13. fundur fræðslunefndar Rangárþings eystra.

Fundurinn var haldinn mánudaginn 22. apríl 2013 klukkan 17:00 í Litla salnum Hvoli.



Mættir voru:  Guðlaug Ósk Svansdóttir, Benedikt Benediktsson, Oddný Steina Valsdóttir, Birkir A. Tómasson varamaður Estherar Sigurpálsdóttur sem boðaði forföll, Heiða Björg Scheving leikskólastjóri, Sigurlín Sveinbjarnardóttir skólastjóri, Pálína Björk Jónsdóttir fulltrúi starfsfólks Hvolsskóla, Unnur Óskarsdóttir fulltrúi starfsfólks leikskólans, Berglind Hákonardóttir fulltrúi foreldrafélags leikskólans. Lárus Bragason boðaði forföll.
Guðlaug Ósk Svansdóttir formaður fræðslunefndar setti fund kl. 17:00
Dagskrá fundarins: 
1. Bréf frá Menntamálaráðuneytinu um styttingu skólaársins 2013-2014
Fræðslunefnd telur að stytting skólaársins úr 180 dögum í 170 daga hafi fengið góða umfjöllun. Fram kom í foreldrakönnun sem lögð var fyrir foreldra á foreldradegi skólans í janúar að það eru 86% foreldra ánægðir eða  mjög ánægðir með styttingu skólaársins. Rætt var um styttingu skólaársins á fundi í skólaráðsins þann 25 febrúar s.l og voru foreldrar í skólaráði almennt ánægðir með styttinguna en bentu á að þegar skólaslit eru snemma þurfi önnur úrræði fyrir nemendur s.s. leikjanámskeið eða annað að koma til. Einnig kom fram á fundi skólaráðsins að nemendur eru ánægðir með styttingu skólaársins. Stytting skólaársins var einnig vel kynnt á tveimur íbúafundum í mars síðast liðnum.

Fræðslunefnd telur að stytting skólaársins henti samfélaginu vel en um helmingur nemenda eru búsettir í dreifbýlinu og bendir á að það er góð þjónusta fyrir þá nemendur sem þurfa gæslu eftir að skóla lýkur. Nefndin er sammála því að skólaárið 2013-2014 verði skóladagar 170 samtals. 


2. Leikjanámskeið og unglingavinnan sumarið 2013  
Benedikt Benediktsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi sveitarfélagsins fór yfir hvernig skipulag á leikjanámskeiðum verður í sumar en það kemur til með að hefjast mánudaginn 27. maí og verður með svipuðu sniði og í fyrra. Gæsla yrði á morgnana frá kl. 8-9 og námskeiðið hæfist þá kl. 9 og yrði til kl. 16. Einnig verður gæsla milli klukkan 16-17. Reiknað er með þremur námskeiðum þ.e. 3x 2ja vikna námskeið. Heiða sagði frá því að hún hefði heyrt hjá foreldrum að þeir myndu vilja hafa einhver úrræði að hausti líka, dagana fyrir skólasetningu. Guðlaug velti upp þeirri hugmynd að kanna þörf á námskeiði að hausti. Fram kom að hægt verður fyrir foreldra að semja um tíma þ.e. að nota bara eina viku í stað tveggja. Námskeiðin eru hugsuð einnig fyrir börn sem hefja skólagöngu í haust. Ráðning starfsmanna er vel á veg komin en dagskrá er ekki enn tilbúin. Guðlaug lagði til að þó dagskrá lægi ekki fyrir væri hægt að kynna að námskeið yrðu í vor og þá hvaða daga.
Verið er að skipuleggja vinnuskólann í sumar en árgöngunum 1997-1999 býðst að vinna frá 9-16 en 2000 árgangurinn geta valið að vinna frá 9-12 eða 13-16. 
Vinnuskólinn hefst 3. júní. Ánægja meðal fundarmanna að unglingavinnan hefjist að loknum 7. bekk og talað um að það sé fágætt í sveitarfélögum að nemendur sem eru að ljúka 7 bekk gefist færi á því. Búið er að ráða 2 verkstjóra og 3 flokkstjóra.
Verið er að huga að því hvort að verkefni frá Jarðvanginum geti tengst vinnuskólanum.

3. Starfið í Leikskólanum Örk - Foreldrakönnun og skólanámskrárgerð
Heiða Björg Scheving leikskólastjóri leikskólans Arka fór yfir niðurstöður könnunar sem gerð var meðal foreldra barna á leikskólanum. Niðurstöður hennar liggja á heimasíðu Leikskólans.
Rætt var um gryfjuna á lóðinni. Foreldrar hafa ítrekað gert athugasemdir við hana. Heiðu var falið að ræða við sveitarstjóra og fá gryfjuna fyllta. Einnig gerðu foreldrar athugasemdir við umferðaröryggi á bílastæðinu og þá helst að fá gangstétt við Tónaland og að umferðaeyja verði fjarlægð.  
Umræður sköpuðust um lokun leikskólans í sumar. Nokkur þrýstingur er frá fyrirtækjum í sveitarfélaginu um að skólinn starfi á heilsársgrunni en aðeins átta foreldrar hafa svarað því til í könnuninni að þeir myndu nota gæsluvöll á lokunartíma Leikskólans.
Heiða las upp bréf frá foreldrum ungra barna þar sem þeir óska eftir að leikskólinn taki inn yngri börn en gert hefur verið, eða niður í 10 mánaða aldur, þar sem engin dagmamma er á svæðinu. 97 börn eru skráð í leikskólann í haust en hann getur tekið inn um 100 börn. Fundarmenn eru hlynntir því að tekin verði inn börn við 12 mánaða aldur á meðan ekki er starfandi dagmamma í sveitarfélaginu. Ljóst er að ráða þarf starfsmann/menn til að sinna því verkefni.
Heiða sagði frá því að verið væri að vinna að skólanámskrárgerð í leikskólanum sem þarf að vera tilbúin í lok 2014 og að auki þarf að vera tilbúið nýtt matskerfi. Sótt hefur verið um styrk í Sprotasjóð  til að mæta kostnaði við þessa vinnu. Heiða hefur sett upp kostnaðaráætlun vegna verkefnisins sem hún kynnti fundarmönnum.

4.     Starfið í Hvolsskóla

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skólastjóri Hvolsskóla sagði frá því hvað væri efst á baugi í skólastarfinu. Nýtt verkefni var sett á laggirnar í samvinnu við Skógrækt ríkisins á Tumastöðum þar sem fimm bekkir skólans fóru að Tumastöðum, sinn dag hver árgangur. Þar fengu börnin fræðslu og tókust á við verkefni og vinnu. Mikil ánægja var með verkefnið. Sigurlín sagði einnig frá verkefni sem Landvernd hefur boðið skólanum að taka þátt í ásamt hinum tveimur Grænfánaskólunum á Suðurlandi, Grunnskólanum á Hellu og Þjórsárskóla og Landgræðslu ríkisins. Verkefnið gengur út á það að græða upp örfoka land og er hluti af verkefninu Vistheimt á örfoka landi á Suðurlandi og er fjármagnað með arfi frá Áslaugu Hafliðadóttur.

Þemadagar hófust í dag. Þema að vori er þannig skipulagt að saman eru þeir nemendur sem verða saman á stigi næsta haust og er því leikskólinn með. Danskennsla er þessa daga fyrir alla nemendurna. 
Starfsmannaviðtölum við kennara er lokið og virðist vera nokkuð góður stöðugleiki á meðal starfsfólks. 
Stundatöflugerð fyrir næsta skólaár er hafin. 
Sigurlín sagði frá skólafærninámskeiði sem hefst á morgun. Það er hugsað fyrir foreldra barna sem eru að hefja skólagöngu í haust. Námskeiðið er í tveimur hlutum og er seinni hluti laugardaginn 25. maí og er þá hugsaður fyrir bæði foreldrana og börnin. Fundarmenn lýstu yfir ánægju sinni með námskeiðið og starfið á milli skóla og leikskóla. 
Hugað verður að því að gera drög að nýrri skólanámskrá í vor. Verið er að gera skýrslu um niðurstöður sjálfsmatsins sem verður tilbúin með vorinu.
Ráðinn hefur verið nýr skólaritari til eins árs þar sem Guðlaug Einarsdóttir er farinn í árs leyfi. Steinunn Arnardóttir var ráðin í hennar stað. 
Sigurlín sagði frá því að Gissur Jónsson deildarstjóri elsta stigs væri að hverfa til annarra starfa og búið væri að auglýsa hans stöðu.
Guðlaug spurði hvernig staðan væri með söfnun 10. bekkjar. Rætt var um að mikilvægt væri að setja upp kostnaðaráætlun í upphafi til að lenda ekki í því að safnað verði of miklu eða of litlu. Stungið upp á að hafa ferðanefnd. Einnig bent á að boða bara foreldra á fund þegar ákveða á hvernig ferðalagi 10. bekkjar skal háttað. 
  
5. Hugmyndir um breytt fyrirkomulag á skólatíma og áherslubreytingar á Skólaskjólinu Birna deildastjóri yngsta stigs

Birna Sigurðardóttir deildarstjóri yngsta stigs í Hvolsskóla fór yfir hugmyndir varðandi skólaakstur, Skólaskjól og fleira. 
Fram kom að það eru 110 nemendur í skólaakstri og það eru sjö skólabílar sem sjá um aksturinn. Það eru um 70 börn sem eru í Skólaskjóli einn eða fleiri daga vikunnar. Birna telur að mikilvægt sé að skerpa ákveðna þætti í starfi Skjólsins svo sem skráning barna og eftirfylgni. Og athuga hvort að starfsemi Skjólsins eigi að vera með meira skipulagt starf, en í dag er starfið meira eins og gæsla þar sem starfsmenn aðstoða nemendur með að sækja samfellustarf og annað utanumhald.
Skólaakstur er mestur á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum en þá er ferð heim með skólaakstri klukkan 13.10, 14.50 og  17.00. Hugmyndir eru um að nemendur verði í lengdri viðveru einhverja af þessum dögum. Skólaakstur á klukkan 13.10 ferðinni mánudaga og miðvikudaga kostar sveitarfélagið kr. 250.000.- á mánuði m.v. skólaárið 2012-2013. Birna segir frá því að mögulega mætti vera lengd viðvera og/eða annað starf  kæmi í staðinn t.d. meira samstarf við Dímon og/eða annað starf sem hentar í að vera í smiðjuformi. Flestir nemendur í heimakstri klukkan 13:00 eru á fimmtudögum en þar af eru aðeins 10-12 af yngsta stigi. 
Skólaskjól hefur starfað á starfsdögum, foreldradögum, í jóla- og páskafríi. Núna er komin tveggja ára reynsla á gæslu á þessum dögum og mikilvægt er að fram komi á skóladagatali skólans hvaða dagar eru með gæslu svo foreldrar fái þessar upplýsingar strax í upphafi skólaárs. Gott samstarf hefur verið á milli skólans og leikskóla en ákveða þarf með hvaða formi slíkt samstarf á að vera. Hvenær er æskilegt að Skjólið opni á haustin? Birna bendir á að möguleiki væri á að Skjólið gæti opnað um leið og kennarar koma til starfa um miðjan ágúst. 
Birnu er falið að móta betur hugmyndir varðandi skólaakstur Skólaskjól í samvinnu með fulltrúum Dímon og foreldrum og þá helst að skoða kostnaðarliði og það starf sem kemur í staðinn. Nefndin telur mikilvægt að skráning í samfellustarf og Skólaskjól verði að vori svo hægt sé að skipuleggja starfið og skólaakstur að mestu. 

Fleira ekki rætt. Fundargerð lesin og samþykkt og fundi slitið kl. 20:13
Fundargerð ritaði Birna Sigurðardóttir

Guðlaug Ósk Svansdóttir                                                            
Unnur Óskarsdóttir                                                                                                                                                                                
Benedikt Benediktsson                                                             
Sigurlín Sveinbjarnardóttir
Heiða Björg Scheving                                                                             
Pálína Björk Jónsdóttir
Oddný Steina Valsdóttir                                                                
Birkir A. Tómasson 
Berglind Hákonardóttir