78. fundur 05. desember 2019 kl. 11:00 - 12:00 á skrifstofu sveitarfélagsins
Nefndarmenn
  • Esther Sigurpálsdóttir aðalmaður
  • Anton Kári Halldórsson formaður
  • Lilja Einarsdóttir aðalmaður
  • Anna Runólfsdóttir aðalmaður
  • Þórir Már Ólafsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðmundur Úlfar Gíslason skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði: Guðmundur Úlfar Gíslason Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Hvolsvöllur; Deiliskipulag

1811020

Tillagan tekur til svæðis sem er um 13 ha að stærð og liggur norðan núverandi íbúðarsvæðis, vestan Nýbýlavegar. Svæðið sem um ræðir skiptist í 3,1 ha íbúðarsvæði, 5,8 ha íbúðarsvæði og 3,3 ha opið svæði. Gert er ráð fyrir að á svæðinu rísi lágreist byggð með fjölbreyttum húsagerðum, þ.e. einbýli, par- og raðhús. Lögð verður áhersla á góðar göngu- og hjólaleiðir bæði innan svæðis og við aðliggjandi svæði, ásamt fjölbreyttum leik- og útivistarsvæðum. Gert er ráð fyrir nýrri vegtengingu frá Þjóðvegi 1 sem mun liggja norðan við hið nýja íbúðarsvæði og tengjast við Nýbýlaveg.
Tillagan var auglýst 16. október sl. með athugasemdarfresti til 27. nóvember sl. Engar athugasemdir bárust á auglýsingartíma tillögunnar. Í umsögn Vegagerðarinnar er mælt með því, vegna umferðaröryggis, að fyrirhugað hringtorg verði um 45 m að ytra þvermáli og hannað í samræmi við leiðbeiningar Vegagerðarinnar. Í leiðbeiningum Vegagerðarinnar um hönnun hringtorga er gert ráð fyrir að lítil hringtorg í þéttbýli geti verið með heildarþvermál frá 22-32m og umferðarmagni 15.000-20.000 ökutæki/sólarhring. Skipulagsnefnd bendir á að fyrirhugað hringtorg er með 25m heildarþvermál og samræmist því reglum Vegagerðarinnar um hönnun hringtorga í þéttbýli. Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og mælist til þess að hún verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Deiliskipulag - Laxhof

1906066

Deiliskipulagstillagan tekur til 1 ha landspildu, Laxhof, sem stofnuð er út úr Hesteyrum 3 í V-Landeyjum. Tillagan gerir ráð fyrir byggingarreit undir íbúðarhús, gestahús auk aðkomuvega.
Engar athugasemdir komu á auglýsingartíma tillögunnar. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að aðkoma frá Akureyjarvegi er ekki um Strandarveg (2516-01) heldur um veginn að lögbýlinu Dægru. Búið er að leiðrétta það á skipulagsuppdrætti. Í umsögn Veðurstofun Íslands kemur fram að mögulegt er að umrætt svæði verði fyrir áhrifum hlaupvatns, ef um gos í norðurhluta Eyjafjallajökuls sé að ræða. Skipulagsnefnd bendir á að komi til náttúruhamfara, þá er í gildi viðbragðsáætlun fyrir sveitarfélagið. Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og mælist til þess að hún verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Deiliskipulag - Steinmóðarbær 4

1908014

Deiliskipulagstillagan tekur til 12.600 m2 svæðis innan lands Steinmóðarbæjar 4. Innan byggingarreits er heimilt að byggja allt að 200 m2 íbúðarhús, allt að 200 m2 skemmu og tvö gestahús, sem hvort um sig geta verið allt að 45 m2.
Engar athugasemdir komu fram á auglýsingartíma tillögunnar. í umsögn Umhverfisstofnunar er bent á að skipulagssvæðið er á náttúruminjaskrá (Tjarnir og tjarnarnes nr 719) vegna gróðurfars, dýralífs og fuglavarps. Skipulagsnefnd telur ekki líklegt að tillagan hafi mikil áhrif á dýralíf og fuglavarp þar sem byggingar innan fyrirhugaðs deiliskipulags eru það nálægt núverandi byggingum á Steinmóðarbæ. Í umsögn Minjastofnunar Íslands kemur fram að við suðurjaðar skipulagssvæðisins liggi áberandi garður sem hafi varðveislugildi og beri að varðveita. Skipulagsnefnd tekur undir ábendingu Minjastofnunar. Í umsögn Veðurstofun Íslands kemur fram að mögulegt er að umrætt svæði verði fyrir áhrifum hlaupvatns, ef um gos í vesturhluta Kötlu sé að ræða. Skipulagsnefnd bendir á að komi til náttúruhamfara, þá er í gildi viðbragðsáætlun fyrir sveitarfélagið. Skipulagsnefnd samþykkir framkomna tillögu að deiliskipulagi á Steinmóðarbæ 4 og mælist til þess að hún verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Deiliskipulag; Skiphóll

1909043

Deiliskipulagstillagan tekur til 32,5 ha spildu, Skiphóls í A-Landeyjum. Á byggingarreit Í1 er heimilt að byggja allt að 150 m2 íbúðarhús, allt að 50 m2 bílgeymslu og allt að 40 m2 gestahús. Á byggingarreitum F1 og F2 er heimilt að byggja allt að 70 m2 frístundahús auk 15 m2 smáhýsis. Á byggingarreit Ú1 er heimilt að byggja allt að 1.000 m2 hús fyrir hestatengda starfsemi eða aðra landbúnaðartengda starfsemi.
Engar athugasemdir komu fram á auglýsingartíma tillögunnar. Í umsögn Veðurstofun Íslands kemur fram að mögulegt er að umrætt svæði verði fyrir áhrifum hlaupvatns, ef um gos í vesturhluta Kötlu sé að ræða. Skipulagsnefnd bendir á að komi til náttúruhamfara, þá er í gildi viðbragðsáætlun fyrir sveitarfélagið. Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og mælist til þess að hún verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Deiliskipulag; Eyvindarholt

1909110

Deiliskipulagstillagan tekur til ca 4,0 ha svæðis þar sem gert er ráð fyrir fjórum byggingarreitum. Innan byggingarreits B1 er heimilt að byggja allt að sex gestahús, hvert um sig allt að 50 m2. Á byggingarreit B2 er íbúðarhús sem heimilt verður að stækka og byggja bílskúr, allt að 300 m2. Innan byggingarreits B2 er heimilt að byggja allt að 250 m2 íbúðarhús á einni hæð með bílskúr. Innan byggingarreits B4 er fjárhús og hlaða sem heimilt verður að stækka í allt að 350 m2. Fjárhúsinu verður breytt í gistiaðstöðu fyrir allt að 12 gesti.
Engar athugasemdir komu fram á auglýsingartíma tillögunnar. Í umsögn Veðurstofun Íslands kemur fram að mögulegt er að umrætt svæði verði fyrir áhrifum hlaupvatns, ef um gos í vesturhluta Kötlu sé að ræða. Skipulagsnefnd bendir á að komi til náttúruhamfara, þá er í gildi viðbragðsáætlun fyrir sveitarfélagið. Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til að hún verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Deiliskipulag; Lambafell

1909104

Um er að ræða nýtt deiliskipulag, um 6,0 ha að stærð, fyrir hluta jarðarinnar Lambafell L163699 og Lambafell lóð 8 L200484. Skilgreind verður ein ný lóð, Lambafell 2 þar sem áformað er að reisa hótel með allt að 60 herbergjum fyrir allt að 130 gesti ásamt gestamóttöku, veitingasölu, aðstöðu fyrir starfsmenn auk heilsulindar. Lambafell lóð 8 verður stækkuð og útbúnir tveir byggingarreitir. Á byggingarreit B-01 er gert ráð fyrir 25 smáhýsum til útleigu með heildarbyggingarmagni allt að 350 m2. Á byggingarreit B-02 stendur gamla bæjarhúsið sem verður nýtt sem þjónustumiðstöð. Einnig verður heimild fyrir stækkun gamla íbúðarhússins um allt að 50 m2. Að auki er gert ráð fyrir allt að 50 m2 aðstöðuhúsi og baðaðstöðu.
Skipulagsnefnd frestaði afgreiðslu tillögunnar á 75. fundi nefndarinnar vegna athugasemda varðandi áætlaðan gestafjölda, fyrirkomulag sorphirðu og fráveitu. Búið er að uppfæra greinargerð þar sem áætlaður heildarfjöldi gesta kemur fram. Eins hefur verið brugðist við öðrum athugasemdum nefndarinnar. Skipulagsnefnd samþykkir að tillagan verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7.Deiliskipulag - breyting; Borgareyrar

1909058

Guðmundur Þór Jónsson óskar eftir því að breyta deiliskipulagi á Borgareyrum L163747. Svæðið sem breytingin nær yfir er um 8,0 ha. Breytingin felst í því að byggingarreitur B1 er felldur út og afmarkaðar tvær nýjar lóðir. Á lóð 1 verður heimilt að byggja það sem áður var heimilt á byggingarreit B1 skv. eldra skipulagi. Á lóð 2 eru ekki fyrirhugaðar neinar byggingar.
Deiliskipulagsbreytingin var grenndarkynnt nágrönnum að Svanavatni, Dalsseli og Bjarkarlandi. Ein athugasemd kom fram hjá eigendum Bjarkarlands og var hún í fjórum liðum. 1. Staðsetning mun valda ónæði og líklega ágangi á Bjarkarlandi. 2. Staðsetning takmarkar framtíðarmögluleika á nýtingu jarðarinnar vegna nálægðar við jarðamörk. Búast má við verulegum áhrifum á ásýnd eignar bankans og skuggavarp umn aukast. 3. Staðsetning umdeildra gestahúsa mun að öllum líkindum takmarka sölumöguleika jarðarinnar og þar með rýra verðmæti jarðar bankans. 4. Umdeild gestahús byrgja útsýni frá jörð bankans enda er gert ráð fyrir allt að fimm metra mænishæð.
Skipulagsnefnd bendir á að fyrirhuguð uppbygging á Borgareyrum er hófstillt, byggingar eru nálægt Hólmabæjarvegi og eru a.m.k. 25m frá landamerkjum. Girt er í landamerkjum og ekki er líklegt að ágangur verði af ferðafólki yfir þá girðingu. Nýjar byggingar í landi Borgareyra munu alltaf breyta ásýnd en fráleitt er að 5m háar byggingar, sem eru í rúmlega 1,1 km fjarlægð frá núverandi byggingum á Bjarkarlandi, byrgi útsýni frá Bjarkarlandi eða hafi áhrif á skuggavarp. Skipulagsnefnd telur ekki ástæðu til að bregðast frekar við þessum athugasemdum. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að deiliskipulagsbreytingu á Borgareyrum verði samþykkt og afgreidd skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Deiliskipulag; Ormsvöllur 10, óveruleg breyting

1911071

Sláturfélag Suðurlands óskar eftir breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér að sameina lóðirnar Ormsvöllur 10 L164250 og Ormsvöllur 10a, sem er skilgreind skv. gildandi deiliskipulagi fyrir Ormsvöll.
Að mati skipulagsnefndar er um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða. Skipulagsnefnd samþykkir breytinguna og leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði afgreidd skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin leggur til að fallið verði frá grenndarkynningu þar sem að breytingin varðar ekki hagsmuni annarra en framkvæmdaaðila og sveitarfélagsins.

9.Umsókn um stöðuleyfi; Seljalandsfoss

1911051

Seljalandsfoss ehf óskar eftir því að fá stöðuleyfi fyrir aðstöðugám/hús við Seljalandsfoss. Um er að ræða aðstöðuhús fyrir starfsmenn. Óskað er eftir stöðuleyfi frá 1. desember 2019 til 30. nóvember 2020.
Skipulagsnefnd samþykkir að veita stöðuleyfi frá 1. desember 2019 til 30. nóvember 2020.

10.Fljótshlíðarskóli; kaupsamningur

1912013

Við sölu á Fljótshlíðarskóla frá árinu 2005 er í kaupsamningi á milli aðila, annars vegar sveitarfélagsins Rangárþings eystra og hins vegar Fljótshlíðinga ehf, gert ráð fyrir 500 m2 viðbyggingu við hið selda skólahús.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu málsins og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að afla frekari gagna í málinu.

Fundi slitið - kl. 12:00.