Seinustu helgi 2. – 3. maí fóru 34 unglingar á elsta stigi Hvolsskóla með félagsmiðstöðinni Tvisturinn á Samfestinginn í Reykjavík.

Á föstudagskvöldinu var haldið stærsta unglingaball ársins þegar að 4.500 ungmenni alls staðar að af landinu komu saman til að fagna lokum vetrarstarfs í félagsmiðstöðvunum. Fjölmargir listamenn skemmtu þeim á ballinu, meðal þeirra sem komu fram voru Aron Can, Gugusar, XXX Rottweiler, Daniil og Auddi og Steindi sem héldu uppi trylltri stemningu.

Ballið gekk mjög vel fyrir sig og allir sem komu með okkur hjá Tvistinum voru til fyrirmyndar allt kvöldið. Daginn eftir, laugardaginn 3. maí, var svo söngkeppni Samfés þar sem að þær Unnur Kristín, Freyja, Fanndís Lilja, Ólöf og Úlfhildur Vaka tóku þátt fyrir hönd Tvistsins, þær fluttu lagið Dansaðu með Bubba Morthens og gerðu það frábærlega.