Ráðherrar velferðarmála og sjávar- og landbúnaðarmála, Guðbjartur Hannesson og Jón Bjarnason, koma við á Hvolsvelli í dag á leið sinni austur í Skaftafellssýslur. Velferðarráðherra kemur til með að ræða málefni Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Kirkjuhvols við sveitarstjóra.
Almannavarnateymið sem skipað var til að fara yfir málin tengd eldgosinu í Grímsvötnum og skila á skýrslu í lok vikunnar, fundaði á Hvolsvelli með sveitarstjóra í gær. Teyminu er ætlað að ná einskonar heildarmynd á aðstæðum, þannig hægt sé að forgangsraða og að íbúar á svæðinu fái úrlausn sinna mála.
Þrátt fyrir öskufjúk á sunnudagskvöldið hélt Gospelkór suðurlands sína árlegu vortónleika í Hvolnum Hvolsvelli. Tónleikarnir voru vel sóttir þrátt fyrir ástandið utandyra og góð stemming í hópnum. Enda hvað er betra en að hlusta á góða tónlist í góðra vina hópi til að gleyma um stund öskufjúkinu.
Markaðsstofa Suðurlands hvetur þá sem ætla að ferðast um Suðurland á næstu dögum og í sumar að fylgjast vel með fréttum af framvindu gossins áður en ferðaáætlunum er breytt.
Sundlauginni hefur verið lokað um óákveðinn tíma vegna öskufjúks frá eldgosinu í Grímsvötnum. Verður hún lokuð þar til hægt verður að hreinsa laugina. Breyting á opnunartíma verður sett inn á vefinn um leið og tækifæri gefst.