið sem nú þeysist um á hjóli eða tveimur jafnfljótum. Á þessum sveitarstjórnarfundi var einnig samþykkt endurskoðuð Menntastefna Rangárþings eystra en það er stefnumörkun um áherslur og vinnubrögð sem samfélagið hefur sammælst um að stefna að á komandi árum í starfi leik-, grunn- og tónlistarskóla og öðrum þeim er að menntun barna koma. Menntastefnan verður formlega kynnt fyrir íbúum þann 3. maí nk. klukkan 16:30 í Hvolsskóla og hvet ég alla til að koma og kynna sér þessa mikilvægu stefnu sem mun gilda til ársins 2032. Á sama tíma verða niðurstöður frá Barna- og ungmennaþingi sem haldið var í vetur einnig kynntar en innleiðing sveitarfélagsins sem Barnvæns samfélags er enn í fullum gangi. Æskan er framtíðin og hlutverk okkar er að stuðla að sem allra bestu umhverfi fyrir þau, í leik og starfi til að vaxa og dafna. 

Eins og áður sagði er Jarðvangsvika Kötlu jarðvangs nú í fullum gangi og hinir ýmsu viðburðir í boði sem og tilboð hjá fyrirtækjum. Í dag, föstudaginn 22. apríl, er til dæmis frítt í sund og hvet ég sannarlega alla til að nýta sér þá góðu aðstöðu sem við höfum hér til sundiðkunar eða bara til að láta fara vel um sig í heita pottinum og njóta sumarblíðunnar. Við búum líka svo vel í okkar sveitarfélagi að tækifærin eru allt um kring til fjölbreyttrar útivistar fyrir alla.

Sumarið er tíminn, lifum og njótum þess sem nærumhverfið hefur uppá að bjóða. 

Með bestu kveðju

Lilja Einarsdóttir

Sveitarstjóri.