Tónlistarviðburðir, hátíðir og Íslandsmót í höggleik eru meðal viðburða  svo hægt er að segja að mikið líf verður í sveitarfélaginu næstkomandi helgi.

 Hin árlega jazzhátíð ,,Jazz undir fjöllum" verður haldin á Skógum á laugardaginn. Aðaltónleikarnir verða í Fossbúð klukkan 21:00 þegar Sálgæslan með Andreu Gylfa stíga á stokk og kostar 2.000 krónur inn. Frá 14-17 verða tónleikar Skógakaffi en á þeim spilar Tríó Björns Thoroddsen og Tónsmiðja Suðurlands og er ókeypis inn.

100 ára afmælishátíð Breiðabólstaðarkirkju er líka um helgina. Á laugardaginn er því slegið til rokktónleika á túninu fyrir framan kirkjuna en þar koma fram Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur, Bubbi Morthens og Helgi Björns og Reiðmenn vindanna. Dóri DNA kynnir. Ókeypis er inn á hátíðarhöldin Á sunnudaginn kl. 14 er svo hátíðarmessa þar sem frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup predikar. Að lokinni messu er kirkjukaffi í hlöðunni á Breiðabólstað.

Íslandsmótið í höggleik fer fram á Strandavelli 26.-29. júlí en þar koma saman færustu kylfingar landsins til að keppa um eftirsóttustu titla landsins. Þetta mót er hápunktur golfsumarsins og Eimskipsmótaraðarinnar. Golfklúbbur Hellu sér um mótið en í ár eru 60 ár frá stofnun félagsins.

Í Selinu á Stokkalæk laugardaginn 28. júlí kl. 16 heldur Hákon Bjarnason píanóleikari einleikstónleika í Selinu og leikur þar sónötur eftir Beethoven og Schumann og ræðir jafnframt um sónötuformið og veitir innsýn í uppbyggingu sónötunnar. Þá mun hann jafnframt flytja nokkur stutt verk eftir Ligeti.

Að lokum má nefna leik KFR gegn Gróttu á Hvolsvallarvelli.

Það er því ljóst að nóg er um að vera um helgina og hvetjum við fólk til að fjölmenna á þessa fjölbreyttu viðburði víðsvegar um Rangárþing eystra.