- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Ratleikur Rangárþings eystra er skemmtilegur leikur þar sem allir geta tekið þátt. Leikurinn er hafinn og stendur til 27. ágúst. Engin flögg, engin göt og ekkert vesen!
Um er að ræða átta skemmtileg svæði í Rangárþingi eystra sem ættu að höfða til flestra. Við hvern stað eru góð bílastæði og því tilvalið að leggja bílnum og leika sér aðeins nú eða fara í fjallgöngu, eftir því sem við á. Staðirnir eiga það sameiginlegt að þar er hægt að njóta samveru saman.
Við hvern stað skal taka mynd af sér og senda myndina á heilsueflandi@hvolsvollur.is merkta nafni.
Dregið verður úr innsendum myndum, því fleiri staðir því meiri líkur á vinning. Úrslit verða tilkynnt á Kjötsúpuhátíðinni 28. ágúst.
Gönguleiðir og svæði ratleiksins 2021 má sjá hér.
Lava- Eldfjalla og Jarðskjálftamiðstöðinn er fjölbreytt afþreyingar- og upplifunarmiðstöð helguð þeim gríðarlegu náttúruöflum sem hófu að skapa Ísland fyrir nærri 20 milljón árum síðan. Ný sýning sem tengist eldgosinu við Fagradalsfjall hefur opnað sem og nýr gangur sem er tileinkaður gosinu auk fjölda annarra upplýsinga.
Það verður enginn svikinn af því að koma við í Ísbúðinni Valdísi og fá sér eina kúlu eða tvær. En svo bjóða þau upp á ýmislegt fleira en bara kúluís, þar er einnig hægt að fá sjeika, gæðinga, kaffi, heitt súkkulaði og belgískar vöfflur.
Ef eitthvað er að marka þá veðurspá sem er fyrir sveitarfélagið um helgina verður alveg tilvalið að koma við í Valdísi og kæla sig niður.
Í sveitabúðinni Unu getur þú fundið allt það sem hugurinn girnist. Allt frá lopa til leikfanga og minjagripa til matvara, þar er lögð áhersla á íslenska hönnun og handverk úr héraði.
Á föstudögum kl 12:00 opnar svo grænmetismarkaður með lífrænu íslensku grænmeti frá Sólheimum og stendur markaðurinn til mánudags.
Skógasafn varðveitir og sýnir menningararf Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga í atvinnutækjum til lands og sjávar, í listiðn, gömlum húsakosti, bókum, handritum og skjölum, allt frá landnámsöld til samtímans.
Samgöngusafnið miðlar sögu samgangna á Íslandi á 19. og 20. öld. Þar má finna ferðabúnað, fornbíla, vegagerðartæki og margt fleira. Einnig er saga póstþjónustu, rafvæðingar, fjarskipta og björgunarsveita rakin á sýningunni.
Byggðasafnið í Skógum býr svo að stóru og glæsilegu útisýningarsvæði. Þar kennir margra grasa og má auðveldlega eyða dágóðum tíma í að rannsaka og skoða húsakost fyrri alda.
Það verður góð stemning alla helgina á Hellishólum og passað vel upp á allar sóttvarnarreglur þannig að allt fari vel fram. Göngutúr, golfkennsla og golfmót, brenna, brekkusöngur og lifandi tónlist er meðal þeirra uppákoma sem hægt verður að taka þátt í og svæðið á Hellishólum margrómað fyrir að vera fjölskylduvænt. Veitingastaðurinn Hygge er opinn alla helgina.
Ljósmyndahópurinn 860+ hefur sett upp sína árlegu ljósmyndasýningu á miðbæjartúninu á Hvolsvelli.
860+ er félagskapur Ljósmyndara í Rangárþingi eystra og nágrenni. Í félagskapnum eru áhugamenn á öllum stigu og menntaðir ljósmyndarar.
Á sýningunni í ár má sjá ljósmyndir eftir 18 ljósmyndara.