Ásta frá Grjótá hlaut viðurkenningu og afreksbikar Fljótshlíðar

Ásta Þorbjörnsdóttir frá Grjótá í Fljótshlíð hlaut viðurkenningu og afreksbikar Fljótshlíðar á 17. júní hátíð Fljótshlíðinga. Viðurkenninguna hlaut hún fyrir að varðveita menningarverðmæti en hún hefur safnað saman ljóðum Helgu Pálsdóttur frá Grjótá í bók sem verður gefin út nú síðsumars. Helga var fædd árið 1877 og var stóran hluta ævi sinnar vinnukona á Grjótá en eftir hana liggur fjöldinn allur af ljóðum og eftirmælum sem Ásta hefur nú safnað saman. Í umsögn nefndarinnar segir m.a. „Það er vel við hæfi nú á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna að halda á lofti verkum einnar af hinum dæmigerðu íslensku alþýðukonum sem margar hverjar voru hæfileikaríkar en sökum hógværðar og lítillætis höfðu sig lítið eða ekkert í frammi“.