- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Mikið er um að vera á Hvolsvelli þessa dagana og bærinn iðar af lífi. Mikið er um framkvæmdir bæði á vegum sveitarfélagsins og einkaaðila.
Stærsta einstaka fjárfesting Rangárþings eystra árið 2025 er endurnýjun gatnagerðar í Stóragerði á Hvolsvelli, en kostnaðaráætlun þess verkefnis er um 200 milljónir króna. Um er að ræða verulega umfangsmikið verk sem tekur til endurnýjunar lagna, yfirborðs gatna og gangstétta. Nauðsynlegt er að ráðast í þessa endurnýjun eldri gatna á Hvolsvelli þar sem innviðir þeirra eru allir komnir á tíma. Eins stuðlar framkvæmdin að öruggara umhverfi fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur. Framkvæmd sem þessi þarf að vera mjög vel skipulögð og í góðu samráði við íbúa, veitufyrirtæki, verktaka o.fl. Verkið hófst lok apríl 2025 þar sem byrjað var á áfanga 1 frá Vallarbraut að Litlagerði.
Framkvæmdir í Hallgerðartúni eru í fullum gangi og rís hvert húsið á eftir öðru þar. Um er að ræða bæði einbýlishús, parhús, raðhús og fjölbýli. Næsta gata, Bergþórugerði, er þegar í bígerð og var óskað eftir tilboðum í framkvæmdir þar í byrjun mánaðar.
Engan skal undra áhuginn á lóðum í sveitarfélaginu því hér er gott að búa.
Margir hafa undrast hversu hratt nýjasta hótel bæjarins rís en það er Hótel Lóa sem opnar í sumar. Um er að ræða 66 herbergja hótel með veitingastað. Á túninu milli apóteksins og N1 rís svo annað hús sem er í eigu sömu aðila og Hótel Lóa.
Hinu megin við götuna, hjá Lava Centre, var svo nýlega opnað bæði kaffihús og veitingastaður. Ferðamenn og íbúar hafa því nú úr enn þá fleiri veitingastöðum að velja.
Eins og flestir íbúar hafa tekið eftir hefur gestum á svæðinu fjölgað mikið þessa vikuna en upptökur á stórri kvikmynd standa nú yfir í sveitarfélaginu. Um 400 aukaleikarar og starfsfólk myndarinnar gista í Hvolsskóla eins og áður hefur verið sagt frá í frétt á heimasíðunni.
Hluti þeirra gistir einnig á okkar glæsilega tjaldstæði sem nýtur mikilla vinsælda allt sumarið. Þar verða um 500 manns um helgina og 300 af þeirri tölu á vegum kvikmyndahópsins. Heimaklettur, ferðaklúbbur Vestmannaeyinga, verður með Kántríhátíð á laugardaginn. Um aðra helgi er svo von á Félagi húsbílaeigenda sem telur um 100 bíla svo það verður því nóg um að vera á tjaldstæðinu á næstunni. Staðarhaldarar hafa tekið fram að við séum einstaklega heppin með gesti, þeir eru bæði kurteisir og ganga vel um.
Nýlega var 17. júní haldinn hátíðlegur víða um sveitarfélagið, hljólreiðakeppnin TheRift verður í júlí og svo að sjálfsögðu Kjötsúpúhátíðin í lok ágúst sem alltaf er jafn vinsæl.
Það má því svo sannarlega segja að hér sé líf og fjör og sveitarfélagið í blóma.
Framkvæmdir í Stóragerði og hluti þeirra búnaðar sem fylgir kvikmyndatökum.
Hótel Lóa rís hratt
Aðstaða starfsfólks hótelsins
Á Lava Centre er nýlega opnað kaffihús og veitingastaður
Fullt af tjöldum og hjólhýsum á tjaldstæðinu.
Framkvæmdum í Hallgerðartúni miðar vel áfram.