Nýársbréf Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur formanns Landssambands eldri borgara til Félaga eldri borgara 
  
Gleðilegt nýtt ár 
  
KJARAMÁL 
Á árinu 2013 fór loks að nást árangur í að fá til baka skerðingar frá árinu 2009 á kjörum eldri borgara.  Við byrjuðum árið með því að fá fundi með öllum þingflokkum á Alþingi og svo síðar með frambjóðendum flokkanna þegar leið að Alþingiskosningum.  Á öllum þessum fundum var lögð áhersla á að skerðingar frá árinu 2009 væru afturkallaðar.  Við náðum að fá loforð þeirra flokka sem svo síðar mynduðu ríkisstjórn og frá vorinu 2013 hefur verið hamrað á því að þau loforð væru efnd.  Það var gert m.a. með fundum í júní með ráðherrum og velferðarnefnd Alþingis og síðan útifundi með Öryrkjabandalaginu í september.  
  
Það kom svo í ljós með lögum sem tóku gildi 1. júlí að dregnar voru til baka tvær af þeim skerðingum sem tóku gildi 2009 og í fjárlögum nú eru 8,4 milljarðar til að bæta kjör eldri borgara og öryrkja.  Þar er lækkuð skerðing á tekjutryggingu Almannatrygginga vegna annarra tekna úr 45% í 38,5%, eða sambærilegt og var fyrir kreppuna.  Auk þess hækka bætur almannatrygginga nú um 3,6% samkvæmt fjárlögum á sama tíma og launahækkanir samkvæmt kjarasamningum, sem enn eru þó ekki samþykktir af öllum, er 2,8%. Einnig hækkar persónuafsláttur um rúmlega 2.000 kr. á mánuði,sem kemur öllum til góða.  
  
Það er því óhætt að segja að talsverður árangur hefur náðst á árinu 2013 í að bæta kjör lífeyrisþega frá því sem áður var, þó við séum vel meðvituð um að alltaf má gera betur.  Erfitt getur reynst að ná til baka þeirri kjararýrnun sem varð á kreppuárunum með frystingu bóta og lægri prósentuhækkun en kjarasamningarnir 2011 gerðu ráð fyrir.  Mikið var reynt að mótmæla því og er enn gert, en talað hefur verið fyrir daufum eyrum.  Fyrst og fremst þarf að huga að hækkun lægstu bóta almannatrygginga, og er nokkur von í áramótayfirlýsingu forsætisráðherra um hækkun lægstu launa. 
  
FUNDIR OG RÁÐSTEFNUR 
Landsfundur okkar sem haldinn var í maí í Hafnarfirði tókst með ágætum og hafa margir haft á orði að á þessum fundi hafi verið bæði skemmtilegt og gott andrúmsloft.  Vel var mætt og  margar ályktanir samþykktar, lagabreytingar gerðar og kosin ný stjórn LEB, sem er þannig skipuð að Jóna Valgerður Kristjánsdóttir er formaður, Haukur Ingibergsson varaformaður, Anna Lúthersdóttir ritari, Eyjólfur Eysteinsson gjaldkeri og formaður Fjáröflunarráðs  LEB,  og Ragnheiður Stephensen meðstjórnandi og jafnframt formaður Velferðarnefndar LEB.  Þórunn Sveinbjörnsdóttir er áfram formaður Kjaranefndar LEB. Þá hefur Grétar Snær nú látið af störfum sem framkvæmdastjóri LEB og Haukur Ingibergsson tekið við.  Grétari eru færðar alúðarþakkir fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu LEB og okkar allra.  Haukur er jafnframt boðinn velkominn og enginn vafi er á að hann mun líka sinna starfinu vel, enda þrautreyndur, áhugasamur, og með góða þekkingu á málefnum aldraðra.  
  
Allt þetta fólk er einstaklega gott  samstarfsfólk með mikla reynslu og þekkingu, sem skiptir miklu máli til að árangur náist.  Stjórnarmenn eiga einnig sæti í mörgum nefndum sem skipaðar eru af Velferðarráðherra og sitja þar reglulega fundi.  Þar má nefna: samstarfsnefnd um málefni aldraðra, nefnd um lífeyrismál og endurskoðun almannatrygginga, starfshópur um húsnæðismál, starfshópur um fjölskyldustefnu og starfshópar um flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga.  Einnig  eigum við sæti í Velferðarvaktinni, Öldrunarráði Íslands, samstarfsnefnd  með TR og erum í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða. 
  
Frá hausti höfum við í stjórninni verið að halda fundi með FEB-félögum út um landið og er búið að fara á fundi hjá 10 félögum á landsbyggðinni og fleiri eru á döfinni á næstu mánuðum.  Nánar um það á heimasíðu og í Listinni að lifa. Í október var ráðstefna á vegum Norrænu samstarfsnefndarinnar í Drammen í Noregi um velferðartækni sem við Ragnheiður  sóttum.  Við höfum síðan verið að kynna það hjá félögum og í Listinni að lifa.  Í undirbúningi eru nokkrar ráðstefnur í samvinnu við aðra aðila og kemur það í ljós fljótlega. Þar má nefna að 17. janúar er ráðstefna um margbreytileika fjölskyldugerða á vegum Velferðarvaktarinnar sem við eigum aðild að,  21. mars er á vegum HÍ málþing um sjálfræði aldraðra þar sem undirrituð er frummælandi.  Í vor verður málþing um velferðartækni og gæði í öldrunarþjónustu á vegum Öldrunarráðs Íslands og LEB.  Þá er formannafundur fyrirhugaður 25. mars hjá FEB í Jónshúsi í Garðabæ. 
  
ÚTGÁFUMÁL 
Listin að lifa kemur nú reglulega út tvisvar á ári og á árinu 2014 er veglegt afmælisblað í undirbúningi í tilefni 25 ára afmælis LEB þann 19. júní.  Afsláttarbókin kom út á árinu 2013 í samvinnu við Reykjavíkurfélagið og svo verður einnig nú.  Heimasíðan er orðin öflugri eftir endurskoðun og nýjan umsjónaraðila. Þannig að ég tel að það sé allt í góðum farvegi.  Einnig hef ég og fleiri stjórnarmenn skrifað greinar um öldrunarmál í dagblöð, vikublöð og tímarit.  Auk þess hafa mörg viðtöl verið tekin við mig sem birst hafa í fjölmiðlum. 
  
Umsagnir um þingmál hafa verið fyrirferðarmikil á árinu 2013.  Við höfum t.d. gefið umsögn um frumvarp um breytingar á  lögum um málefni aldraðra, nokkur frumvörp um almannatryggingar, um byggingu nýs landsspítala, um forvarnarstarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli, um 40 stunda vinnuviku, um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað o.fl.  Fyrst og fremst höfum við þá tekið fyrir atriði sem hefðu áhrif til hagsbóta fyrir eldri borgara.  Allar þessar umsagnir eru á heimasíðu Alþingis undir viðeigandi þingmálum. 
  
Af þessu sjáið þið að Landssamband eldri borgara hefur margvíslegu hlutverki að gegna í samfélaginu og það skiptir miklu máli að við séum samstíga í okkar málum.  Ef starf LEB væri ekki jafn öflugt og raun ber vitni þá væri  árangur t.d. í kjarabaráttunni ekki sá sami.  Ég hef lagt áherslu á það í stjórn LEB að unnið sé á málefnalegum nótum, málum fylgt eftir af einurð og festu, að við látum reglulega til okkar heyra og höfum gott samband við stjórnvöld á hverjum tíma, og skiptir engu máli hvaða pólitísk öfl ráða.  Sama gildir um sveitarstjórnirnar í landinu.  Þar kemur raunar meira til kasta hvers félags að fylgja sínum málum eftir í sínu nærumhverfi, en við í LEB styðjum við bakið á ykkur eftir getu.  Nú eru sveitarstjórnarkosningar í vor og þá þurfið þið í FEB-félögum að láta til ykkar heyra, tala við frambjóðendur og sveitarstjórnarmenn og  benda þeim á það sem betur má fara í að skapa aðstöðu og þjónustu fyrir eldri borgara sveitarfélagsins. 
  
ÖLDUNGARÁÐ í hverju sveitarfélagi 
Í samstarfi LEB við okkar norrænu félög á hinum Norðurlöndunum hefur komið í ljós að þar eru starfandi Öldungaráð sem skipuð eru eingöngu fólki 60 ára og eldra.  Komin eru lög um þetta á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi og Færeyjum.  Það er því afar brýnt að við höldum þessu verkefni á lofti nú fyrir  næstu sveitarstjórnarkosningar að vori.  Náist það fram erum við að auka áhrif okkar í samfélaginu.  Og það er tímabært að taka meira tillit til skoðana og tillagna eldri borgara um hvað betur má fara.  Við höfum mikla reynslu og þekkingu að miðla og eigum að nýta hana. 
  
Að lokum kæru félagar.  Við í stjórn LEB munum halda áfram að heimsækja félögin út um landið eftir því sem tækifæri gefast.  Ég og aðrir stjórnarmenn erum alltaf tilbúin að koma á fundi ef þið óskið eftir því og segja frá okkar starfi og heyra ykkar sjónarmið. 
  
Með von um batnandi kjör og enn betra og áhrifaríkara starf okkar eldri borgara. 
Með nýárskveðju. 
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður LEB