Heilsugæslustöðin á Hvolsvelli er hornsteinn í héraði Hvolsvelli, 31. desember 2015

Í Rangárþingi eystra er samfélagið byggt upp af hefðbundnum landbúnaði, fjölbreyttum þjónustukjarna í Hvolsvelli og nú ört vaxandi ferðaþjónustu sem eykur mjög fólksfjöldann í héraðinu.  Þessir samfélagsþættir treysta allir hver á annan varðandi þróun og gæði búsetu í Rangárþingi eystra til þess að samfélagið í heild megi dafna.  Skipulag þjónustukjarnans í Hvolsvelli miðar að því að hér sé traust þéttbýli sem sinnir sínu hlutverki vel.  Þéttbýlið í Hvolsvelli er líka viðkvæmt innbyrðis en þar treystir hver á annan svo úr verði lífvænleg heild.  

Heilsugæsla hefur verið á Stórólfshvoli allt frá því læknar þurftu ennþá að fara ríðandi um héraðið til að vitja sjúklinga, oft um langan veg yfir vegleysur og óbrúaðar ár.  En það er ekki framfaraspor sem nú er reynt að stíga í heilbrigðismálum með skertri opnun eða lokun heilsugæslustöðvarinnar.

Læknisþjónusta er grundvallarþjónusta sem langflestir landsmenn eru sammála um að hafi forgang umfram aðra þjónustu samfélagsins.  Læknisþjónusta er líka hornsteinn í þéttbýliskjarna sveitarinnar og um það eru íbúar Rangárþings eystra væntanlega mjög sammála og hafa oft sýnt hug sinn í verki til heilsugæslunnar.  Þá hefur heilbrigðisráðherra nýlega í fréttatímum lýst áhuga sínum á að efla heilsugæsluna í landinu.

Þegar „hornsteinar“ falla er hætt við að fleiri „steinar“ falli og þá fellur einnig verðmæti byggðarinnar á svo margan hátt m.a. verðmæti eigna og vilji fólks til að búa og setjast að á slíkum stað.  Þegar byggðin var skipulögð til framtíðar í túni Stórólfshvols þá var gert ráð fyrir verulegu landrými fyrir öldrunarþjónustu á fögrum stað og á sama stað einnig fyrir heilsugæslustöð sem þá var í býgerð.  Á þessu svæði þrengir hvergi að í fyrirsjáanlegri framtíð þó þar hafi mikil uppbygging nú þegar farið fram.  Einstaklingar hafa líka byggt lítil hús norðan við Dalsbakkann og nú síðast við Sólbakka þar sem enn er verið að byggja litlar íbúðir.  Byggðin öll er innan seilingar frá Dvalarheimilinu Kirkjuhvoli þar sem íbúar sem þess óska geta auðveldlega sótt ýmsa þjónustu og einnig frá heilsugæslustöðinni.  

Enn er eftir mikið ónotað landrými sem Heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli er ætlað.  Á þessum svæði er því alls ekki þrengt að frekari uppbyggingu og eflingu starfseminnar sem var hönnuð fyrir um fjörutíu árum í núverandi mynd.  Aðstæður hér eru því mjög góðar til að efla og þróa hverskonar heilsugæslu eins og framtíðin mun kalla eftir.  Heilsugæslulóðin býður einnig upp á að byggja þar íbúðarhúsnæði fyrir lækni og jafnvel fleiri lykilstarfsmenn.  Slíkt húsnæði í eigu heilsugæslunnar á að vera aðlaðandi og ávallt tiltækt með stuttum fyrirvara þegar á þarf að halda.  

Íbúar Rangárþings eystra takast nú á við þýðingarmikið samfélagsmál sem við þurfum að sýna mikla staðfestu öll sem eitt.  Við verðum að vera meðvituð um að mikið er í húfi þegar horft er fram á veginn.  Vegurinn fram á við var lagður löngu fyrr m.a. með Aðalskipulagi og byggingu heilsugæslustöðvar á vegum ríkisins og sveitarfélaganna sem síðar urðu Rangárþing eystra.  Staðfest skipulag heilsugæslureitsins lýsir lögbundnum áformum um uppbyggingu og því eiga opinberir starfsmenn og einstaklingar að geta treyst eins og öðrum lögum landsins þegar ákvarðanir eru teknar og fjárfesting hafin á svæði sem hefur hlotið staðfest skipulag löggjafavaldsins.   

Sæmundur Holgersson, tannl. Hvolsvelli