Sýningin Margt verður til í kvenna höndum var opnuð í gær, laugardaginn 24. september, í félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð. Sýningin er sett upp af Kvenfélaginu Einingu í Hvolhrepp en þar má finna handverk sem allt hefur verið unnið með nál sem og verkfæri sem notuð hafa verið til sauma. Sýningin verður opin frá kl. 12 - 18, laugardaga og sunnudaga til 9. október. Einnig verður hægt að taka á móti hópum á virkum dögum.

Margrét Guðjónsdóttir, formaður kvenfélagsins, hélt stutta ræðu í tilefni opnunarinnar og Margrét Tryggvadóttir sem átti hugmyndina að sýningunni kom með nál í pontu og sýndi gestum að margur er knár þótt hann sé smár og nálin hefur unnið kraftaverk í hundruð ára.

Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir færði kvenfélaginu blóm fyrir hönd Sambands sunnlenskra kvenna og hrósaði kvenfélagskonum eindregið fyrir þessa stórglæsilegu sýningu.

Þrír ættliðir kvenna sem ættaðar eru frá Ásólfsskála og Miðtúni komu og sungu nokkur lög en það voru þær Þorgerður Jóna Guðmundsdóttir, Sigríður Karólína Viðarsdóttir og systurnar Oddný og Freyja Benónýsdætur og Margrét Ósk Guðjónsdóttir. Guðjón Halldór Óskarsson spilaði undir á píanó.

Stór hópur fólks var klætt þjóðbúningum í tilefni af opnuninni og þar var m.a. fjölskylda Ragnhildar Birnu Jónsdóttur á Hvolsvelli en hún hefur saumað þjóðbúninga á alla stórfjölskylduna.

Sýningin verður opin um helgar til 9. október eins og áður segir og mælum við eindregið með því að fólk leggi leið sína í Fljótshlíðina og skoði þessi fjölbreyttu og fallegu handverk.

Konur úr Kvenfélaginu Einingu sem hafa lagt mikla vinnu í að koma upp sýningunni

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri, og Margrét Guðjónsdóttir, formaður Kvenfélagsins Einingar.

 Gestir á opnuninni