Byggðasafnið á Skógum 

Á Skógum standa yfir framkvæmdir við Byggðasafnið. Verkefnið er í raun tvíþætt og er um að ræða viðgerð á elsta hluta safnsins og viðbygging sem í verður nýr glæsilegur móttökusalur og ný salernisaðstaða.
Viðgerðin á elsta hluta safnsins er hús sem byggt var árið 1955 og var aðalbygging safnsins í 40 ár eða allt ársins 1995 þegar nýtt safnhús var tekið í notkun. Vinna við viðgerðina hófst á útmánuðum árið 2014. Skipt hefur verið um glugga og þak sem var að mestu endurbyggt og húsið verður einnig einangrað að utan. Þá var viðbygging, frá árinu 1983 sem m.a. hýsti snyrtingar, rifin en nýjar snyrtingar koma í þeirra stað í suðurenda gamla hússins, í nýju viðbyggingunni.  

Í nýju viðbyggingunni verður 150 m2 móttökusalur en þar verður tekið á móti  gestum safnsins í rúmgóðum sal. Í nýja salnum verður m.a. móttaka stórra ferðahópa mun auðveldari en verið hefur hingað til en núverandi móttaka er fyrir löngu orðin of lítil.  Fjöldi safngesta hefur fjórfaldast frá því að gamla móttakan var hönnuð en árið 2014 komu rúmlega 62 þúsund gestir á safnið. Í nýju móttökunni verður, auk almennrar afgreiðslu og upplýsinga, skjáir með upplýsingum um sýningarnar á safninu, bæði inni á Byggðasafninu, í útisafninu (húsasafninu) og í Samgöngusafninu. Byggingin er að mestu úr stáli og gleri og með torfþaki. Aðalhönnuðir nýbyggingarinnar og endurbóta á eldra húsinu eru arkitektarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson hjá Argos ehf. Verkfræðistofan Ferill ehf. sér um verkfræðiþáttinn og rafhönnun er í höndum Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar ehf. Byggingastjóri er Viðar Bjarnason sem er umsjónarmaður fasteigna Skógasafns og stýrir hann framkvæmdum á staðnum. Jarðvinna, vinna við sökkla, lagnir og gólfplötu fór fram í janúar til apríl og voru þær framkvæmdir alfarið á vegum safnsins en smíði og uppsetning stálgrindar, svo og gluggar og gler var boðið út. Áætluð verklok eru lok október 2015.

Myndir; af salnum eins og hann kemur til með að líta út og mynd frá því snemma í vor þegar verið var að steypa.