Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu í gær grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2021. Samtals var úthlutað 764 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og 807 milljónum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp innviði á ferðamannastöðum.

Rangárþing eystra

Verkefni í Rangárþingi eystra fengu góðan stuðning bæði frá Framkvæmdasjóðnum sem og úr Landsáætlun sem er mikið gleðiefni.

Sveitarfélagið Rangárþing eystra fékk rúmlega 41,5 milljónir í þrjú verkefni úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Gluggafoss 19,35 milljónir

Úrbætur við Gluggafoss. Styrkur í hönnun og gerð varanlegs stígs, útsýnispalls inni í gilinu og trappa upp með öllum fossinum vestan megin sem og úrbætur á hentistíg sem hefur myndast austan megin. Fjölmargir hentistígar hafa myndast, austan og vestan megin og mikil slysahætta er þegar blautt er í veðri og jarðrask er mikið. Afmarka þarf göngustíg að pallinum

Nauthúsagil 14,75 milljónir

Nýtt bílastæði, stíga- og skiltagerð við Nauthúsagil. Styrkur til að gera nýtt bílastæði niður á aurnum og göngustíg að gilinu. Lagfæring og uppbygging á stígum í gilinu er nauðsynleg og fjarlægja brú sem gerir ekki gagn og er lýti af, loka þar með stígum sem farið er að renna ótæpilega úr og græða þá upp. Síðan þarf að loka villu-og hentistígum og fjarlægja tré.

Kvernugil/Kvernufoss 7,4 milljónir

Stíga- og skiltagerð við Kvernugil/Kvernufoss. Styrkur til að klára stígagerð, frá miðju gilsins og inn að fossi. Villustígar hafa myndast og sú stígagerð sem ráðast þarf í eykur öryggi þeirra er ganga inn gilið. Útbúa þarf varanlegar lausnir því bleyta og úrrennsli veldur skemmdum á stígum. Bæta þarf þau skilti sem að eru og setja upp upplýsinga- og öryggisskilti.

Einnig fékk Ferðafélagið Útivist 6,35 milljónir til að láta hanna göngubrú yfir Þröngá, norðan við Rjúpnafell.

 

Úr Landsáætlun var veitt fjármunum til tveggja verkefna innan Rangárþings eystra. Skógrækt ríkisins fékk 51,1 milljón fyrir áframhaldandi uppbyggingu og viðhald gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu. Áfangar 2021, 2022 og 2023. Umhverfisstofnun fékk svo 86,6 milljónir fyrir láglendið við Skógafoss til að gera nýjar tröppur, afmarkanir, malbikun á göngustíg, útsýnisstaður fyrir hreyfihamlaða og merkingar. Umhverfisstofnun fékk svo líka 40 milljónir fyrir áframhaldandi vinnu við göngustíga uppi á Skógaheiði.

Hægt er að sjá úthlutaða styrki á Vefsjá Ferðamálastofu