SELIÐ KVEÐUR


Nú eru tæp fimm ár frá því tónlistarsetrinu Selinu á Stokkalæk var hleypt af stokkunum. Margvísleg starfsemi hefur farið fram hér síðan, námskeið, æfingar og tónleikar. Ekki hefur nema lítill hluti þessa verið auglýstur í fjölmiðlum. Tónleikar í Selinu eru orðnir 130 talsins. Mikill mannfjöldi hefur sótt þessa tónleika, ekki síst af Reykjavíkursvæðinu. Þótt ákveðinn kjarni sveitunga okkar hafi komið á tónleikana söknum við þess að hafa ekki séð fleiri þeirra hér á staðnum. Megintilgangur okkar með þessari starfsemi var annars vegar að styrkja ungt tónlistarfólk til dáða og hins vegar að færa tónlistarviðburði heim í hérað, gera tónlistina aðgengilega heimafólki. Það er nú orðið ljóst að síðari þátturinn hefur ekki náð tilætluðum árangri. Þá hefur æfingahópum fækkað mjög að undanförnu miðað við fyrri ár og önnur starfsemi dregist saman. Þótt ekki hafi verið stefnt að fjárhagslegum ávinningi með tónlistarstarfinu í Selinu er starfsemin þar almennt langt frá því að bera sig fjárhagslega. Við eigum því ekki annars úrkosti en að láta hér staðar numið. Við þökkum af heilum huga öllum þeim, sem sýnt hafa þessu tónlistarsetri stuðning í verki, og biðjum hinu ágæta tónlistarfólki allrar blessunar.   


Bestu kveðjur,

Inga Ásta og Pétur Kr. Hafstein