- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Mikil úrkoma og vatnsflóð gekk yfir Rangárþing eystra í byrjun vikunnar og olli tjóni á vegum og göngustígum. Hringvegurinn flæddi yfir á nokkrum stöðum og göngustígurinn að Kvernufossi skemmdist mikið.

Mynd/Vegagerðin
Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Vík, segir að vatn hafi flætt yfir Hringveginn á nokkrum stöðum, meðal annars við Bakkakotsá, Kaldaklifsá og Holtsá. Við Bakkakotsá flaut lögreglubíll utan vegar vegna vatnsflóðsins. Vegagerðin þurfti að stýra umferð um Hringveginn á meðan vatnið flæddi yfir og kallaði til verktaka til að gera við varnargarða.
Lögreglan aðstoðaði fólk við Skógafoss þar sem aðstæður voru afar slæmar og allt umflotið. Björgunarsveitir voru einnig kallaðar út til að aðstoða við aðstæður.
Mestu skemmdirnar urðu á göngustígnum að Kvernufossi þar sem um 30 metra kafli skolaðist í burtu. Fínefni og mottur skoluðust einnig í burtu á stórum hluta stígsins. Starfsfólk á vegum sveitarfélagsins unnu í dag, föstudaginn 13. desember, að því að gera bráðabirgðaviðgerðir á göngustígnum.


Sveitarfélagið hvetur fólk til að fara varlega þegar það gengur að Kvernufossi.