- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Verslunarmannahelgin er ein stærsta ferðahelgi ársins og í Rangárþingi eystra verður nóg um að vera fyrir íbúa og gesti. Fljótshlíðin iðar sérstaklega af lífi um helgina en þar fara fram tvær stórskemmtilegar og ólíkar fjölskylduhátíðir: hið rótgróna Kotmót í Kirkjulækjarkoti og hin árlega Flughátíð í Múlakoti.

Kotmót er kristileg fjölskylduhátíð sem hefur verið haldin árlega allt frá árinu 1949. Áhersla er lögð á vandaða dagskrá fyrir alla aldurshópa með sérstöku barnamóti og dagskrá fyrir unglinga. Fjölskyldan getur notið gæðastunda saman alla helgina. Á laugardeginum verður hið vinsæla fjölskyldu Karnival. Þar verður meðal annars hoppukastali, andlitsmálning, vatnsfótbolti, candyflos og margt fleira. Um kvöldið verður varðeldur og sungið saman. Þeir sem muna eftir jólatónleikum Fíladelfíukirkjunnar sem sjónvarpaðir voru ár hvert verða ekki fyrir vonbrigðum á sunnudagskvöldinu. Þá verða stórglæsilegir tónleikar með hljómsveit, kór og einsöngvurum þar sem nokkrir úr okkar héraði koma meðal annara fram. Þar má nefna Maríanna Másdóttir og bandið Andvari sem eru þær Rebekka Katrínar, Írena Víglunds og Glódís Margrét. Við hvetjum alla til að heimsækja „Kotið“ um helgina og upplagt tækifæri til að skoða Örkina sem Hvítasunnuhreyfingin hefur lagt mikla vinnu í að byggja að mestu með sjálfboðaliðum og frjálsum framlögum.
Hagnýtar upplýsingar - Kotmót:
Aðgangseyrir: Ókeypis inn á svæðið og á viðburði.
Verð fyrir tjaldsvæði (per nótt): Fullorðnir (18+): 1.850 kr. / Unglingar (14-17 ára): 1.100 kr. / Börn (0-13 ára): Frítt. Rafmagn kostar 1.000 kr. aukalega.
Aðstaða: Veitingastaðurinn Arkarinn og sjoppa á staðnum.
Nánari upplýsingar og dagskrá: www.kotmot.is


Í Múlakoti verður árleg fjölskylduhátíð flugáhugafólks á sínum stað. Þar gefst tækifæri til að skoða flugvélar og fylgjast með lífinu í kringum flugið. Nóg verður um að vera fyrir börn og fullorðna, þar á meðal lendingarkeppni, hoppukastali og hoppubelgur. Á laugardagskvöld verður svo hið víðfræga Skýlisball.
Hagnýtar upplýsingar - Flughátíð:
Aðgangseyrir: Frítt tjaldstæði fyrir gesti og gangandi.
Viðburðir: Lendingarkeppni, hoppukastali og fleira. Skýlisball á laugardagskvöld.
Aðstaða: Sjoppa á staðnum fyrir þá sem þurfa næringu.
Sveitarfélagið hvetur alla til að heimsækja Fljótshlíðina um helgina og njóta þeirrar fjölbreyttu og skemmtilegu dagskrár sem er í boði fyrir alla fjölskylduna.
Gleðilega verslunarmannahelgi!