Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 8. febrúar 2024.

Að venju stikla ég hér á stóru um nokkur af þeim helstu verkefnum sem við hjá Rangárþingi eystra erum að fást við þessa dagana. Árið fer vel af stað og tími þorrablóta í sveitarfélaginu alls ráðandi.

Sorpbrennslustöð Ferropower í Finnlandi

Undirritaður fór fyrir hönd Sorpstöðvar Suðurlands í skoðunarferð til Finnlands dagana 18. – 20. janúar. Tilgangur ferðarinnar var að skoða sorpbrennslustöð sem rekin er af fyrirtækinu Ferropower í bænum Orimattila norður af Helsinki. Aðrir aðilar frá Íslandi sem tóku þátt í ferðinni voru m.a. frá Sorpstöð Rangárvallasýslu, SORPU, Terra og Sorporku. Um er að ræða spennandi kost sem hingað til hefur ekki verið markaðnum. Stöðin í Finnlandi er í einkaeigu og framleiðir heitt vatn sem nýtt er til kyndingar fyrirtækisins og umfram orka er seld inn á hitaveitu bæjarins. Stöðin hefur verið starfrækt undanfarin 4 ár án vandkvæða og uppsett afl hennar um 1M/w og getur brennt frá 1000 til 2500 tonnum af óendurvinnanlegu heimilissorpi á ári. Til samanburðar þá fellur til hjá Sorpstöð Rangárvallasýslu um 600 tonn árlega af óendurvinnanlegum úrgangi sem fluttur er til Evrópu til brennslu og þar með orkunýtingar. Stöðin uppfyllir öll ströngustu viðmið varðandi mengunarvarnir og spilar því stóra rullu er varðar hringrásarhagkerfið. Óformlegar viðræður hafa átt sér stað milli Sorpstöðvar Rangárvallasýslu og Veitna varðandi nýtingu á heitu vatni sem stöðin framleiðir. Um er að ræða virkilega spennandi kost sem æskilegt væri að skoða nánar og horfa þá til frekari uppbyggingar og þróunar á starfssvæði Sorpstöðvar Rangárvallasýslu og Suðurlands í heild.

Útboð á uppbyggingu bílastæðis við Skógafoss

Nú hefur Rangárþing eystra auglýst eftir tilboðum í gerð nýs bílastæðis við Skógafoss. Um talsvert stóra framkvæmd er að ræða sem mun verða svæðinu í kringum Skógafoss til verulegs framdráttar. Skv. talningum Umhverfisstofnunar komu um 1,2 milljónir ferðamanna að Skógafossi árið 2023. Núverandi bílastæði og aðbúnaður á þeim ráða engan veginn við þann fjölda sem nú þegar sækir staðinn heim. Hið nýja bílastæði er hannað á grundvelli gildandi deiliskipulags sem staðfest var í desember 2017. Hönnun svæðisins er gerð að Landslagi ehf. og Eflu verkfræðistofu og gerir ráð fyrir 189 fólksbílastæðum, 14 bílastæðum fyrir stærri bíla og 18 stæðum fyrir rútur. Auk gerð bílastæða er einnig gert ráð fyrir fyrsta áfanga í endurbótum á fráveitukerfi fyrir þéttbýlið í Skógum í sömu framkvæmd. Gert verður ráð fyrir gjaldtöku á nýju bílastæði og verður gjald nýtt til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu t.d. til gatnagerðar, landvörslu, göngustígagerðar, salernisaðstöðu og almenns rekstur svæðisins. Viðræður hafa átt sér stað við fyrirtækið Parka lausnir varðandi fyrirkomulag og útfærslu á gjaldtöku. Parka sér nú þegar um gjaldtökulausnir fyrir stærstan hluta ferðamannastaða og landinu. Gert er ráð fyrir að frarmkvæmdum við nýtt bílastæði verði að fullu lokið ekki síðar en 15. september 2024.

Greining á húsnæðisþörf Hvolsskóla

Síðastliðið haust samþykkti Rangárþing eystra að gerð yrði greining á húsnæðisþörf Hvolsskóla til framtíðar. Samið var við ráðgjafafyrirtækið KPMG um greininguna. Starfsmenn fyrirtækisins fóru í vettvangsskoðun í Hvolsskóla þann 17. janúar. Einnig var fundað með skólastjórnendum og viðkomandi forstöðumönnum til þess að safna sem bestum upplýsingum um núverandi stöðu. Markmið verkefnisins er að leggja mat á húsnæðisþörf Hvolsskóla til næstu framtíðar. Rýnt verður í núverandi umfang húsnæðis, nemendafjölda, þróun nemendafjölda síðustu ára og spáð um þróun til framtíðar. Út frá þeim niðurstöðum getur sveitarfélagið lagt mat á þörf fyrir auknu byggingarmagni og breytingum á húsnæði. Áætlað er að niðurstöður KPMG liggi fyrir nú í febrúar og verða kynntar strax í kjölfarið.

Heimavistarmál við Fsu

Í september 2019 undirrituðu sveitarfélög á Suðurlandi undir sameiginlega ályktun þar sem skorað var á mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að rekin yrði heimavist við Fsu. Það skilaði þeim árangri að á haustdögum 2020 náðust samningar um rekstur heimavistar við skólann. Ásókn í heimavistina hefur verið góð og meiri heldur en rými leyfir. Heimavist við skólann er algjörlega nauðsynleg til þess að jafna stöðu nemenda við skólann. Talsverður fjöldi nemenda úr Rangárþingi eystra hefur nýtt sér úrræði heimavistar sem hefur gengið að mestu leyti vel. Undirritaður var skipaður í vinnuhóp á vegum SASS varðandi málefnið og hefur hópurinn fundað með ráðherrum og öðrum aðilum er koma að málinu og þrýst á að hafist verði strax handa við undirbúning byggingu nýrrar heimavistar á lóð Fsu. Í millitíðinni er nauðsynelgt að heimavist verði rekin með svipuðu móti og hingað til þ.e. með leigu á húsnæði. Nú er hins vegar svo komið að samningur um rekstur heimavistarinnar rennur út á vordögum 2024 og engar ráðstafanir hafa verið gerðar til tryggja nemendum sem þess þurfa húsnæðisúrræði fyrir næsta skólaár. SASS hefur nú þegar ályktað varðandi málið og tek ég heils hugar undir það sem þar kemur fram „Heimavist við skólann er lykilatriði í því að tryggja jafnrétti til náms á starfssvæði skólans og því með öllu óviðunandi að ríkið skuli bjóða ungmennum og fjölskyldum þeirra upp á þá óvissu sem nú er uppi.“

Snjómokstur

Eins og allir íbúar Rangárþings eystra hafa eflaust tekið eftir, hefur snjóað nokkuð hressilega á okkur upp á síðkastið. Starfsmenn sveitarfélagsins og verktakar hafa því verið í óða önn að sinna snjómokstri. Eins og gefur að skilja getur tekið talsverðan tíma að komast yfir alla þá vegi, gangstéttar og plön sem þarfnast moksturs. Unnið er eftir ákveðnu verklagi þar sem áhersla er lögð á að moka þá vegi og stíga sem hvað mest mæðir á til samgangna og svo koll af kolli. Það getur því reynt á þolinmæði að bíða eftir mokstri, en þega allir leggjast á eitt þá gengur dæmið upp að endingu. Að sjálfsögðu eru allar ábendingar er varða hvað mætti betur fara við mokstur vel þegnar og reynt að bregðas við eftir fremsta megni. Það hefur aðeins borið á því að það hafi tafið talsvert fyrir mokstri gatna og gangstíga í þéttbýli að ökutækjum er lagt út í kant eða upp á gangstíga og vil ég því hvetja fólk til að huga að sínum ökutækjum þegar tíðin er líkt og hún er nú þessa dagana.

Að lokum

Þó svo að veturinn haldi okkur í heljar greipum þessa dagana er ástæðulaust að örvænta. Dagurinn hefur nú þega lengst um 3 klst frá því hann var styðstur. Því er líka um að gera að nýta þessa fallegu daga sem framundan eru til fjölbreyttrar útivistar hvort sem það er á skíðum, sleða, skautum já og njóta þess að vera úti í náttúrunni.

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra