- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Vikuna 17. – 21. nóvember stendur yfir jafnréttisvika í Hvolsskóla. Ár hvert er haldin jafnréttisvika í skólanum þar sem nemendur taka þátt í viðburðum og fræðslu frá mismunandi samtökum um ýmislegt er viðkemur jafnrétti. Jafnréttiskennsla er í dag hluti af námsskrá fyrir mið- og elsta stig í grunnskólum og er virkilega vel staðið að þeirri kennslu í Hvolsskóla.
Rangárþing eystra reynir að vera framarlega er kemur að jafnrétti sinna íbúa. Jafnréttisráð er starfrækt og vinnur eftir jafnréttisstefnu sveitarfélagsins, lesa má jafnréttisáætlun Rangárþings eystra hér.
En hvað er jafnrétti? Jafnrétti er þegar allir einstaklingar hafa sömu réttindi, tækifæri og virðingu – óháð kyni, kynhneigð, uppruna, trú, fötlun, aldri, félagslegri stöðu eða öðrum þáttum.
Að ná fullkomnu jafnrétti er ærið verkefni en það er verkefni sem vert er að vinna að. Jafnréttisráð tekur við öllum ábendingum íbúa um hvar og hvernig megi auka jafnrétti í Rangárþingi eystra; hægt er að senda ráðinu póst á netfangið hvolsvollur@hvolsvollur.is.
Eitt af því sem sveitarfélagið hefur gert til að auka jafnrétti í sveitarfélaginu er að gera samning við Samtökin 78 sem koma með fræðslu til nemenda og starfsfólks sveitarfélagsins um jafnrétti hinsegin fólks. Samkvæmt þeim samningi fá allir íbúar Rangárþings eystra aðgang að ráðgjöf samtakanna endurgjaldslaust. Hægt er að óska eftir ráðgjöf hér.
Einn hluti af jafnréttisviku Hvolsskóla er að fá Styrktarfélagið Kraft, sem er félag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein, til sín og bjóða nemendum að perla armbönd sem Kraftur selur svo til styrktar sinni starfsemi. Kvenhópurinn Lady Circle stendur svo fyrir samskonar viðburði í dag kl 18 í Hvolnum þar sem íbúum gefst tækifæri til að koma saman og perla fyrir Kraft.
Jafnréttisráð hvetur íbúa til að kynna sér jafnréttisáætlun sveitarfélagsins, nýta sér þá fræðslu sem í boði er og koma saman í dag og perla fyrir Kraft.