Á dögunum tók gildi sameiginlegur samningur Rangárþings eystra og Odda bs. við Samtökin ´78.

Samningurinn gildir út árið 2026 og kveður á um fræðslu fyrir skóla, leikskóla og frístundarmiðstöðvar sveitarfélaganna Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepp auk ráðgjafar Samtakanna ´78.

Fræðsluáætlun

Gert er ráð fyrir að allt starfsfólk leik- og grunnskóla sveitarfélaganna fái fræðslu um kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og kyneinkenni fólks. Í samningnum kemur fram að markmið fræðslunnar sé að „starfsfólk skóla hafi þekkingu á hinsegin málefnum og geti verið virkir fræðarar á umræddum sviðum á vettvangi jafnréttis og mannréttinda í skólastarfi grunnskólanna“.

Nemendur í 3., 6. og 9. bekk fá einnig fræðslu einu sinni á ári. Fræðslan fer fram á skólatíma og verður sniðin að hverjum aldurshópi.

Þá munu allir stjórnendur sveitarfélaganna fá fræðslu Samtakanna á tímabilinu.

Ráðgjöf

Samkvæmt samningnum hafa allir íbúar sveitarfélaganna aðgang að ráðgjöf Samtakanna ´78 án endurgjalds. Ráðgjöfina er hægt að nálgast í gegnum heimasíðu Samtakanna ´78. Allir ráðgjafar Samtakanna hafa víðtæka þekkingu á hinsegin málum og samkvæmt heimasíðu þeirra er ráðgjöfin „fyrst og fremst hugsuð fyrir hinsegin fólk, aðstandendur hinsegin fólks og einnig til þeirra sem eru ekki viss um hinseginleika.“ Markmiðið er að veita aðstoð og stuðning eftir þörfum.

Spennandi samstarf

Í bæði Fjölskyldunefnd og Sveitarstjórn Rangárþings eystra var mikil einhugur og samstaða um að fá þessa fræðslu enda mjög mikilvægur málaflokkur. Rangárþing eystra vonar sannarlega að þjónustan nýtist sem flestum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þau Jón M. Valgeirsson, sveitarstjóra Rangárþings ytra, Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóra Samtakanna '78 og Sigríði K. Viðarsdóttur, formann Fjölskyldunefndar Rangárþings eystra, takast í hendur eftir að samningurinn var undirritaður.