Tekið af heimasíðu Eiðfaxa

Elvar Þormarsson er knapi ársins en valið var kunngjört á Uppskeruhátíð Landsambands hestamanna laugardaginn 18. nóvember sl.

Í umsögn Landssambandsins segir:

„Árangur Elvars á árinu 2023 var ótrúlegur. Hæst ber að nefna einstakan árangur á Heimsmeistaramótinu í Hollandi 2023 þar sem hann og Fjalladís áttu frábæra spretti í gæðingaskeiði og hlutu einkunnina 8.92 en þau sigruðu einnig 250m skeið í eftirminnilegum lokaspretti og eru því tvöfaldir heimsmeistarar. Þau sigruðu gæðingaskeið á Íslandsmóti í þriðja skipti með einkunnina 9.0! Elvar Þormarsson er einstakur afreksknapi, sönn fyrirmynd fyrir elju sína, jákvæðni og fagmennsku í hvívetna og hlýtur hann því nafnbótina; Knapi ársins 2023.“

Elvar hefur hlotið nafnbótina íþróttamaður ársins í Rangárþingi eystra sl. tvö ár og í umsögnum er ávallt talað um hversu mikil fyrirmynd hann er fyrir aðra knapa sem og aðra íþróttamenn.

Þetta voru ekki einu verðlaun Elvars á Uppskeruhátíðinni en hann ásamt foreldrum sínum og eiginkonu tók við verðlaunum fyrir Keppnishestabú ársins fyrir Strandarhjáleigu. Í umsögn Landssambandsins um hestabúið segir:

„Hross frá Strandarhjáleigu hafa á árinu litað mótahald í Íslandshestaheiminum með glæsibrag. Hrossin frá Strandarhjáleigu gerðu það gott á sínum mótum víðsvegar um heiminn. Má þar nefna t.d Þýskaland, Sviss, Noreg, Frakkland, Danmörk, Austurríki, Heimsmeistaramótið í Hollandi og hér heima á Íslandi. Strandarhjáleiga ræktar afburðagóð keppnishross sem ná árangri í keppni á öllum sviðum og hlýtur nafnbótina Keppnishestabú ársins 2023.“

Félagi Elvars í Hestamannafélaginu Geysi, Jón Ársæll Bergmann, hlaut svo titilinn Efnilegasti knapi ársins en Jón Ársæll átti frábært mótsár og toppaði árangurinn með að verða tvöfaldur heimsmeistari. Í umsögn Landssambandsins segir:

„Jón Ársæll náði á árinu frábærum árangri í mörgum greinum hestaíþróttanna. Hann er tvöfaldur heimsmeistari þar sem hann sigraði fjórgang og samanlagðar fjórgangsgreinar en hann er einnig fjórfaldur Íslandsmeistari þar sem hann sigraði fjórgang, samanlagðar fjórgangsgreinar, tölt og 250m skeið. Hann var einnig í öðru sæti í flugskeiði á Íslandsmóti.“

Rangárþing eystra óskar verðlaunahöfum uppskeruhátíðarinnar innilega til hamingju.