Fundargerð
22. fundar fræðslunefndar, haldinn
mánudaginn 3. nóvember 2014 kl 16:30

Fundurinn er haldinn í risi Leikskólans Arkar
Mættir eru Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Hildur Ágústsdóttir, Birna Sigurðardóttir, Daníel Gunnarsson, Heiða Björg Scheving, Pálína Björk Jónsdóttir, Gina Christie í forföllum Majkenar J. Egumfeldt, Árný Jóna Sigurðardóttir, Unnur Óskarsdóttir, Margrét Jóna Ísólfsdóttir í forföllum Berglindar Hákonardóttur og Tómas Grétar Gunnarsson.

Dagskrá:
1. Skólastefna, kynning og umræður
Lesið var í gegnum skólastefnuna og gerðar tillögur að endurbótum.
 Æskilegt er að leikskólinn sé fimm deilda leikskóli, en spurningin er hvernig á að framfylgja því þar sem húsnæði leikskólans er takmarkandi. Rætt var um hvort tilgreina eigi að auka eigi val á miðstigi sérstaklega eða hvort auka eigi valið almennt og setja það svo í hendur skólastjórnenda og kennara að útfæra það.
Það þarf að leita leiða til þess að vinna með félagsfærni allra nemenda til þess að allir öðlist sterka sjálfsmynd, þar gætu bæði ART og Uppeldi til ábyrgðar verið góðar bjargir.
Athugasemd kom um það að hvergi koma raungreinar fram.
Eineltisáætlunin er í stöðugri þróun og er henni fylgt eftir í samvinnu við foreldrana. 
Umræður um aukið samstarf við framhaldsskóla og fjarnám. 
Í skólastefnunni eiga að vera markmið en skólarnir ættu sjálfir að útfæra leiðirnar að markmiðunum. 
Bæta þarf í skólastefnuna punktum um læsi og lestur og aðrar almennar bóklegar greinar. Vantar að koma því að að í framtíðarsýninni er vilji til að nálgast allt nám með skapandi hætti.
Ákveðið var að halda aukafund mánudaginn 17. nóvember til þess að klára vinnuna við skólastefnuna.

2. Leiðir í ytra mati á skólastarfi – umræður
Ekki eru til margar leiðir að ytra mati skólastarfs. Skólapúlsinn og Skólavogin, sem eru á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, sjá m.a. um ytra mat skólastarfs. 
Einnig er í gangi þróunarstarf sem er samstarfsverkefni á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Mennta- og menningarmálaráðuneytis sem heitir Ytra mat á grunnskólum – tillögur til mennta- og menningarmálaráðherra og skólamálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Umræður um það hvort skólastjórnendur þurfi ekki að taka afstöðu til þess hvort þeim þyki þörf á því að kaupa þjónustu við ytra matið utan frá eða hvort mögulega sé hægt að velja aðrar leiðir. Lagt er til að skólastjórnendur kynni sér hvað er í boði hvað varðar ytra mat, fyrir fund fræðslunefndar sem verður í janúar og taki ígrundaða ákvörðun. Möguleiki er að sveitarfélagið sjái um þetta sjálft

3. Önnur mál
Arnheiður sagði frá fundum sem hún hefur setið upp á síðkastið, m.a. Málþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, fundur með menntamálaráðherra þar sem hann kynnti Hvítbókina og Skólaþing FSu.
Birna sagði frá því að 13. nóvember verður Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Hvolsskóla. Opið hús verður í skólanum frá 8:15, 10. bekkur les uppúr Brennu- Njálssögu og nemendur annarra bekkja munu sjá um skemmtiatriði á milli auk þess sem skemmtiatriði koma líka úr samfélaginu.
Árshátíð yngsta stigs verður 27. nóvember.
4. nóvember verður fyrsti hluti skólafærninámskeiðs fyrir foreldra elstu deildar leikskólans. 


Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 19:12