Gestastofan á Þorvaldseyri hlaut í gær Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2014. Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, sem afhenti þeim Ólafi Eggertssyni, Guðnýju A. Valberg og Þuríði Ólafsdóttur verðlaunin.
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Gestastofan á Þorvaldseyri sé nýlegt verkefni sem náð hafi gríðarlegum vinsældum á skömmum tíma og eflt framboð afþreyingar og tilefni til dvalar á suðurströnd landsins. Jafnframt að Gestastofan hafi verið reist á undraskömmum tíma í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli vorið 2010. Meðan margir hafi séð fyrir sér landauðn og að bændur þyrftu að bregða búi hafi staðarhaldarar á Þorvaldseyri, Ólafur Eggertsson og Guðný A. Valberg, séð möguleika í að deila ægiafli náttúru með þeim gestum sem áttu leið um Suðurströnd.
Rangárþing eystra óskar Gestastofunni innilega til hamingju með verðlaunin og hefur sveitarstjóri sent þeim hjónum, Ólafi og Guðný, heillaóskaskeyti.
Meðfylgjandi mynd er frá fréttasíðu Vísis