Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur samþykkt að auka enn frekar við trúnaðarlæknissamning sveitarfélagsins við HSU, Hvolsvelli. 

Ánægja hefur ríkt meðal starfsmanna og stjórnenda með samninginn og mun viðbótin felast í því að starfsmönnum sveitarfélagsins verður boðið upp á heilsufarsskoðun. Heilsufarsskoðanirnar hafa forvarnargildi, en í þeim felast ýmsar mælingar auk hvatningar til heilbrigðara lífernis. Samningurinn er liður í heilsueflandi stefnu sveitarstjórnar.

Þess má einnig geta að sveitarfélagið stóð fyrir heilsuviku sl. haust í samvinnu við fyrirtæki og einstaklinga sem bjóða upp á þjónustu á sviði heilsueflingar og er stefnan að það verði árlegur viðburður. Í heilsuviku leggjast allir á eitt um að kynna sína þjónustu sem lítur að heilsu, en auk þess eru á dagskrá ýmis námskeið og fyrirlestrar á þessu sviði svo allir ættu að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi. Heilsuvikan verður í september.