Í febrúar sl. var ákveðið að fara í nafnasamkeppni fyrir tvær nýjar götur á Hvolsvelli. Annars vegar er um að ræða götuna við nýja leikskólann og hinsvegar götuna sem verður í nýjum miðbæ.

Margar og fjölbreyttar tillögur bárust og það var úr vöndu að ráða fyrir Skipulags- og umhverfisnefnd að velja götuheitin. Á endanum var sú ákvörðun tekin að gatan við leikskólann mun heita Æskuslóð og gatan í nýjum miðbæ, Bæjarbraut.

Nafnið Æskuslóð kemur frá Jónasi Bergmann Magnússyni en nafnið Bæjarbraut er tillaga frá Oddi Árnasyni. Þeim voru færð blóm og viðurkenningaskjal sem þakklæti fyrir sínar tillögur.

Öllum þeim sem tóku þátt og sendu inn sínar tillögur eru færðar kærar þakkir fyrir þátttökuna.