Nú fer í hönd dimmasti tími ársins og þá er rétt að minna á mikilvægi endurskinsmerkja fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Í myrkri sjást óvarðir vegfarendur (gangandi, hjólandi) illa þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða og er notkun endurskinsmerkja þess vegna mikilvæg og í sumum tilfellum nauðsynleg. Það er staðreynd að ökumenn sjá óvarða vegfarendur með endurskin fimm sinnum fyrr en ella og því getur notkun endurskinsmerkja skilið milli lífs og dauða.

Allir ættu að nota endurskinsmerki, jafnt börn sem fullorðnir. Börn sjást verr en fullorðnir og eiga það auk þess til að taka hvatvísar ákvarðanir án þess að hugsa um þær hættur sem eru fyrir hendi. Mikilvægt er að foreldrar noti endurskinsmerki til þess að sýna börnum sínum gott fordæmi.

Staðsetning endurskinsmerkja

Endurskinsmerkin eiga að vera sýnileg og er best að hafa þau á eftirfarandi stöðum:

  • Fremst á ermum

  • Hangandi meðfram hliðum

  • Á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum

Þá virkar endurskin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau. Því fyrr og betur sem ökumenn greina óvarða vegfarendur þeim mun minni líkur eru á að slys verði.

Sýnum gott fordæmi og notum endurskinsmerki. Þannig stuðlum við að eigin umferðaröryggi og annarra.

(Frá Umferðarstofu)