Fundagerð Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefndar Rangárþings eystra

17. fundur Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefndar Rangárþings eystra var haldin í Pálsstofu, félagsheimilinu Hvoli, Austurvegi 8, Hvolsvelli miðvikudaginn 4. mars 2015 kl: 17:30


Mættir: Benedikt Benediktsson, Helga Guðrún Lárusdóttir, Bóel Anna Þórisdóttir, Helgi Jens Hlíðdal og Ólafur Örn Oddsson sem ritaði fundargerð. Hrafnkell Stefánsson forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar var gestur í fyrsta lið.

1)Íþróttamiðstöðin og málefni tengd henni –  Hrafnkell forstöðumaður íþróttahússins mætti. Hann fór yfir aðsóknartölur. Á síðasta ári 2014 mættu 37.675 gestir í sundlaugina sem var met ár. Aðsóknin í sundlaugina í ár virðist vera heldur minni en á sama tíma í fyrra. Ástæður þess geta verið mismunandi en líklegt má telja að veður hafi eitthvað með það að segja. Í líkamsræktina er búið að telja síðan í nóvember og eru að mæta um 40 manns á hverjum degi. Erfitt að telja í ræktina því húsnæði er óhentugt og margir gestir líkamsræktarinnar ganga beint upp án þess að tilkynna sig. Facebook síða íþróttamiðstöðvarinnar hefur verið opnuð og er stefnan að hafa hana virka og öfluga. 
Benedikt spurði um vatnshanavandamál og spurði hvers vegna vatnskraninn hafi verið tekinn niður í líkamsræktinni. Hrafnkell sagði að stórtjón gæti hlotist af ef þessi krani myndi bila og vatn flæða á gólfið upp.  Hann undraðist hönnun á hæðinni og hvers vegna það væri ekki niðurfall þar. Kraninn niðri lekur mikið og velur það slysahættu.  Hugmynd var að setja nýja vatnshana eða vaska. 
Ákveðið var að hætta sölu á sælgæti og gosi sundlauginni. Í stað þess verða ávextir til sölu. Þetta verður tilraunaverkefni fram á vor.
Vogir í búningsklefum hafa verið teknar úr sambandi á skólatíma til að koma í veg fyrir einelti en starfsfólk þarf að muna eftir því að setja þær í samband eftir að skólatíma lýkur. 
Jónas benti á að nýr hreinsibúnaður sem keyptur var fyrir ári síðan hefur ekki verið tengdur og heldur ekki myndavélarnar sem mynda ofan í sundlaugina. Helgi Jens spurði um dúk yfir sundlaugina og heita potta þar sem þeir virðast halda hita illa. Einnig ræddu fundarmenn að hitalagnir í gúmmímottum virðast ekki ná að bræða snjóinn. 
Starfsmannamál íþróttamiðstöðvarinnar fyrir sumarið eru í góðum farvegi. Vallar-starfsmaðurinn verður undir yfirmanni sundlaugarinnar og starfsmaður þar. Hrafnkell ræddi það vandamál að fólk virðist ekki þvo sér í sturtu áður en gengið er til laugar. Þetta vandamál fer vaxandi í sundlaugum á Íslandi sem ekki eru með sérstaka starfmenn inni í sturtuklefanum. 

Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefnd gerir það að tillögu sinni að hafist verður handa við gerð skipulags á íþróttasvæðinu við íþróttamiðstöðina.  Við teljum að tilvalið væri að boða til íbúafundar um skipulagningu.

Hrafnkell yfirgaf fundinn. 

2)Staðan í málaflokknum. Ólafur Örn fór yfir stöðuna og sagði m.a.frá því að auglýst hafi verið eftir verk- og flokkstjórum fyrir sumarið og að þau yrðu send á námskeið líkt og í fyrra. Ungmennaráð Rangárþings eystra fór og hitti ungmennaráð Ölfus. Markmið þessarar heimsóknar var að hitta annað ungmennaráð og skiptast á hugmyndum. Fundurinn var mjög góður og margar hugmyndir komu þar fram. Ólafur fer með þrjú ungmenni úr ungmennaráði á Ungmennaþing í Stykkishólmi 25. - 27. Mars og að um 50 unglingar væru að fara á Samfés núna um helgina. Svo sagði Ólafur frá hugmyndum sínum um námskeið fyrir miðstig og ratleik sem fyrirhugaður er í sumar. 

3)Fundargerðir ungmennaráðs – Fundargerðir frá 7. nóvember og 23. janúar samþykktar.

4)Hjólabrettaaðstaða – Ákveðið var að Ólafur Örn skyldi boða til íbúafundar varðandi hjólabrettaaðstöðu.

5)Fjölskyldustefna sveitarfélagsins – Ólafur sagði frá þeirri vinnu sem hann hefur verið í að búa til fjölskyldustefnu sveitarfélagsins. Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefnd las yfir þann hluta sem lúta að þeim þ.e. ,,Íþróttir og tómstundir“ og ,,Lýðheilsu“. Engar athugasemdir voru gerðar.

6)Samningar við íþróttafélög -  Frestað


7)Önnur mál. 
Helgi Jens benti á að það þyrfti að koma betra skipulagi á óskilamuni í íþróttahúsi og kom með hugmynd af skúffum.  Í framhaldinu barst talið að starfsmannaaðstöðunni og þótti hún ekki góð. Einnig væri gott að fá þurraðstöðu og handklæðaofn. 
Bóel Anna vildi fá álit nefndarmanna á aldursmörkum í líkamsræktinni. Aldurtakmarið er 9. bekkur og eftir miklar umræður var ákveðið að halda því áfram. 

Fundi slitið kl: 20:10.