Síðasta vika hefur einkennst af mikilli umhverfisvitund og samstöðu, bæði hér í Rangárþingi eystra og á landsvísu, þar sem hinn árlegi plokkdagur sveitarfélagsins og Stóri plokkdagurinn fóru fram með glæsibrag. Íbúar sýndu einstakan áhuga og lögðu sitt af mörkum til að fegra umhverfið, sem endurspeglar þann sterka vilja sem býr í samfélaginu til að halda náttúrunni hreinni.
Árlegur plokkdagur í Rangárþingi eystra vel heppnaður
Sunnudaginn 27.apríl fór fram hinn árlegi plokkdagur, Rangárþing eystra og Rótarýklúbbúrinn samnýttu krafta sína og hreinsuðu þorpið okkar með því að plokka rusl og hreinsa nærumhverfið. Boðið var upp á grillaðar pylsur og íbúar á öllum aldri tóku þátt í átakinu.
Sérstakar þakkir fá nemendur í 10. bekk Hvolskóla fyrir þeirra framlag. Þau sýndu mikinn dugnað og héldu hreinsunarátakinu áfram með því að sinna svæðum sem ekki hafði náðst að hreinsa á sjálfan plokkdaginn. Heil 200kg af rusli söfnuðust saman hjá þeim.
Þess ber einnig að geta að fleiri hafa lagt hönd á plóg. Þann 28. apríl stóð Midgard Adventure fyrir hreinsun á Landeyjarfjöru, þar sem hreinsuð voru heil 2 tonn af rusli!. Eftir hreinsunina bauð Sláturfélag Suðurlands upp á veitingar. Öll þessi dæmi vitna um þann metnað sem íbúar og fyrirtæki í Rangárþingi eystra hafa fyrir snyrtilegu umhverfi.
Stóri plokkdagurinn á landsvísu – Frábær þátttaka um allt land
Stóri plokkdagurinn fór einnig fram sunnudaginn 11. maí um allt land. Viðburðurinn var settur með viðhöfn af Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, og Jóni Karli Ólafssyni, forseta Rótarý-hreyfingarinnar. Þessi landsvísi viðburður, sem er samstarfsverkefni Rótarýhreyfingarinnar, Landsvirkjunar og Umhverfisráðuneytisins, hefur sannað gildi sitt og er orðinn að mikilvægum degi í umhverfisvernd og snyrtimennsku á Íslandi.
Hvatning til áframhaldandi árvekni
Þótt þessir stóru plokkdagar séu nú að baki, vill Rangárþing eystra hvetja alla íbúa og fyrirtæki á svæðinu til að halda áfram að sýna umhverfinu virðingu og árvekni. Hvert einasta rusl sem er tekið upp skiptir máli og stuðlar að fegurra og heilbrigðara umhverfi fyrir okkur öll.
Rangárþing eystra hvetur íbúa sem og fyrirtæki á svæðinu til að leggja sitt af mörkum og hreinsa nærumhverfið eftir veturinn.