Kæru íbúar Rangárþings eystra.

Þetta eru svo sannarlega skrítnir tímar hjá okkur þessa stundina. Okkur öllum hefur verið falið stórt verkefni til að kljást við. Þetta er verkefni sem ég fullyrði að við vildum vera laus við, en því miður höfum við ekkert val. Við höfum heldur ekkert val um annað en að vinna þetta verkefni saman. Ég kvíði því ekki. Við erum gríðarlega öflug þegar við öll sem eitt tökum höndum saman. Þá getum við tekist á við ótrúlegustu hluti. Við þurfum öll að gera breytingar á okkar hefðbundnu rútínu. Það getur stundum reynst erfitt, en þá getur maður líka horft til þess að um tímabundnar ráðstafanir er að ræða. Lóan er komin, fyrstu lömbin komin í Fljótshlíðinni og sólin hækkar á lofti með hverjum deginum. Þannig að einn góðan veðurdag verður þetta allt að baki.

Forstöðumenn sveitarfélagsins hafa unnið hörðum höndum að því undanfarna daga að skipuleggja vikuna, þannig að sem minnst rask verði á hefðbundnu starfi. Vissulega er um einhverja skerðingu á þjónustu að ræða, en allir eru tilbúnir að gera sitt besta til að halda hjólunum gangandi. Hins vegar breytast hlutirnir hratt og því getur verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða með stuttum fyrirfara.

Sveitarfélagið hefur unnið bæði viðbragðs og aðgerðaráætlun, sem staðfestar voru á fundi byggðarráðs Rangárþings eystra í dag, þann 17. mars 2020, og hvetjum við alla til þess að kynna sér þær, en þær má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins www.hvolsvollur.is

Helstu upplýsingar til íbúa úr aðgerðaráætlun sveitarfélagsins eru eftirfarandi:

Fyrir eldriborgara:
Markmið breytinganna á þjónustu við eldri borgara er að vernda hópinn sem er í mestri áhættu fyrir smiti vegna Covid-19, skv. leiðbeiningum landlæknis. Það er m.a. gert með því að draga úr samgangi fólks og huga vel að því á hvernig stöðum/svæðum fólk kemur saman.

Útgangspunktur okkar allra er að loka ekki á alla þjónustu, félagsstarf eða starfsemi, heldur finna leiðir til að veita þjónustu eða bregðast við aðstæðum með því að fara aðrar leiðir, eftir því sem hægt er.

Hjúkrunar- og dvalarheimlið Kirkjuhvoll:
Stjórnendur Kirkjuhvols hafa tekið þá ákvörðun að loka hjúkrunarheimilinu fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með 6. mars 2020 þar til annað verður formlega tilkynnt. Er þetta gert að höfðu samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir.

Verið er að tryggja órofinn rekstur stofnunarinnar með því að deildarskipta starfseminni og starfsfólki. Einnig er unnið samkvæmt áætlun til að hefta smitleiðir sem allra mest. Upplýsingar um frekari breytingar á starfsemi Kirkjuhvols er að vænta.

Heilsuefling 60+
Tímar með þjálfara í líkamsræktarstöð Rangárþings eystra hefur verið aflýst þar til annað verður ákveðið.

 • Þjálfari mun þess í stað senda þátttakendum verkefnisins æfingar til að stunda heima.
 • Rangárþing eystra leitast við að hafa vel mokaða og sandaða stíga til að allir geti stundað útivist. 

Félagsstarf eldriborgara:
Mikil röskun er á félagsstarfi eldriborgara.

 • Handavinna eldri borgara hefur verið frestað um óákveðin tíma
 • Spil eldriborgara á fimmtudögum hefur verið frestað um óákveðin tíma.
 • Kór eldriborgara hefur gert hlé á æfingum um óákveðin tíma.
 • Boccia-tímar í íþróttahúsi hafa verið felldir niður um óákveðin tíma.

Skrifstofa Rangárþings eystra:
Rangárþing eystra og fyrirtæki sem eru með aðstöðu í húsnæði sveitarfélagsins að Austurvegi 4, beina þeim tilmælum til íbúa að heimsóknir á skrifstofurnar verði í algeru lágmarki og almenningur komi ekki nema að brýn nauðsyn sé fyrir heimsókn. 

Við bendum á að lang flest erindi er hægt að afgreiða með símtali, tölvupósti eða fjarfundi.

Unnið er að því að gera alla starfsmenn skrifstofunnar í stakk búna til að vinna sín störf í fjarvinnu. Stjórnendur og starfsmenn skipta með sér að vinna heiman frá og á skrifstofu og funda eingöngu í fjarfundi til að lágmarka hættu á að rof verði á rekstri.

Komið getur til algjörrar lokunar á skrifstofuhúsnæði.

Áhaldahús:
Heimsóknir óviðkomandi bannaðar með öllu um óákveðinn tíma. Starfsmönnum skipt upp í vaktir, til að tryggja órofinn rekstur. 

Hvolsskóli:
Skólahald í Hvolsskóla er með verulega breyttu sniðu. 1.-4. bekkur verður alla daga í skólanum en 5. og 6. bekkur mæta til skiptis í skólann. Öll kennsla í 7.-10. bekk mun fara fram í fjarnámi. Nánari upplýsingar um fjarnám verða sendar foreldrum og nemendum í tölvupósti.

Skólaskjól verður ekki opið þriðjudaginn 17. mars. Framhaldið er óljóst eins og staðan er núna.

Eftirfarandi breytingar eru hjá þeim börnum sem koma í skólann:

 • Það verður ekki boðið upp á hafragraut neina morgna, en ávaxta stund og hádegismatur verður í boði. Þó með breyttu sniði, mismunandi bekkir koma ekki á sama tíma í matsal.
 • Stundatöflur breytast lítillega yfir daginn, þ.e. tímasetningar kennslustunda og matartíma svo eitthvað sé nefnt.
 • Nemendur verða nánast alfarið í einni stofu og á útisvæði þann tíma sem þeir eru í skólanum. Einn hópur í einu fer í matsalinn að borða.
 • Faggreinakennarar koma því inn í stofurnar og einungis einn hefur það hlutverk að vera með hverjum bekk.
 • Íþróttakennarar koma inn í stofur eða verða með nemendur úti í íþróttatímum.
 • Foreldrar beðnir um að senda börnin ekki of snemma af stað því ekki er hægt að opna húsið fyrr en rétt um kl 8.

 

Nánari upplýsingar eru sendar foreldrum með tölvupósti. Athugið að skipulag skólahalds getur breyst með skömmum fyrirvara og foreldrar eru því beðnir um að fylgjast vel með tölvupósti.

Leikskólinn Örk:
Lagt er upp með að takmarka sem allra mest blöndun milli deilda, til að forðast að loka þurfi öllum leikskólanum komi upp smit á einni deild. Börn foreldra sem starfa á heilbrigðisstofnunum og viðbragðsaðila eru í forgangshópi og verða látin gangi fyrir í vistun, komi til þess að senda þurfi börn heim.

Breyting á ferlum/vistun sem tengjast forráðamönnum og börnum:

 • Leikskólinn lokar 16:15 í stað 16:30. Foreldrar þurfa að vera búnir að sækja börnin sín fyrir þann tíma.
 • Einungis foreldrar mega koma með og sækja börnin sín, systkini mega ekki fara milli húsa og því þurfa foreldrar að huga að því í tíma ef þarf að sækja systkini. Eldri systkini , ömmur og afar og aðrir aðstandendur mega ekki koma með eða sækja börnin um óákveðin tíma. 
 • Ef foreldrar vilja/geta haft börnin sín heima þá er hægt að fá niðurfellingu á leikskólagjöldum á móti, ef barn er í frí viku í senn (1-4 vikur). Tilkynna skal leikskólastjóra á netfangið solbjort@hvolsvollur.is ef barn á að vera í fríi.
 • Skólabílaakstur leikskólabarna fellur niður. 
 • Fundarhöld verða í algjöru lágmarki og fundir skulu fara í gegnum fjarfund ef möguleiki er á því.
 • Aðlaganir nýrra barna frestast um óákveðin tíma.
 • Ekki verður farið í íþróttahús, bókasafn eða aðrar stofnanir
 • Innidagur eftir veikindi barna í leikskólanum verður felldur niður um óákveðin tíma. Við biðlum til foreldra að ef veikindi eru á heimili að koma ekki með börnin í leikskólann þann daginn.
 • Ef mikil forföll / veikindi er á einni deild af starfsfólki þarf jafnvel að grípa til heimsendinga barna. Börn forgangshópa ganga fyrir með vistun. 
 • Miðað er við að ekki séu fleiri en 20 börn á deild hverju sinni og þessa vikuna þurfum við ekki að grípa til hópaskiptinga barna.
 • Deildir skipuleggja útiveru og blandast hópar ekki.
 • Starf verður ekki með hefðbundnum hætti en við gerum okkar besta í þessum fordæmalausu aðstæðum.

Unnið er samkvæmt ákveðnum ferlum sem tengjast starfsmönnum, útgefnum af leikskólastjóra, til að tryggja órofinn rekstur og rjúfa smitleiðir.

Athugið að skipulag skólahalds getur breyst með skömmum fyrirvara og foreldrar eru því beðnir um að fylgjast vel með tölvupósti.

Tónlistarskóli:
Forskólakennsla og aðrir hópatímar eru felldir niður fram yfir páska. Einstaklingskennslan verður öll sett yfir í fjarkennslu en svo vel vill til að allir kennarar skólans hafa nýverið farið í gegnum námskeið varðandi slíka kennslu. Kennarar skólans munu vera í nánu sambandi við nemendur og foreldra til þess að halda utanum heimanámið og æfingarnar.

Íþróttamiðstöð:
Þrif á snertiflötum hafa verið aukin, sótthreinsir aðgengilegur í opnum rýmum, klósettum og líkamsrækt.

Settar hafa verið takmarkanir á fjölda gesta og þjónustu til að lágmarka hættu á smiti milli gesta.

 • Hámarksfjöldi gesta í líkamsrækt 8 manns.
 • Hámarksfjöldi gesta í hverjum heitum potti 4 manns.
 • Hámarksfjöldi gesta í vaðlaug 8 manns.
 • Hámarksfjöldi gesta í sundlaug 15 manns.
 • Hámarksfjöldi gesta í kalda karið 1 manneskja.
 • Gufubað er lokað um óákveðinn tíma.
 • Búningsklefum fyrir líkamsrækt hefur verið lokað um óákveðinn tíma.
 • Grunn- og leikskóli munu ekki nýta sér íþróttamiðstöð til íþrótta- og sundkennslu, þar til annað verður ákveðið.

Félagsmiðstöðin Tvisturinn:
Búið er að fresta öllum skipulögðum viðburðum á vegum félagsmiðstöðvarinnar.

Starfsemi félagsmiðstöðvar mun liggja niðri þar til annað verður ákveðið.

Héraðsbókasafn:
Þjónusta við Hvolsskóla verður með breyttu sniði, þar sem börn úr skólanum mega ekki heimsækja bókasafnið.

Opnunartími fyrir almenning helst óbreyttur. Verið er að skoða útfærslu á heimsendingu bóka til eldriborgara og viðkvæmra hópa.

Félagsheimili:
Öll félagsheimili sveitarfélagsins eru opin fyrir bókanir, sóttvarnir hafa verið auknar en biðjum við fólk að fara með gát. Komið getur til lokunar á félagsheimilum með stuttum fyrirvara.

 • Um allar samkomur 100 manna og fleiri gildir samkomubann sem virkjað hefur verði  skv. heimildum sóttvarnarlaga, sett af heilbrigðisráðherra.
 • Flestum viðburðum, fundum og veislum hefur verið frestað eða aflýst.
 • Sveitarfélagið hefur ákveðið að rukka ekki gjald fyrir þá viðburði sem þarf að aflýsa, jafnvel þó það sé gert með mjög stuttum fyrirvara.

Félags- og skólaþjónusta:
Líkt og aðrar stofnanir fylgir Félags- og skólaþjónustan leiðbeiningum og ákvörðunum stjórnvalda frá degi til dags. Eftirfarandi ráðstafanir hafa verið gerðar: 

 • Allir þjónustuþættir félagsþjónustu eru virkir; barnavernd og grunnþjónusta sveitarfélaganna sem er undir verkstjórn og á ábyrgð hennar, þ.e. félagsleg heimaþjónusta, liðveisla og akstursþjónusta.
 • Starfsmenn félagsþjónustu vinna á vöktum til skiptis á skrifstofu og heima til að tryggja órofinn rekstur.
 • Takmörkun á heimsóknum skjólstæðinga á skrifstofu félagsþjónustunnar, lagt upp með að leysa erindi með síma, tölvupósti og fjarfundi.
 • Öll lögbundin þjónusta skólaþjónustunnar við skóla, foreldra og nemendur er virk en ráðgjafar koma eingöngu í skólana ef brýna nauðsyn ber til.
 • Uppskeruhátíð Stóru upplestrarkeppninnar hefur verið frestað.
 • Frestað er fundum sem ekki eru brýnir og frekar notast við fjarfundi, símafundi og tölvupóst.

 

Nýjustu upplýsingum verður komið til íbúa á heimasíðu sveitarfélagsins, stofnana, facebook og í sumum tilfellum tölvupósti. Eins og áður hefur komið fram getur orðið breyting á þjónustu með mjög skömmum fyrirvara. Stöndum saman, sýnum hvort öðru kærleika og væntumþykju og vinnum þetta verkefni saman sem heild.

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri.