Kæru íbúar Rangárþings eystra

Nú á miðri aðventunni er ekki úr vegi að líta á það jákvæða og góða í lífinu.

Árið 2020 hefur svo sannarlega boðið okkur upp á ýmsar áskoranir til að takast á við og er aðdáunarvert hvað íbúar hér hafa fylgt þeim sóttvarnarreglum og samkomutakmörkunum sem í gildi eru hverju sinni af mikilli auðmýkt og samvisku. Ég vil því nota tækifærið og hvetja ykkur góðu íbúar til dáða að halda áfram á sömu braut, við megum ekki slaka til á þessum síðustu metrum. Það er vonandi stutt í land að mannlíf og atvinnulíf falli aftur í réttar skorður.

Því miður höfum við ekki getað haldið árlega viðburði hér á aðventunni eins og að hittast í miðbænum og gleðjast saman þegar jólaljósin voru tendruð og bjóða jólasveinana velkomna til byggða. Jólatónleikar með hefðbundnu sniði hafa ekki farið fram og jólahlaðborð og annars konar samvera hafa einnig þurft að víkja. Það er auk þess ljóst að hátíðarhöld og viðburðir um jól og áramót verða ekki með hefðbundnu sniði, en samvera með sínum allra nánustu verður þá líklega að sama skapi enn meiri og við getum skapað minningar sem munu vafalaust vera ýmsum öðrum ofar þegar fram líða stundir því við erum að upplifa sögulega tíma þó við hefðum sennilega helst viljað sleppa við þessa reynslu.

Við megum ekki gleyma því að í þessum áskorunum felast líka ýmis tækifæri sem við skulum nýta okkur sem best við getum og læra af þessari lífsreynslu sem við búum nú að í reynslubankanum. Þetta hafa íbúar hér í Rangárþingi eystra verið duglegir við. Þó að ekki hafi verið formleg jólagleði þegar kveikt var á ljósunum á Miðbæjarjólatréinu þá er ekki þar með sagt að þetta myndarlega jólatré hafi ekki verið nýtt til skemmtunar. Tveir elstu árgangarnir og kennarar þeirra úr Leikskólanum Örk héldu sína eigin skemmtun með tónlist og dansi og skemmtu sér konunglega.

Tónlistarskóli Rangæinga var með frábært framtak og brá á það ráð að streyma jólatónleikum sínum sem gerir í raun enn fleirum kleift að njóta þess að hlusta heima í stofu. Hvolsskóli hefur líka staðið sig stórkostlega í að nýta tæknina og var Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í beinu streymi og stóðu nemendur og kennarar sig mjög vel, þrátt fyrir örlitla tæknilega hnökra. Menningarnefnd Rangárþings eystra hefur auk þess veitt styrk til aðventutónleika sem fyrirhugað er að halda í beinu streymi, en þar ættum við að berja augum ýmsa góða flytjendur úr héraði. Það er margt sem er í boði, þökk sé tækninni og því fólki sem er lausnamiðað og drífandi.

Jólaundirbúningur hefur vafalaust verið með afar breyttu sniði hjá flestum nú fyrir jólin. Á hvolsvollur.is er að finna flipann Aðventa í Rangárþingi þar sem sjá má upplýsingar um verslun, þjónustu og afþreyingu ýmissa aðila hér á svæðinu. Þar er ýmislegt að finna og ég vil hvetja fólk til að nýta sér þjónustu hér í heimabyggð.

Það er margt í gangi í sveitarfélaginu okkar sem hægt er að gleðjast yfir og margt sem hefur verið ráðist í á árinu. Eitt er það sem hefur þó brunnið hvað helst á íbúum en það eru framkvæmdir við Íþróttamiðstöð. Á vordögum fór af stað vinna við endurbætur á klefum í íþróttamiðstöðinni. Í upphafi var lagt upp með að flísaleggja klefana enda lögnu orðið tímabært að þeir fengju andlitslyftingu. Fljótlega eftir að verkið fór af stað kom í ljós að það yrði talsvert umfangsmeira sökum rakaskemmda í gólfi og víðar. Eftir því sem verkinu miðaði áfram, komu fleiri þættir í ljós hver á fætur öðrum. Þegar ljóst var hversu miklar aðgerðir blöstu við var því ákveðið að bæta í og gera aðgengi fyrir alla, sem er mjög ánægjulegt. Endurbæturnar hafa því dregist verulega á langinn og gætir ákveðinnar óþreyju meðal íbúa að fá að berja herlegheitin augum og njóta nýrrar aðstöðu. Oft er sagt að góðir hlutir gerist hægt og verð ég að biðja íbúa að sýna áframhaldandi þolinmæði þar sem ljóst er að verkinu mun ekki ljúka fyrr en á fyrrihluta árs 2021. Verktakinn sem vann að verkinu er hættur og er verið að ganga frá samningum við nýja aðila svo frágangur gangi hratt og örugglega fyrir sig.

Það er ánægjulegt að segja frá því að nú á desemberfundi sveitarstjórnar var fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 samþykkt samhljóða. Sjaldan hefur jafn mikil samstaða ríkt í sveitarstjórn við gerð fjárhagsáætlunar. Allir forstöðumenn stofnana og starfsmenn sem komu að vinnunni unnu sem einn maður og er vert að þakka öllu þessu góða fólki, en áhersla var á að gæta aðhalds í rekstri og skera niður kostnað eins og mögulegt væri. Í þau 11 ár sem ég hef komið að gerð fjárhagsáætlunar í Rangárþingi eystra hefur þó aldrei verið eins vandasamt að vinna hana þar sem áhrif heimsfaraldursins hafa haft gríðarlega miklar efnahagslegar afleiðingar fyrir okkur og hefur öll vinna við fjárhagsáætlunargerðina litast mjög af því. Strax í upphafi lagði sveitarstjórn mikla áherslu á að tryggja alla grunnþjónustu, vernda störf, halda óbreyttum álögum og gjaldskrárhækkunum í algeru lágmarki. Þrátt fyrir það er það mat sveitarstjórnar að gríðarlega mikilvægt sé að leggja aukið fjármagn í framkvæmdir og fjárfestingar, enda er það mikilvægt hlutverk sveitarfélagsins þegar kreppir að í þjóðfélaginu. Markmiðið var að leggja í framkvæmdir sem væru hvað mest atvinnuskapandi fyrir nærsamfélagið og í metnaðarfullri framkvæmdaáætlun uppá 206.500.000 er lögð áhersla á fleiri en smærri verkefni. Stærsta einstaka verkefnið sem lagt verður af stað með er upphaf að byggingu nýrrar leikskólabyggingar sem er afar ánægjulegt að sé nú að fara af stað. Ég hvet alla íbúa til að kynna sér áætlunina í heild sinni inná heimasíðunni okkar www.hvolsvollur.is. Það verður spennandi að takast á við nýtt ár og þessi metnaðarfullu verkefni sem framundan eru.

Ég óska ykkur öllum góðrar helgar og áframhaldandi gleðilegrar aðventu.

Með kærleikskveðju

Lilja Einarsdóttir

Sveitarstjóri.