Mannamót er árleg ferðakaupstefna sem haldin er af Markaðsstofum landshlutanna og að þessu sinni fór viðburðurinn fram fimmtudaginn 18. janúar. Mannamót markaðsstofanna er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni.

Markmið og tilgangur viðburðarins er að skapa vettvang þar sem landsbyggðarfyrirtæki fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpa til við að mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar. Gestum á Mannamótum gefst kostur á kynna sér það sem mismunandi landshlutar eru að bjóða uppá.

Dagarnir 16. – 18. janúar 2024 voru helgaðir ferðaþjónustu, kallaðir Ferðaþjónustuvikan 2024, og voru hinir ýmsu viðburðir í boði þessa daga sem náði svo hámarki með Mannamótum. 

Aðstandendur Ferðaþjónustuvikunnar eru Markaðsstofur landshlutanna, Íslenski ferðaklasinn, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Íslandsstofa.

Aldrei hafa fleiri sýnendur verið á svæðinu og voru ferðaþjónustuaðilar af Suðurlandi með flotta sýningabása sem vöktu athygli. Rangárþing eystra átti sína fulltrúa í Southcoast Adventure, Midgard, Hótel Fljótshlíð, Volcano trails, Brú cottages, Skógasafn og Freya café.

Hér eru nánari upplýsingar um Mannamót