Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 21. mars 2024.

Að venju stikla ég hér á stóru um nokkur af þeim helstu verkefnum sem við hjá Rangárþingi eystra erum að fást við þessa dagana. Það er af nægu að taka og oft getur verið talsverð áskorun að velja það sem ratar inn á minnisblað hvers mánaðar. En það myndi líklega flokkast sem svokallað góðærisvandamál.

 

Svör við spurningum frá síðasta fundi

Í upphafi langar mig til að bregðast við nokkrum fyrirspurnum B-listans við síðasta minnisblað sveitarstjóra.

 

Varðandi heimavistarmál við Fsu að þá hefur starfshópur sem undirritaður situr í hist í nokkur skipti frá því hann var skipaður og fundað með hlutaðeigandi aðilum sem koma að heimavistarúrræði við skólann. Starfshópurinn hefur lagt áherslu á það að horft sé til framtíðar og byrjað sé að undirbúa byggingu nýrrar heimavistar við skólann. Skv. nýjustu upplýsingum mun sú vinna fara af stað fljótlega, en ánægjulegt er að segja frá því að samningar hafa tekist um rekstur núverandi heimavistar á meðan verið er að vinna að varanlegri lausn.

 

Varðandi heildarendurskoðun samþykkta um stjórn sveitarfélagsins Rangárþings eystra þá hefur undirritaður unnið að þeim breytingum sem ræddar voru á vinnufundi sveitarstjórnar. Boðað hefur verið til vinnufundar sveitarstjórnar þann 26. mars þar sem m.a. drög að breytingum samþykkta verða rædd.

 

Á vinnufundum sveitarstjórnar við gerð fjárhágsáætlunar fyrir árið 2024 var samþykkt að leggja til við Bergrisann bs. að færa starfsemi VISS á Hvolsvelli í húsnæði Arkarinnar (gamla leikskólans). Sú tillaga var samþykkt á aðalfundi Bergrisans þar sem fjárhagsáætlun ársins 2024 var staðfest og gerði hún ráð fyrir því að VISS mynd flytja í nýtt húsnæði, en því fylgdi talsverður kostnaðarauki sem greiddur er til Rangárþings eystra vegna leigu húsnæðisins. Ákveðið var að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á Örkinni til þess að geta hýst starfsemina og var gert ráð fyrir 10 milljónum í það verkefni. Nú er áfallinn kostnaður um 5 milljónir og framkvæmdum nánast lokið. Stefnt er að því að VISS færi sig um set um næstu mánaðarmót. Það er mikið gæfuspor fyrir vinnustaðinn því nú þegar eru biðlistar um að komast þar í vinnu sem hefur líka leitt til þess að Bergrisinn hefur samþykkt aukið stöðugildi leiðbeinanda hjá VISS. Það verður spennandi að sjá þessa flottu starfsemi dafna á nýjum stað. Varðandi fleiri nýtingarmöguleika húsnæðis félagasamtaka hefur endanlegt minnisblað ekki verið útgefið. Óskað var eftir áliti félags eldriborgara á húsnæðisþörf til starfseminnar, en enn hafa ekki borist svör við þeirri beiðni. En rétt er að minnast á að félagið hefur aðgang að fjöldamörgu húsnæði Rangárþings eystra, t.d. félagsheimilum og skólahúsnæði endurgjaldslaust. Einnig var óskað eftir nánari útskýringum rafíþróttadeildar Dímons fyrir húsnæðisþörf og barst hún nýlega. Rafíþróttadeildin er að missa núverandi húsnæði sitt og því er hafin undirbúningur að því að finna þeim húsnæði við hæfi.

 

Norðurljósaráðstefna

Haldin var Norðurljósaráðstefna í LAVA nú á dögunum. Var ráðstefnan skipulögð af LAVA og Midgard og færi ég þeim kærar þakkir fyrir framtakið. Mörg fróðleg erindi voru á dagskrá ráðstefnunar varðandi tækifæri til að auka verðmæti í nýtingu og markaðssetningu norðurljósa. Einnig var áhugaverð umræða varðandi verðmæti þess að vanda til lýsingar og varðveita eða útbúa svokölluð myrkvuð svæði. Ráðstefnan var vel sótt og ljóst að mikill kraftur býr í ferðaþjónustunni okkar í Rangárþingi og tækifæri til eflingar eru gríðarleg.

 

Heimsókn sveitarstjórnar í Kirkjulækjarkot

Staðarhaldarar í Kirkjulækjarkoti buðu sveitarstjórnarmönnum í Rangárþingi eystra í heimsókn. Það var virkilega skemmtilegt og fróðlegt að sjá allar þær framkvæmdir sem þar hafa átt sér stað undanfarin ár og heyra einnig hver framtíðarsýnin væri. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir þeim miklu mannvirkjum sem þar eru risin og eru enn í vinnslu, en þar er að verða mjög fín aðstaða til allskonar samkomuhalds, stórir salir fyrir hundruði manns ásamt stoðrýmum. Möguleikar til frekari nýtingar þessara mannvirkja eru miklir og verður gaman að fylgjast með staðnum byggjast upp.

Markaðs- og kynningarfulltrúi

Breytingar urðu í starfsmannahaldi á skrifstofu Rangárþings eystra þegar Árný Lára Karvelsdóttir hætti störfum sem markaðs- og kynningarfulltrúi sveitarfélagsins. Ég vil þakka Árný kærlega fyrir áralangt farsælt starf fyrir sveitarfélagið og óska henni velfarnaðar í nýju starfi sem héraðsskjalavörður Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Starf markaðs- og kynningarfulltrúa hefur verið auglýst og var umsóknarfrestur til og með 18. mars. Óhætt er að segja að áhugi á starfinu hafi verið gríðarlega mikill, en alls bárust 27 umsóknir um starfið. Ráðningarfyrirtækið Intellecta heldur utan um ráðningarferlið fyrir sveitarfélagið. Verið er að vinna úr umsóknum og eru fyrirhuguð viðtöl við umsækjendur í næstu viku. Vonast er til að geta ráðið í starfið sem fyrst.

 

Bergrisinn – Búsetuúrræði á Hvolsvelli

Það er ánægjulegt að segja frá því að á fundi stjórnar Bergrisans bs. þar sem undirritaður situr í stjórn, var samþykkt á fundi sl. mánudag að hefja undirbúning og framkvæmdir við búsetuúrræði fyrir fatlaða á Hvolsvelli. Áætlað er að undirbúningur fari strax af stað og stefnt er að því að búsetuúrræðið geti verði tekið í notkun á árinu 2025. Það er húsnæðisfélagið Arnardrangur hses sem er í eigu sveitarfélaga á Suðurlandi sem mun standa að framkvæmdinni og á næstunni óska eftir þátttöku og samþykki Rangárþings eystra um stofnframlög til verkefnisins.

 

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið nú í mars. Aðaláherslur þingsins sneru að almannavörnum og viðbrögðum við náttúruvá. Góðar umræður og kynningar áttu sér stað og ljóst að sveitarfélög á Íslandi eru nokkuð vel í stakk búin til að takast á við þá náttúruvá sem getur steðjað að. Engu að síður má alltaf gera betur með auknu samráði og samvinnu milli sveitarfélaga, ríkis og annarra aðila sem að koma. Einnig var talsverð umræða á þinginu um aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga að kjarasamningum á vinnumarkaði. Það er mikið fagnaðarefni að náðst hafi langtímasamningar á almennum markaði og búið sé að leggja línur fyrir komandi kjarasamninga á opinberum markaði. Sameiginlegt markmið allra hlutaðeigandi var að kveða niður vexti og verðbólgu öllum til hagsbóta. Sambandið hefur sent sveitarfélögum áskorun um þátttöku í þessu sameiginlega verkefni og er sú áskorun til kynningar fyrir okkar fund hér síðar í dag. Ég hef fulla trú á því að Rangárþing eystra láti sitt ekki eftir liggja og hefur sveitarfélagið nú þegar stigið stórt skref hvað það varðar, með þeirri ákvörðun við gerð fjárhagsáætlunar síðastliðið haust að hækka ekkert gjaldskrár sveitarfélagsins er snúa að leik- og grunnskóla.

 

Kjördæmavika

Kjördæmavika Alþingis var haldin í lok febrúar. Þá leggja margir þingmenn og þingflokkar land undir fót og heimsækja kjördæmin sín til að ræða málefni líðandi stundar og kynna sér þau verkefni og málefni sem brenna á fólki. Þó nokkrar heimsóknir fengum við í Rangárþingi eystra og þakka ég hér með öllum þeim sem gáfu sér tíma til að ræða við okkur og okkar íbúa. Það var virkilega skemmtilegt að geta farið yfir allt það góða sem hefur verið gert og framundan er í okkar sveitarfélagi. Við getum sannarlega verið stolt af því sem við höfum fram að færa.

Skógafoss – Bílastæði

Þann 22. febrúar voru opnuð tilboð í gerð nýrra bílastæða við Skógafoss. Alls bárust 5 tilboð í verkið. Að uppfylltum skilyrðum samþykkti byggðarráð að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Heflun ehf. Tilboð Heflunar hljóðaði upp á 140.367.500 kr. og kostnaðaráætlun verkkaupa var 240.770.785 kr. Efla verkfræðistofa er nú að yfirfara tilboð og hæfisskilyrði og vonast er til þess að hægt verði að undirrita verksamning fljótlega og framkvæmdir geti hafist sem fyrst. Áætluð verklok eru þann 15. september 2024. Einnig er í vinnslu í samráði við Skógræktarfélag Rangæinga tilfærsla á núverandi tjaldsvæði við Skógafoss. En skv. gildandi skipulagi er gert ráð fyrir því innan skógræktarsvæðis sunnan við ánna Kvernu.

Fundur með ráðherra v. Þórsmörk

Fulltrúar skipulags- og umhverfisnefndar og sveitarstjórnar áttu fund nýlega með umhverfisráðherra, þar sem málefni Þórsmerkursvæðisins voru til umræðu. Þórsmörk er ein af okkar helstu náttúruperlum í Rangárþingi eystra og þurfum við að vanda okkur sérstaklega í allri ákvarðanatöku sem lúta þar að. Á fundinum voru ræddir hinir ýmsu möguleikar er snúa bæði að verndun og nýtingu svæðisins til framtíðar.

 

Fundur með ráðherra v. ferðamálastefnu

Ferðamálaráðherra hélt opin fund á hótel Hvolsvelli fyrir skömmu. Á fundinum kynnti ráðherra drög að ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun henni tengdri. Ljóst er að um mikla tímamótastefnu er að ræða sem á eftir að verða uppbyggingu ferðaþjónustu á öllu landinu til góðs. Fundurinn var vel sóttur af kjörnum fulltrúum og ferðaþjónustuaðilum á Suðurlandi og sköpuðust líflegar og uppbyggjandi umræður.

 

Sumarstörf í áhaldahúsi – Umhverfis- og garðyrkjustjóri

Nú nýlega auglýsti Rangárþing eystra eftir ungu og öflugu fólki til starfa í áhaldahúsi og flokkstjórn unglingavinnu fyrir sumarið. Það er að nægu að taka á hverju sumri við fjölbreytt og spennandi verkefni sem flest snúa að viðhaldi og fegrun umhverfis í öllu sveitarfélaginu. Að sjálfsögðu vonumst við eftir því að störfunum verði sýndur mikill áhugi, því þetta starfsfólk okkar yfir sumarið er okkur svo sannarlega ómetanlegt. Guðrún Björg Benediktsdóttir sem starfað hefur fyrir sveitarfélagið undanfarin ár sem umhverfis- og garðyrkjustjóri hefur látið af störfum og þökkum við henni kærlega fyrir frábært starf í þágu sveitarfélagsins og óskum henni velfarnaðar í þeim störfum sem hún tekur sér fyrir hendur. Auglýsing starfsins hefur nú verið birt og vonandi vekur hún athygli áhugasamra. Umsóknarfrestur um starfið er til og með 8. apríl.

 

Félagsheimili – Fundir með meðeigendum

Sveitarstjórn átti góða fundi með meðeigendum sínum að félagsheimilum í sveitarfélaginu. Flest félagsheimilin eru í eigu sveitarfélagsins ásamt kvenfélags, leikfélags og ungmennafélags. Mismunandi er hver eignarhlutur hvers og eins er í hverju heimili. Fundirnir eru framhald af íbúafundum sem haldnir voru síðasta vor þar sem málefni félagsheimila voru til umræðu. Farið var yfir stöðu hvers félagsheimilis varðandi notkun, kostnað, tekjur ofl. Ýmsir möguleikar voru ræddir varðandi framtíðarnotkun, en flestir fundarmenn voru sammála um að núverandi staða væri ekki ásættanleg þar sem flest húsin eru í lítilli notkun og viðhaldi þeirra margra verulega ábótavant. Það verður fróðlegt að taka umræðuna í framhaldinu um þá möguleika sem eru til staðar til þess að félagsheimilin geti nýst íbúum okkar sem allra best og verið okkur til sóma.

 

Aðalfundur félags eldri borgara

Sveitarstjórar og oddvitar sveitarfélaga í Rangárvallasýslu fengu boð um að sækja aðalfund félags eldri borgara sem haldin var fyrir skömmu. Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum og ánægjulegt að sjá hversu öflugt starf félagið rekur í Rangárvallasýslu. Sveitarfélögin styrkja starfið í gegnum Héraðsnefnd Rangárvallasýslu og með því að bjóða aðstöðu í húsnæðum sínum. Það er metnaðarfull dagskrá sem félagið stendur að og tel ég full víst að engin þurfi að kvíða þeim tímamótum að verða gjaldgengur í félagið, því þar er svo sannarlega hægt að hafa nóg fyrir stafni. Vel gert félag eldri borgara í Rangárvallasýslu.

 

Að lokum

Hér hefur verið stiklað á stóru um brot af því sem á daga okkar í Rangárþingi eystra hefur drifið, en engan vegin tæmandi listi yfir alla þá spennandi hluti sem framundan eru hjá okkur í sveitarfélaginu. Nú eru páskarnir framundan með öllu því sem þeir hafa upp á að bjóða, fermingar, súkkulaði, fjölskylda, útivera, samvera, stundum smá vor fíling og stundum páskahreti. Allavega það glittir í vorið sem er á næsta leiti og engin ástæða til annars en taka fagnandi hverjum degi og þeim áskorunum og verkefnum sem við stöndum frammi fyrir. Gleðilega páska.

 

 

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra