- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir

Helgina 21.-24. ágúst næstkomandi mun nýstofnað Njálufélag efna til Njáluvöku í Rangárþingi undir forystu Guðna Ágústssonar, formanns Njálufélagsins og fyrrverandi ráðherra. Hátíðin heiðrar arfleifð Brennu-Njálssögu og vekur söguna til lífsins á söguslóðum hennar.
Markmið félagsins er að hefja Brennu-Njáls sögu til þess vegs og virðingar sem henni ber í íslenskri bókmenntasögu. Gestum gefst einstakt tækifæri til að upplifa söguna á lifandi og áþreifanlegan hátt í gegnum fjölbreytta dagskrá sem höfðar til allra aldurshópa.
Dagskrá hátíðarinnar:
Fimmtudagur:
Skemmti-, lista- og fræðakvöld. Frumsýning sérsaminna leikþátta, Karlakór Rangæinga, Hundur í óskilum með ný frumsamin Njálutengd lög, erindi um tvær af sterkustu persónum Njálu o.fl. Glitrandi listaperlur og fróðleiksmolar sem gera fyrsta kvöld Njáluvöku ógleymanlegt. Efnið verður síðar aðgengilegt á vefnum njaluslodir.is.
Svandís Dóra Einarsdóttir, höfundur sérsaminna leikþátta úr Njálu ásamt leikhópi sínum, Atla Rafni Sigurðssyni, Ingvari Sigurðssyni og Sólveigu Arnarsdóttur
Hundur í óskilum – Eiríkur G. Stephensen og Hjörleifur Hjartarson
Karlakór Rangæinga undir stjórn Einars Þórs Guðmundssonar
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, prófessor og þjóðfræðingur, um harm Hildigunnar Starkaðardóttur
Friðbjörn Garðarsson hæstaréttarlögmaður um Njál Þorgeirsson, lögspeking Íslands
Guðni Ágústsson, setningarávarp
Aðgangseyrir 4.500 kr.
Laugardagur:
Hópreið 99 skikkjuklæddra hestamanna í slóð Brennu-Flosa lýkur með skrautreið á Rangárbökkum áður en eldur er borinn að táknrænni endurbyggingu Bergþórshvols. Heyra má Njál og Bergþóru mæta örlögum sínum í bálinu. Víkingabardagi, fimi Skarphéðins, karlakór Rangæinga ásamt Öðlingunum, Hundur í óskilum, brekkusöngur o.fl. Eftirminnileg skemmtun með sögulegu ívafi.
Arthur Björgvin Bollason og Guðni Ágústsson sagnamenn og stjórnendur kvöldsins
Karlakór Rangæinga og Öðlingarnir
Hundur í óskilum – Eiríkur G. Stephensen og Hjörleifur Hjartarson
Jón Sigurður Gunnarsson, margfaldur Íslandsmeistari í fimleikum
Víkingafélagið Rimmugýgur sviðssetur bardaga undir alvæpni
Hermann Árnason leiðir brennureið og tendrar bálið
Leikraddir innan úr Bergþórshvoli magna stemningu brennunnar
Magnús Kjartan Eyjólfsson leiðir brekkusöng
Enginn aðgangseyrir. Hátíð í boði Njálufélagsins.
Sunnudagur:
Hátíðarmessa í Oddakirkju til heiðurs Snorra Sturlusyni með margvíslegum Njálutengingum.
Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Oddaprestakalli
Kirkjukór Odda- og Þykkvabæjarkirkna
Sr. Kristján Arason, prestur á Breiðabólsstað
Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prófastur og prestur í Hrunaprestakalli
Óskar Guðmundsson rithöfundur: Njála og Snorri Sturluson
Veitingar í anda víkinga: Veitingastaðir á svæðinu taka þátt í hátíðinni með því að bjóða upp á sérstaka matseðla þar sem áhersla er lögð á hráefni og matreiðslu að fornum sið.
Guðni Ágústsson, sem hefur lengi verið ötull talsmaður fyrir varðveislu og miðlun íslensks menningararfs, segir hátíðina vera mikilvæga fyrir samfélagið. „Njála er hornsteinn íslenskrar menningar og það er okkur sönn ánægja að sjá jafn marga, bæði heimamenn og gesti, koma saman og gleðjast á söguslóðunum. Það er von okkar að hátíðin efli enn frekar stolt íbúa af sínu héraði og þeim einstaka arfi sem við búum yfir,“ segir Guðni.
Sveitarfélagið hvetur íbúa og gesti til að taka helgina frá og taka virkan þátt í þeim fjölmörgu viðburðum sem verða í boði. Nánari upplýsingar um dagskrá, staðsetningar og tímasetningar má finna á vefsíðunni njaluslodir.is og á Facebook-síðu félagsins.
