Eins og undanfarin ár stóð til að halda mikla hátíð í Hvolsskóla á Degi íslenskrar tungu. Nemendur í 10. bekk hafa æft sig í að lesa Njálu en hefð er fyrir því að á þessum degi er bókin lesin frá upphafi til enda. Nemendur í öðrum bekkjum skólans hafa svo verið með atriði inn á milli til að brjóta aðeins upp dagskrána og þá fá upplesarar smá hvíld á meðan. Dagur íslenskrar tungu er einnig upphafsdagur formlegs undirbúnings fyrir Stóru upplestrarkeppnina í 7. bekk en nemendur bekkjarins hafa, undanfarin ár, flutt ljóðið Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson.  

Að þessu sinni fellur dagskráin niður vegna þeirra aðstæðna sem við glímum nú við í þjóðfélaginu. Nemendur og kennarar eru þó ekki af baki dottnir og til stendur að halda upp á daginn síðar enda búið að leggja ómælda vinnu í undirbúningin. Þegar að því kemur er hugmyndin sú að streyma dagskrárliðum á lokaðri facebook síðu þannig að t.a.m. foreldrar og forráðamenn geti notið viðburðarins og séð börn sín koma fram.