- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Námskeiðið var skipulagt af Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og Umhverfisstofnun. Þátttakendur á námskeiðinu voru frá nokkrum stofnunum er vinna að gönguleiðamálum á vegum ríkisins auk þátttakenda frá Ferðafélagi Íslands, Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Landbúnaðarháskóla Íslands o.fl. Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu studdu við námskeiðið og var t.d. gisting og fundarsalur í Básum í boði Ferðafélagsins Útivistar.
Á námskeiðinu var farið yfir ýmsa þætti varðandi gönguleiðir, bæði hvaða vandamál er við að eiga á gönguleiðum, s.s. ágang vatns, skriður, lélegt undirlag stíga og aukinn ágang ferðamanna. Enn fremur var farið yfir fjölmargar lausnir sem til eru varðandi viðhald gönguleiða, s.s. gerð vatnsræsa, ofaníburð, tröppu, þrepa- og pallagerð. Skoðaðar voru sérstaklega mismunandi lausnir í efnisvali við viðhald gönguleiða eins og grjót, timbur eða annað. Farið var yfir hvernig færa mætti til gönguleiðir og loka eldri leiðum á mismunandi svæðum. Jafnframt var farið yfir sjálfboðaliðastarf og hvernig staðið er að því að fá áhugasama sjálfboðaliða til starfa við viðhald gönguleiða fyrir ýmsar stofnanir hér á landi. Helstu fyrirlesarar voru Charles J. Goemans frá Skógræktinni, René Biasone frá Umhverfisstofnun, Kári Kristjánsson frá Vatnajökulsþjóðgarði, Dagbjört Garðarsdóttir frá Landslagi, Hreinn Óskarsson frá Skógrækt ríkisins og Jóna Björk Jónsdóttir frá Landgræðslu ríkisins sem bar hitann og þungann af undirbúningi námskeiðsins og skráningu
Þátttakendur á námskeiðinu fóru víða um Goðaland og Þórsmörk og skoðuðu þær lausnir sem sjálfboðaliðahópar á vegum Þórsmörk Trail Volunteers hafa unnið að undir stjórn Charles J. Goemans síðustu ár. Voru þátttakendur afar sáttir og bjartsýnir á framtíð viðhalds fjölfarinna gönguleiða eftir að hafa skoðað hvernig gera má einfaldar en endingargóðar lausnir á erfiðum leiðum sem oft liggja um brattlendi.
Stefnt er að því að stofna samtök þeirra aðila sem vinna að viðhaldi gönguleiða víða um land svo hóparnir geti hist, skoðað gönguleiðir víða um land og deilt reynslu í stígagerð. Enn fremur er stefnt að því að endurtaka námskeið í öðrum landshlutum á næstum misserum og verða fulltrúar sveitarfélaga sérstaklega hvattir til að mæta.
Myndir og texti er fengið að láni frá Skógrækt ríkisins/ Hreinn Óskarssdon