Á 319. fundi sveitarstjórnar, sem fram fór fimmtudaginn 14. desember, var fjárhagsáætlun fyrir 2024-2027 samþykkt samhljóða.

Áætlun 2024 gerir ráð fyrir fjárfestingum að heildarupphæð 388.000.000 kr án fjárfestinga byggðarsamlaga. Sveitarfélagið þarf áfram að byggja upp mikilvæga innviði en fjárhagslegir burðir þess eru þó ekki þannig að hægt sé að fjárfesta fyrir háar upphæðir ár eftir ár. Því er gert ráð fyrir töluvert minni fjárfestingu 2024 en var 2023 þegar bygging nýs leikskóla stóð sem hæst. Gert er ráð fyrir áframhaldandi gatnagerð, yfirborðsfrágangi í Hallgerðartúni, og göngustígum og gangstéttum til að tengja nýja íbúabyggð við göngustígakerfi sem fyrir er. Gert er ráð fyrir áframhaldandi viðhaldi við Hvolsskóla, alls 35.000.000, viðhaldi á félagsheimilum fyrir sömu upphæð og framkvæmdum við lóð Áhaldahúss fyrir 10,000.000. Gert er ráð fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja, undirbúning að gervigrasvelli, körfuboltavöll á lóð Hvolsskóla og hönnun á útisvæði sundlaugar. Stærsta einstaka fjárfesting ársin verður framkvæmd á Skógum, þar sem gert er ráð fyrir að byggja upp nýtt bílastæði og þjónustuhús við Skógafoss, i samræmi við skipulag á svæðinu. Sveitarfélagið hyggst hefja gjaldtöku á svæðinu og með henni fjármagna þær framkvæmdi sem nauðsynlegar eru á einum vinsælasta ferðamanna stað á landinu.

Áætlaðar heildartekjur Rangárþings eystra 2024 (aðalsjóðs, A- og B hluta) nema alls 3,4 milljarða króna. Heildarútgjöld án fjármagnsliða eru áætluð 3 milljarðar króna. Reiknaðar afskriftir 197 milljónir kr. Veltufé frá rekstri 413 milljónir.

Niðurstaða ársins 2024 án fjármagnsliða er áætluð 211 milljónir. Rekstrarniðurstaða 2024 jákvæð um 49,9 milljónir.
Í eignfærða fjárfestingu er varið...... 412 mkr.
Afborgun lána.......................... 132,5 mkr.
Tekin ný langtímalán................... 200 mkr.
Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2.622 mkr.
Eigið fé er áætlað í árslok............ 3.088 mkr.

Áætlunin gerir ráð fyrir að skuldahlutfall lækki úr 80% í 75% og skuldaviðmið lækki úr 57% í 54%.

Allar nánari upplýsingar má finna í Fjárhagsáætlun og Greinargerð með fjárhagsáætlun

Sveitarstjórn vill koma á framfæri þakklæti til fjármálastjóra, forstöðumanna stofnana sveitarfélagsins auk annarra starfsmanna sem komu að gerð áætlunarinnar.