Í Skálakoti er verið að byggja nýtt hótel og vegna þess, að hluta til, var ákveðið að stíga stórt skref í ágúst 2012 og slíta 20 ára samstarfi við Eldhesta. Skálakot vill bjóða upp á fjölskyldustemningu í ferðum og vera með litla hópa í hvert sinn og það gat verið erfitt þegar unnið var með Eldhestum. Árið 2012 réð Skálakot til sín markaðsfulltrúa sem hefur unnið ötullega að því að finna ferðaþjónustuaðila um alla Evrópu og í Bandaríkjunum til að selja Skálakotsferðir.

Yfir vetrartímann hefur Skálakot boðið skiptinemum í Háskóla Íslands í helgarferðir sem samanstendur af ódýri gistingu, mat og ferðinni milli Reykjavíkur og Skálakots. Á bænum geta skiptinemarnir valið milli afþreyingamöguleika sem boðið er upp á, hægt er að fara í hestaferðir, gönguferðir, skella sér í Seljavallalaug eða fara í ferðir að Skógum og í Vík. Að þessu leyti hefur ferðaþjónustunni í Skálakoti tekist að vera með fullt hús allt árið um kring. Staðsetning bæjarins hjálpar til en hægt er að bjóða upp á dagsferðir á jökul en einnig ferðir niður í svarta fjöruna.
Skálakot fór á Stockholm Globen Horse Show til að selja ferðirnar sínar. Í básnum var gefin frí ferð til Landmannalauga sem aflaði þeim 3000 netföng til að vinna með. Ferðin á sýninguna var mjög árangursrík og nú þegar eru ekki aðeins sumarferðirnar uppbókaðar heldur hafa tvær ferðir verið bókaðir fyrir árið 2014.

„Við erum mjög ánægð með útkomuna eftir að við slitum samstarfinu við Eldhesta,“ segir Guðmundur Viðarsson, eigandi Skálakots. „Við vissum að við værum með góðar hestaferðir og að við værum á réttri leið en það er alltaf gott að fá staðfestingu á því þegar litið er yfir fjölda gesta sem bókað hafa hjá okkur. Við verðum önnum kafin í sumar og hlökkum til.“

nullnull