Á 249. fundi sveitarstjórnar Rangárþings eystra var eftirfarandi bókun samþykkt varðandi kolefnisspor sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkir að Rangárþing eystra láti reikna út kolefnisspor sitt, í rekstri sveitarfélagsins, og setji sér síðan áætlun um kolefnisjöfnun. 

Með kolefnisjöfnun er átt við að losun sveitarfélagsins á CO2 vegna reksturs verði mætt og jöfnuð út með bindingu á kolefni í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og öðrum endurheimtaraðgerðum. 
Með endurheimt vistkerfa er m.a. átt við uppgræðslu rofins lands, endurheimt birki- og víðikjarrs og endurheimt votlendis. Uppgræðsla lands felur í sér, allt eftir aðstæðum, áburðargjöf með eða án sáninga og gróðursetningu trjáplantna. Endurheimt votlendis felur í sér að hækka grunnvatnsstöðu raskaðra votlenda og stöðva þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Endurheimt vistkerfa hefur jákvæð áhrif á gróður og jarðveg, dýralíf, almennt heilbrigði vistkerfa (vatnsbúskap, næringarástand) sem og upplifun fólks sem um þau fara. Allar þessar aðgerðir stuðla að jákvæðri þróun loftslags m.t.t. gróðurhúsalofttegunda. 

Samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að vinna að málinu.